Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 335

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
17.09.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2009008 - Vilyrði fyrir úthlutun á lóðum
Arnór Halldórsson hrl. f/h Hornsteins óskar eftir vilirði fyrir úthlutun 6 lóða. Um er að ræða lóðina Víkursand 12, 2 lóðir nr. 24 og 30 við Hafnarskeið og 3 ónúmeraðar lóðir norðan við þær austan við Óseyrarbraut.

Lóðirnar er fyrirhugað að nýta undir starfsemi dótturfélagana B.M. Vallá ehf, Björgunar ehf. og Sementsverksmiðjuna ehf.

Lóðirnar hyggst fyrirtækið nýta til til útflutnings jarðefna en einnig til innskipunar.

Í erindinu er óskað eftir viðræðum við Sveitarfélagið um Víkursand, um fjárhagsleg málefni og frekara fyrirkomulag.

Bæjarráð er jákvætt fyrir frekari uppbyggingu Hornsteins og dótturfyrirtækja þess í Sveitarfélaginu Ölfusi og er tilbúið í viðræður um Víkursand 12. Varðandi hinar lóðirnar óskar bæjarráð eftir nánari upplýsingum um þá starfsemi sem fyrirhuguð er á þeim áður en mögulegt er að veita það vilyrði sem óskað er eftir.

Bæjarráð lýsir sig sig hins vegar eindregið afhuga því að lóðir á hafnarsvæðinu verði nýttar undir efnisgeymslur og haugsetningu jarðefna.
2. 2009018 - Samkomulag um vatnsveitu við Hvammsveg
Lögð eru fyrir bæjarráð drög að samkomulagi um vatnslögn meðfram Hvammsvegi.

Kostnaðaráætlun Eflu gerir ráð fyrir að kostnaður vegna framkvæmdarinnar verði 13.937.500 kr. Samkomulagið gerir ráð fyrir að eigendur lóða greiði sjálfir og beri ábyrgð á lagningu vatnslagnar vegna nýbygginga. Sveitarfélagið Ölfus styrkir hins vegar framkvæmdina um þann kostnað sem snýr að hönnun, innmælingum og efniskostnaði. Áætlaður kostnaður við það er 3.000.000 kr. Að framkvæmd lokinni verður Sveitarfélagið Ölfus eigandi að þessum hluta vatnsveitunnar til jafns við aðra hluta hennar og notendur greiða full notkunargjöld til jafns við aðra.

Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar kostnaði vegna hans, sem er að hámarki 3.000.000- til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.
3. 2009029 - Beiðni um aðgang að köldu vatni vegna þróunar á jarðhitanýtingu
Fyrir bæjarráði lá erindi frá landeiganda að Grásteini Ölfusi.

Með erindinu upplýsir bréfritari bæjarráð um að í samstarfi við ýmsa aðila sé nú unnið að þróun frekari jarðhitanýtingar á landi Grásteins í Ölfusi. Með verkefninu er unnið að fjölnýtingu jarðvarma, bæði til raforkuvinnslu og upphitunar. Þannig verður heita vatnið nýtt til raforkuframleiðslu, með sérstakri varmarafstöð og einnig fyrir hitaveituna sem fyrir er. Auk raforkuvinnslu og upphitunar, verður heita vatnið nýtt fyrir útböð og heita potta sem byggt verður upp samhliða frekari uppbyggingu á ferða- og gistiþjónustu á svæðinu.

Fram kemur að undirbúningur að verkefninu sé langt kominn og allar líkur á að hægt verði að hefja tilraunartímabil mjög fljótlega. Það eina sem út af borðinu stendur er aðgengi að köldu vatni.

Í ljósi ofangreinds fer bréfritari þess á leit við bæjarráð að sem lið í rannsóknar- og þróunarferli leggi það -án endurgjalds- til nauðynlegt aðgengi að köldu vatni á tilraunartíma. Áætluð vatnsþörf er um 6 til 7 sekúndulítrar en fyrir liggur að aðgengi að vatni er gott. Óskað er eftir því að aðgengið verði endurgjaldslaust í 6 mánuði.


Bæjarráð telur að tilgreint verkefni sé afar framsækið og hafi burði til að verða enn frekari stoð undir ný samþykkta Orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins þar sem áhersla er lögð á ábyrga og umhverfisvæna auðlindanýtingu sem skili sér sem allra best til íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

Bæjarráð samþykkir að styrkja verkefnið á tilraunartímabilinu með gjaldfrjálsu aðgengi að köldu vatni til 6 mánaða. Samþykkið er með þeim fyrirvara að ef vart verður skorts á neysluvatni verði án fyrirvara tekið fyrir nýtingu þess til orkuvinnslu.
4. 2006063 - Fræðslumál: Hjallastefnan-Bergheimar
Fyrir bæjarráði lá minnisblað vegna undirskriftalista vegna yfirtöku Hjallastefnunar á rekstri leikskólans Bergheima sem skilað var sl. sumar.

Þar kemur fram að alls skrifuðu 97 manns nöfn sín á undirskriftalistann sem bar yfirskriftina "Foreldrar andvígir yfirtöku Hjalla á rekstri leikskólans Bergheima“. Af þeim sem skrifuðu undir eru 73 sem eiga börn í leikskólanum skólaárið 2020-
2021. 24 af þeim sem skrifuðu undir eiga því ekki barn í leikskólanum núna.

Þeir 73 foreldrar sem skrifuðu undir eiga alls 47 börn í leikskólanum, þar af eru 6 börn sem eiga systkini á leikskólanum. Þau 47 börn sem eiga foreldra á listanum koma því frá 41 heimili.






Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
5. 2001009 - Endurnýjun samstarfssamninga við íþróttafélög í Ölfusi.
Fyrir bæjarráði lá afrit af drögum að endurnýjuðum samstarfssamningum við íþróttafélög í Ölfusi.


Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og vísar umfjöllun um þá til fagnefndar málaflokksins. Jafnframt óskar bæjarráð eftir fullunnum tillögum frá fagnefndinni.
6. 2009010 - Umsókn um námsstyrk.
Fyrir bæjarráði lá umsókn um námsstyrk vegna fjarnáms í leikskólakennarafræðum. Umsóknin byggir á reglum sveitarfélagsins um námsstyrk í fjarnámi.
Bæjarráð samþykkir tilgreinda umsókn.

Bæjarráð vísar því til bæjarstjórnar að ræða sérstaklega hvort að ástæða sé til að endurskoða þær reglur sem umsóknin byggir á.
7. 2009032 - umsókn um námsstyrk
Fyrir bæjarráði lá umsókn um námsstyrk vegna fjarnáms í grunnskólakennarafræðum. Umsóknin byggir á reglum sveitarfélagsins um námsstyrk í fjarnámi.
Bæjarráð samþykkir tilgreinda umsókn.

Bæjarráð vísar því til bæjarstjórnar að ræða sérstaklega hvort að ástæða sé til að endurskoða þær reglur sem umsóknin byggir á.
8. 2009011 - Stytting vinnutíma dagvinnufólks.
Fyrir liggur að í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerðir voru á árinu 2020 er gert ráð fyrir styttingu vinnutíma dagvinnufólks.
Bæjarráð samþykkir að stofna vinnutímanefnd sem vinni með forstöðumönnum og trúnaðarmönnum að innleiðingu í samræmi við ákvæði kjarasamnings um styttingu vinnutíma.

Í vinnutímanefnd sitji Hafdís Sigurðardóttir, deildarstjóri launadeildar, Guðni Pétursson sviðsstjóri og Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri. Áskilið er að vinnutímanefnd vinni náið með forstöðumönnum og fulltrúum starfsmanna á hverjum vinnustað fyrir sig.
9. 2009017 - Áskorun frá Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa
Fyrir bæjarráði lá áskorun á dómsmálaráðherra, alþingismenn og sveitarstjórnarfólk sem lúta að stuðningi við að frumvarp um heimild handverksbrugghúsa til að selja gestum vörur á staðnum sem og um netverslun.

Fram kemur í erindinu að erlendir aðilar hafi nú þegar heimild til netverslunar.

Bæjarráð tekur undir afstöðu samtaka íslenskra handverksbrugghúsa og hvetur dómsmálaráðherra og alþingi allt til að beita sér fyrir því að íslensk brugghús sitji við sama borð og erlend brugghús hvað varðar netverslun með bjór á Íslandi.

Þá tekur bæjarráð sérstaklega undir það að íslenskum handverksbrugghúsum verði gert heimilt að selja gestum sínum vörur á staðnum. Í því samhengi bendir bæjarráð á hversu mikil fengur það er fyrir bæjarfélög vítt og breitt um landið að geta auðgað mannlíf og matarmenningu með auknu aðgengi að matvælum úr héraði, þá ekki síst þegar um er að ræða almenna neysluvöru sem þegar er aðgengileg á bensínstöðvum, skyndibitastöðum, félagsheimilum og víðar.
Mál til kynningar
10. 2006063 - Fræðslumál: Hjallastefnan-Bergheimar
Fyrir bæjarráði lá afrit af undirrituðum samningi við Hjallastefnuna ásamt viðauka um kostnað við innleiðingu.

Bæjarráð samþykkir samninginn og viðauka. Bæjarráð felur starfsmönnum sínum að vinna viðauka vegna tilgreinds kostnaðar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:55 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?