Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 305

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
25.08.2022 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varaforseti,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Erla Sif Markúsdóttir bæjarfulltrúi,
Hrönn Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi,
Gunnsteinn R. Ómarsson 1. varamaður,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir bæjarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Forseti bauð Gunnstein Ómarsson sérstaklega velkominn á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund sem kjörinn fulltrúi.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2208042 - Bæjarstjórn Ölfuss - fyrirkomulag funda
Lagt er til að hefðbundinn fundur bæjarstjórnar verði þann 22. september í stað 29.september vegna landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Einnig er lagt til að hefðbundinn fundur bæjarstjórnar í október verði þriðjudaginn 25.október í stað 27.október vegna ársþings SASS.



Samþykkt samhljóða.
2. 2208019 - Hjólastígar í dreifbýli
Fyrir bæjarstjórn lá handskrifað og myndskreytt erindi frá Hrólfi Vilhelm 9 ára íbúa á Þóroddsstöðum þar sem hann bendir á þörfina fyrir hjólastíga.
Bæjarstjórn þakkar fallegt og einlægt erindi og tekur ábendingunni alvarlega.

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi afgreiðslutillögu fyrir hönd meirihlutans:
Bæjarstjórn beinir erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar með beiðni um að stofnaður verði stýrihópur til að grófhanna hjóla- og göngustígakerfi í dreifbýlinu með áherslu á tengingar við helstu þéttbýlisstaði. Samhliða verði framkvæmdinni áfangaskipt og forgangsraðað. Bæjarstjórn hvetur sérstaklega til þess að stýrihópurinn leiti álits hjá Hrólfi Vilhelm og öðrum börnum við undirbúning verkefnisins.

Hrönn Guðmundsdóttir og Gunnsteinn Ómarsson tóku til máls.

Samþykkt samhljóða.
3. 2208041 - Heidelberg - umræða um stöðu verkefnisins
Bæjarstjórn ræddi verkefni Heidelberg sem gengur út á framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum í steypu.

Komið hefur fram að fyrirhugað er að vinna "possólan"efni úr móbergi sem fengið verður úr námum í nágrenni Þorlákshafnar. Þessi efni hafa á síð­ari tímum öðl­ast mikla þýð­ingu vegna áhrifa þeirra, til þess að minnka koldí­oxíð-út­streymi frá stein­steypu­gerð þar sem þau leysa af iðn­að­ar­úr­gang sem hefur verið nýttur sem poss­ól­anísk íblönd­un­ar­efni í sem­ent.

Fyrir liggur að Sveitarfélagið Ölfus hefur þegar úthlutað áður skipulögðum og auglýstum lóðum á hafnarsvæðinu fyrir starfsemina auk þess sem námuframkvæmdin er í umhverfismati. Þá liggur enn fremur fyrir að ekkert hefur verið ákveðið hvað varðar útlit eða eðli mannvirkja þeirra sem reisa þarf né heldur með hvaða hætti efnið verður flutt þá 14 km. sem eru frá námu að höfn.

Elliði Vignisson bæjarstjóri fór yfir tímalínu verkefnisins frá því að það kom fyrst til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu. Í máli hans kom fram að verkefnið hafi verið í skoðun frá því í maí 2020. Fjallað hefur verið um það á a.m.k. 9 formlegum fundum þar sem a.m.k. 18 fulltrúar hafa setið kynningu og/eða greitt um það atkvæði.


Gunnsteinn Ómarsson, Grétar Ingi Erlendsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Elliði Vignisson, Hrönn Guðmundsdóttir og Erla Sif Markúsdóttir tóku til máls.

Erla Sif Markúsdóttir D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaðar, sem eru að koma nýjar að vinnslu þessa máls, lýsa undrun á afstöðu minnihlutans við framgang þess. Öllum bæjarfulltrúum er löngu ljóst að verkefnið er eingöngu á undirbúningsstigi og langt frá því að eitthvað hafi verið ákveðið. Komið hefur fram að fyrrverandi bæjarstjórn sem og núverandi hefur ríkan fyrirvara á forsendum og gerir ríkar kröfur. Allt tal um að málið sé lítið kynnt og lítið rætt meðal kjörinna fulltrúa er fjarstæða.

Undirritaðar hafa nýtt sér rétt sinn til að kynna sér gögn tengd verkefninu sem þær hafa aðgengi að sem kjörnir fulltrúar. Með hliðsjón af þeim styðja þær heilshugar að samtali við fyrirtækið verði haldið áfram með þeim fyrirvara sem áður hefur verið lýst sem nær til að mynda til þeirrar sjálfsögðu kröfu að flutningur efnis fari ekki um hið almenna þjóðvegakerfi, að útlit bygginga verði í takt við það sem almennt gengur og gerist við höfnina, að ekki verði ami af daglegri starfsemi o.fl. Geti fyrirtækið ekki staðist slíkar kröfur er verkefninu því sjálf hætt.

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir D-lista
Erla Sif Markúsdóttir D-lista

Grétar Ingi Erlendsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirrituð hafna með öllu fullyrðingum minnihlutans um það verkefni sem hér um ræðir. Nánast ekkert af því sem í máli þeirra hefur komið fram á stoð í veruleikanum. Það er rangt að eitthvað hafi verið ákveðið. Málin eru til skoðunar og eingöngu verið að kanna hvort að hagsmunir samfélagsins hér og þessa loftslagsverkefnis fara saman. Það er rangt að ákveðið hafi verið að aka með jarðefni eftir Þrengslunum og til Þorlákshafnar. Til athugunar er til að mynda að flytja efnið í lokuðum kerfum eftir færiböndum.
Það er rangt að þetta mál sé á forræði meirihlutans. Málin hafa ýmist verið samþykkt með 6 atkvæðum gegn einu í bæjarstjórn eða með öllum greiddum atkvæðum í skipulagsnefnd án mótatkvæða. Það er rangt að heimilað hafi verið að vera með 50m há mannvirki við Þorlákshöfn. Komið hefur fram ósk um slíkt hjá framkvæmdaraðila en heimild hefur ekki verið veitt. Þessi mál eru á forræði skipulagsnefndar og verða skoðuð með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Það er rangt að fyrir liggi útlit mannvirkja og að þau verði þannig að ósómi verði af. Engin mannvirki hafa verið hönnuð, ekkert útlit hefur verið ákveðið, engu skipulagi hefur verið breytt. Það eina sem hefur verið gert er að úthluta lóðum sem áður voru auglýstar í samræmi við reglur sveitarfélagsins. Þvert á móti hefur rík krafa verið gerð um að hönnun mannvirkja falli að metnaði sveitarfélagsins í umhverfismálum. Af því verður ekki gefinn afsláttur.
Það er rangt að rykmengun verði frá starfseminni. Öll vinnsla er í lokuðum kerfum og engin efnisgeymsla undir berum himni. Frá því að efnið er tekið upp úr námunni kemur það ekki aftur undir bert loft hér á landi. Skýr ákvæði verða um rykmengun í starfsleyfi og skipulagi lóðanna. Það er rangt að hávaðamengun verði af starfseminni. Vinnslan er í lokuðum og einangruðum rýmum sem lágmarka allan mögulegan hljóðleka. Skýr ákvæði verða í starfsleyfi og skipulagi lóða um hámarks hljóð sem berast mega frá starfseminni. Ekki stendur til að lækka þær kröfur frá því sem nú er. Verði þeim breytt verður það til að herða enn frekar þar á.

Gestur Þór Kristjánsson D-lista
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir D-lista
Grétar Ingi Erlendsson D-lista
Erla Sif Markúsdóttir D-lista

Grétar Ingi Erlendsson lagði einnig fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn lýsir því yfir að hún telur að svo stöddu ekki ástæðu til að hverfa frá samtali við fyrirtækið Heidelberg um uppsetningu á framleiðslufyrirtæki sem framleiða mun umhverfisvæn íblöndunarefni til steypuframleiðslu.
Bæjarstjórn minnir þó eftir sem áður á að enn hafa engar ákvarðanir verið teknar og málið eingöngu á umræðustigi. Í því samhengi minnir bæjarstjórn á eftirfarandi kröfur sínar sem ekki verður vikið frá:

1. Þegar fyrir liggur með hvaða hætti starfsemin verður, svo sem flutningur á efni, útlit bygginga og fl. verður málið kynnt fyrir íbúum og eftir atvikum haldin íbúakosning um framgang þess.

2. Bæjarstjórn áskilur sér fullan rétt til að tryggja hagsmuni samfélagsins við vinnslu málsins. Verði verkefnið á einhverjum tímapunkti metið skaðlegt fyrir heildar hagsmuni samfélagsins er því sjálf hætt.

3. Ekki kemur til greina að efni verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum.

4. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefin af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina. Til að tryggja slíkt kemur m.a. til greina að fela umhverfis- og skipulagsnefnd að skipa faghóp með arkitekt, verkfræðing og fl. sem tryggja skulu að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samafélagið en ekki skaða það.

5. Ekki kemur til greina að afsláttur verði gefin af almennum kröfum um hljóðmengun, rykmengun og annað það sem valdið getur samfélaginu ama. Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

Gestur Þór Kristjánsson D-lista
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir D-lista
Grétar Ingi Erlendsson D-lista
Erla Sif Markúsdóttir D-lista


Gunnsteinn Ómarsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa B- og H-lista:

Við leggjum áherslu á og förum fram á það að ekki verði haldið lengra í þessu verkefni með Heidelberg fyrr en íbúar eru búnir að fá greinargóða og gagnrýnda kynningu, ekki aðeins frá framkvæmdaraðila heldur öðrum og ólíkum hagsmunaaðilum.

Það er ljóst að það eru a.m.k. tvö ár síðan samstarf sveitarfélagsins og þessara aðila hófst með viljayfirlýsingu þar sem sérstaklega var kveðið á um að á undirbúningstíma úthluti sveitarfélagið ekki öðrum aðilum tilgreindar lóðir nærri hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að félagið nýti undir byggingar sem það þarf vegna starfsemi sinnar. Nú hefur þessum lóðum verið úthlutað, umhverfismatsskýrslan liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun til umsagnar og ef ekki þykir ástæða til að hafa samfélagið með í áframhaldandi ákvörðunartöku hvenær þá?

Málið þarf einnig að skoða í miklu stærra samhengi, eins og í sambandi við framtíðaruppbyggingu á atvinnustarfsemi við höfnina. Það getur verið erfitt að átta sig á stærðargráðu þessa verkefnis en til samanburðar þá er starfsfólk Ramma í Þorlákshöfn um 60 manns. Lóðin er rúmur hektari og fasteignirnar rúmir 5 þús. fm. Skinney eru með fleiri í landvinnslunni hjá sér, um 50, en engan bát skráðan hér í höfn lengur. Þeir eru á mun minni lóð, um 3.500 fm og í 2.000 fm húsnæði.

Gert er ráð fyrir 60-80 störfum í Heidelberg verkefninu sem tekur upp allar lausar lóðir við höfnina eða um 50.000 fm. lands og 25 ha. svæðis sem er undir í Þrengslunum. Sem sagt mjög fá störf m.v. upptöku lands, þar sem gæðalóðir við höfnina eru af skornum skammti.

Þetta þarf að skoða í miklu stærra samhengi og þar þurfa íbúar að koma að borðinu.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir H-lista
Gunnsteinn Ómarsson B-lista
Hrönn Guðmundsdóttir B-lista

Forseti bar tillögu Grétars undir atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt með 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, bæjarfulltrúar B- og H-lista sátu hjá.

Hrönn Guðmundsdóttir, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Grétar Ingi Erlendsson gerðu grein fyrir atkvæði sínu.
4. 2208037 - Loftgæðamælar í Þorlákshöfn
Tillaga frá bæjarfulltrúum B og H lista þess efnis að Sveitarfélagið Ölfus fari fram á það við Umhverfisstofnun að settir verði upp loftgæðamælar í Þorlákshöfn.
Forseti flutti svohljóðandi afgreiðslutillögu:

Bæjarstjórn vísar erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar sem fer með umhverfismál.

Samþykkt samhljóða.
5. 2208039 - Tillaga um samstarfssamning við Samtökin 78
Tillaga frá bæjarfulltrúum B og H lista um samstarfssamning við Samtökin '78 um fræðslu og ráðgjöf fyrir starfsfólk sveitarfélagsins, íþróttafélög sem í því starfa og nemendur í skólum þess.
Forseti flutti svohljóðandi afgreiðslutillögu:

Bæjarstjórn vísar erindinu til fjölskyldu- og fræðslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

Forseti lagði einnig fram eftirfarandi bókun:
Forseti bendir bæjarfulltrúum góðfúslega á að einstakir bæjarfulltrúar fara ekki með samningavald fyrir hönd sveitarfélagsins. Fáheyrt er að bæjarfulltrúar taki sig til og semji við frjáls félagsamtök um styrk upp á eina og hálfa milljón og leggi samninginn fullmótaðan til samþykktar í bæjarstjórn án kynningar í fagráðum eða bæjarráði sem fer með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn sveitarfélagsins ásamt bæjarstjóra. Óháð efni samningsins er slíkt ekki í anda þeirrar stjórnsýslu sem viðhöfð er hjá sveitarfélaginu.

Grétar Ingi Erlendsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirrituð taka undir þá afstöðu sem kemur fram í afgreiðslu forseta og mikilvægi þess að fagnefndir séu virtar. Eftir sem áður lýsum við miklum og einlægum velvilja gagnvart aukinni fræðslu og ráðgjöf fyrir starfsfólk sveitarfélagsins, íþróttafélög sem í því starfa og nemendur í skólum sem dregið geta úr fordómum og öðrum skaðlegum viðhorfum í garð hinsegin fólks.

Grétar Ingi Erlendsson
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir
Erla Sif Markúsdóttir

Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls.

6. 2208044 - Skipan í milliþinganefndir fyrir ársþing SASS í október 2022
Óskað er eftir skipan kjörinna fulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss í milliþinganefndir fyrir ársþing SASS sem haldið verður 27.-28.október 2022. Sveitarfélagið Ölfus á 5 kjörna fulltrúa á ársþingi SASS.
Bæjarstjórn samþykkir að skipa með þessum hætti í milliþinganefndir fyrir ársþing SASS:

Grétar Ingi Erlendsson (D): Atvinnumálanefnd
Erla Sif Markúsdóttir varamaður (D): Atvinnumálanefnd
Guðlaug Einarsdóttir (D): Mennta- og menningarmálanefnd
Hrönn Guðmundsdóttir (B): Umhverfis- og skipulagsnefnd
Ása Berglind Hjálmarsdóttir varamaður (H): Mennta- og menningarmálanefnd

Samþykkt samhljóða.
7. 2208017 - Skál leiðrétting deiliskipulags
Nágranni við Skál benti á að skipulagsmörk væru sýnd óeðlilega langt inni á lóð hans í nýlega samþykktu deiliskipulagi fyrir Skál í Árbænum. Aðrir nágrannar höfðu einnig lýst yfir áhyggjum af sama atriði. Skipulagsstofnun skoðaði málið og er sammála því að þetta sé ekki heppilegt. Stofnunin taldi einnig að breyta mætti skipulaginu í samræmi við 3. málsgrein 44. greinar skipulagslaga þar sem stendur:
"Skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda."
Í viðhengi er breyttur uppdráttur þar sem búið er að lagfæra deiliskipulagsmörkin og snúa mænisstefnu eins og nýlega var grenndarkynnt.

Afgreiðsla nefndar: Skipulagsnefnd beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að breyta skipulaginu í samræmi við 3. málsgrein 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Bæjarstjórn tekur undir afstöðu nefndarinnar og samþykkir að skipulagsfulltrúa verði falið að breyta skipulaginu í samræmi við 3. málsgrein 44. greinar skipulaglaga nr. 123/2010.
8. 2208030 - Óseyrarbraut 17 umsókn um lóð
Borist hefur erindi frá fyrirtæki sem hefur áhuga á að setja upp öflugar hleðslustöðvar í bænum. Sótt er um lóðina sem er við hlið Skálans við Óseyrarbraut.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu og vísar því til bæjarstjórnar og leggur til að bæjarstjórn veiti fyrirtækinu vilyrði fyrir lóðinni.

Hrönn Guðmundsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson og Elliði Vignisson tóku til máls.

Bæjarstjórn staðfestir afstöðu nefndarinnar og sér ekki meinbug á því að veitt sé vilyrði fyrir tilgreindri lóð á grundvelli greinar 8.1 í Reglum um úthlutun lóða og hún skipulögð þannig að hún nýtist undir rafhleðslur enda er það meðal áhersluatriða hjá Sveitarfélaginu Ölfusi að styðja við orkuskipti.

Samþykkt samhljóða.


9. 2208029 - Unubakki 2 umsókn um lóð
Komið hefur beiðni um vilyrði fyrir tæplega 5000 fermetra lóð við Unubakka 2 á horni Selvogsbrautar og Unubakka. Fyrirtækið sem sækir um hyggst byggja þar nútímalegt húsnæði fyrir starfsfólk að búa í. Í greinargerð með umsókn kemur fram að þau hyggist byggja 2-3 hús á tveimur hæðum með rýmum fyrir starfsmenn sína og annarra fyrirtækja í bænum.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu og vísar því til bæjarstjórnar og leggur til að bæjarstjórn veiti fyrirtækinu vilyrði fyrir lóðinni.

Þar sem lóðin er á miðsvæði telur nefndin ákjósanlegt að þjónusturými verði á jarðhæð þess húss sem er á horni Selvogsbrautar og Unubakka og útlitslega verði tekið mið af áberandi staðsetningu hússins á hornlóð í miðbæ.

Gunnsteinn Ómarsson, Hrönn Guðmundsdóttir og Elliði Vignisson tóku til máls.

Gunnsteinn Ómarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Umsókn Ölfusborga um svæði á horni Selvogsbrautar og Unubakka til uppbyggingar nútímalegs húsnæðis fyrir starfsfólk fyrirtækisins og e.t.v. aðra er vel rökstudd og áhugaverð. Það er eðlilegt að jákvætt verði tekið í erindið en skoða þarf sérstaklega hvort þessi tiltekna staðsetning henti fyrir búsetu í ljósi þess að um miðbæjarsvæði er að ræða og nálægðar við höfnina. Leggja ætti allt kapp á að finna verkefninu staðsetningu fjær höfninni.

Gunnsteinn Ómarsson B-lista

Bæjarstjórn er jákvæð fyrir erindinu en þar sem um er að ræða eftisótta lóð sem hingað til hefur ekki verið auglýst vísar bæjarstjórn erindinu aftur til skipulags- og umhverfisnefndar með beiðni um að viðkomandi lóðir verði auglýstar áður en þeim verður úthlutað.

Samþykkt samhljóða.
10. 2111026 - ASK Heildarendurskoðun aðalskipulags
Skipulagsstofnun hefur fengið endurskoðað aðalskipulag Ölfuss til athugunar og benti strax á ákveðna galla í gögnum sem hafa verið leiðréttir. Eins var óskað eftir ítarlegri umfjöllun í stjórnsýslunni um ábendingar sem komu á auglýsingatíma en fjallað var um athugasemdirnar í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar sem var staðfest í bæjarráði í sumar.

Umhverfisstofnun gerði athugasemd við stöðu fráveitumála í Þorlákshöfn þann 8. júní sl. Einnig óskaði stofnunin eftir að fjallað væri um samlegðaráhrif frá áformuðum og núverandi fiskeldisstöðvum á vatnsauðlindina.

Vegagerðin lagði áherslu á það í umsögn sinni að íbúum í íbúðakjörnum utan þéttbýlis verði gert kleift að sækja þjónustu hjólandi eða gangandi eftir stígakerfi. Vegagerðin benti sérstaklega á Hvammsveg og Þorlákshafnarveg í þessu samhengi en sveitarfélagið hefur verið að skoða fyrirkomulag Þorlákshafnarvegar í samvinnu við Vegagerðina og nærtækt er að fara í samskonar aðgerðir við Hvammsveg í framtíðinni.

Öll skipulagsgögn má finna á vefsíðu skipulagsins undir flipanum "skipulagsgögn" á slóðinni:
https://efla-engineers.maps.arcgis.com/apps/MapSeries/index.html?appid=b5ec5f4666134913af213ea27a872d76

Varðandi athugasemdir/ábendingar Umhverfisstofnunar þá er sveitarfélagið að undirbúa gerð hreinsistöðvar sem er ætlað að hreinsa fráveitu frá þéttbýlinu í Þorlákshöfn og er áætlað að framkvæmdir við hana hefjist á þessu ári. Í kafla 6.3 í aðalskipulaginu þar sem fjallað er um fráveitur kemur eftirfarandi fram: Fráveitur skulu vera í samræmi við reglugerð nr. 798/1999. Í dreifbýlinu með tveggja þrepa hreinsun og í þéttbýlinu með eins þreps hreinsun. Lögð er áhersla á að öll byggð í sveitarfélaginu sé tengd löglegum fráveitum. Sveitarfélagið telur að með þessu og þeim aðgerðum sem yfir standa séu fráveitumál í samræmi við gildandi lög og ekki sé ástæða til að fjalla frekar um þau.

Ekki er talin þörf á að fjalla sérstaklega um samlegðaráhrif frá áformuðu fiskeldi á grunnvatnsauðlindina þar sem úthlutun á lóðum til fiskeldisstöðva hefur byggt á ítarlegri greiningu á grunnvatnsauðlindinni í Ölfusi sem verkfræðistofan Vatnaskil vann nýlega fyrir sveitarfélagið. Heiti skýrslunnar er Greining á grunnvatnsauðlindinni í nágrenni Þorlákshafnar. Líkanagerð til mats á færslu vatnsbóls sveitarfélagsins og skipulag vegna uppbyggingar fiskeldis.

Varðandi athugasemd/ábendingu Vegagerðarinnar er rétt að benda á að sveitarfélagið hefur til skoðunar að hefja undirbúning að kortlagningu verkefnis um stígagerð í dreifbýlinu. Þetta er stórt og flókið verkefni sem þarf gaumgæfilegan undirbúning. Í almennum skilmálum í 5. kafla sem fjallar um samgöngur kemur eftirfarandi fram: "Við skipulag stærri vega, s.s. stofn- og tengivega verði strax á fyrstu stigum hugað að umferð hjólandi og gangandi fólks....". Sveitarfélagið telur að þetta sé fullnægjandi. Einnig hafa fulltrúar sveitarfélagsins nú þegar fundað með Vegagerðinni um endurskoðun á Þorlákshafnarvegi og umhverfi hans og fyrirhuguðu deiliskipulagi vegarins þar sem tekið verður á umferð gangandi og hjólandi. Sveitarfélagið sér fyrir sér að hrinda af stað samskonar verkefni fyrir Hvammsveg í framhaldinu og telur að ekki sé tímabært að fjalla frekar um þessi verkefni í aðalskipulagi fyrr en þau eru lengra á veg komin.

Bæjarstjórn samþykkir að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 3. málsgrein 30. greinar og 2. málsgrein 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Samþykkt samhljóða.
Fundargerðir til staðfestingar
11. 2208001F - Skipulags- og umhverfisnefnd - 37
Fundargerð 37.fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 18.08.2022 til staðfestingar.

1. 2208029 - Unubakki 2 umsókn um lóð. Tekið fyrir sérstaklega.
2. 2208030 - Óseyrarbraut 17 umsókn um lóð. Tekið fyrir sérstaklega.
3. 2208017 - Skál leiðrétting deiliskipulags. Tekið fyrir sérstaklega.
4. 2208001 - DSK Gljúfurárholt land 7
5. 2208003 - Stofnun lóða í Helluholti
6. 2208018 - Uppdrættir lóðanna Vetrarbraut 35-39
7. 2208004 - Mói stofnun lóða
8. 2208008 - Stofnun lóðar úr landinu Bakki 2
9. 2205028 - Breyting mænisstefnu Skál Árbær 3
10. 2208016 - Árblik - erindi um landnotkun
11. 2208026 - Breytt lóðarmörk - Skipti á landi við Hafnarskeið 18
12. 2108011 - Umsögn um efnistöku á Mýrdalssandi og geymslu efnis í Þorlákshöfn fyrir útflutning
13. 2206034 - Auðsholt - Krafa um endurköllun skipulags og merkingu aðgegngisslóða. Hrönn Guðmundsdóttir tók til máls undir þessum lið.
14. 2208003F - Afgreiðslunefnd byggingarfulltrúa - 40. Tekið fyrir sérstaklega.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
12. 2208004F - Stjórn vatnsveitu - 6
Fundargerð 6.fundar stjórnar vatnsveitu frá 22.08.2022 til staðfestingar.

1. 1906015 - Erindisbréf nefnda. Til kynningar.
2. 2207002 - Nýtt vatnsból Hafnarsandi. Til staðfestingar.

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
13. 2208003F - Afgreiðslunefnd byggingarfulltrúa - 40
Fundargerð 40.fundar afgreiðslunefndar byggingarfulltrúa frá 12.08.2022 til staðfestingar.

1. 2208015 - Umsókn um lóð - Víkursand 6
2. 2208014 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Þurárhraun DRE
3. 2208013 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Laxabraut 2 DRE
4. 2207041 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Miðbakki DRE
5. 2208023 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur 2, Egilsbraut 9
6. 2208012 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Ferjukot

Fundargerðin tekin fyrir í heild sinni og hún staðfest.
Mál til kynningar
14. 1701026 - Brunamál Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundagerð 1.fundar stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 18.08.2022 til kynningar.

Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:25 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?