Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 414

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
01.02.2024 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2401027 - Menningarmál umsókn í lista og menningarsjóð 2023
Þann 15.nóvember sl. rann út frestur til að sækja um styrk í lista- og menningarsjóð Ölfuss fyrir árið 2023.
Ein umsókn barst frá Lúðrasveit Þorlákshafnar þar sem óskað var eftir styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu á þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að veita Lúðrasveit Þorlákshafnar styrk úr lista- og menningarsjóði upp á 1.000.000. kr.

Samþykkt samhljóða.

Ása Berglind kom aftur inn á fundinn.
2. 2401035 - Boð til bæjarfulltrúa um þátttöku í vinabæjarmóti
Bréf frá Norræna félaginu í Ölfusi þar sem bæjarfulltrúum er boðin þátttaka á vinarbæjarmóti í Vimmerby 3.-7.júlí nk.

Bæjarráð beinir erindinu til umfjöllunar í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.
3. 2311051 - Útboð á vátryggingum Sveitarfélagsins Ölfuss
Fyrir fundinum liggur til kynningar útboðslýsing vegna útboðs á vátryggingum fyrir Sveitarfélagið Ölfus. Útboðið hefur verið auglýst á og rennur tilboðsfrestur út 23.02.2024.

Lagt fram til kynningar.
4. 2305035 - Fasteignaþróun við Óseyrarbraut
Fyrir bæjarráði lá samkomulag við Hafnarnes Fasteignir ehf. um fasteignaþróun við sunnanverða Óseyrarbraut. Hið endanlega samkomulag var unnið í framhaldi af ítrekaðri umfjöllun í bæði skipulags- og umhverfisnefnd, bæjarráði og bæjarstjórn. Eins og komið hefur fram er með því stefnt að fasteignaþróun við sunnanverða Óseyrarbraut í Þorlákshöfn. Á umræddum skipulagsreitum gætu rúmast 90 til 120 íbúðir í bæði sérbýli og fjölbýli. Stefnt er að því að samhliða verður unnið að byggingu á hjúkrunarheimili við Egilsbraut og fjölgun sérhæfðs leiguhúsnæði fyrir aldraða.

Fram kemur í samkomulaginu að sérstök áhersla verði lögð á lágreista byggð sem fellur vel að eldri mannvirkjum á aðliggjandi svæði og ráðandi hlutfall íbúða verði hugsað fyrir fjölskyldufólk þar sem umhverfið verður hannað út frá þörfum barna.

Bæjarráð samþykkir samkomulagið.

Samþykkt samhljóða.
5. 2401045 - Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga
Lagt fram til kynningar.
6. 2401046 - Umsókn um kaup á fasteign og meðfylgjandi lóð Nesbraut 8
Fyrir bæjarráði lá fyrir umsókn um kaup á fasteigninni Nesbraut 8 (F2212913) og meðfylgjandi lóð (L172301) þar sem nú stendur svokallaður "dósaskúr". Áform umsækjanda er að ráðast í byggingu á vöruhúsi á lóðinni til að taka á móti, geyma til skemmri tíma og dreifa aðföngum til notkunar í fiskeldisstöðvum í útjaðri Þorlákhafnar.

Umsækjandi hefur nú þegar gert samninga við erlenda birgja varðandi innflutning og dreifingu á aðföngum. Miðað við umsvif umsækjanda skv. þessum áformum er ljóst að tekjur hafnarsjóðs á ári verði yfir 100 milljónir vegna starfseminnar og er þá ótalið tengdar tekjur til sveitarfélagsins s.s. vegna útsvarstekna starfsmanna, fasteignagjalda o.fl. Um er að ræða störf við uppskipun, vinnu í vöruhúsi, þjónustu, afgreiðslu og stjórnun. Samkvæmt núverandi þarfagreiningu og áætlunum munu skapast 30 stöðugildi í fyrirtækinu á innan við 5-7 árum.

Umsækjendur eru meðvitaðir um mikilvægi þess að vel takist til við hönnun og útfærslu þess húsnæðis sem þarna mun rísa. Sérstök áhersla veður lögð á útlit bygginga og lóðarinnar í heild. Þá verða tilgreindar byggingar jafnframt nýttar til að veita íbúabyggð skjól frá hafnarsvæði og draga þannig úr hljóð- og ljósmengun ásamt því að bæta ásýnd hafnarsvæðisins.

Grétar Ingi Erlendsson vék af fundi við afgreiðslu á þessum lið fundarins.

Bæjarráð lýsir sig jákvætt fyrir erindinu og telur ekkert því til fyrirstöðu að selja fasteignina og ráðast í tilgreindar breytingar, með fyrirvara um lögbundið skipulagsferli. Betur fer enda á því að sú starfsemi sem er í eigninni verði flutt í nýja aðstöðu fyrir sorpmóttöku við Norðurbakka 6. Bæjarráð telur þó eftir sem áður mikilvægt að allar eignir sveitarfélagsins séu auglýstar á opinn máta áður en til sölu kemur og felur því starfsmönnum sínum að auglýsa tilgreinda fasteign til sölu.

Samþykkt samhljóða.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi H-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Fyrirætlanir málsaðila eru þær að byggja stórt vöruhús og þar með stækka umsvif iðnaðarsvæðisins og færa nær íbúabyggð eldri borgara. Lóðin er á opnu svæði í aðalskipulagi, merkt sem minjasvæði og því þarf að fara í breytingar á aðalskipulagi ef vera á með umrædda starfsemi á lóðinni. Á sama tíma eru lausar lóðir á skipulögðu iðnaðarsvæði sem er í mikilli nálægð við fiskeldin sem munu nýta þá afurð sem á að sýsla með í vöruhúsinu. Það er í alla staði eðlilegra að nýta þær lóðir heldur en að færa iðnaðarsvæðið enn nær íbúabyggð með tilheyrandi breytingum á aðalskipulagi.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 9:30 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?