Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 41

Haldinn í fjarfundi,
18.11.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Halldóra Björk Guðmundsdóttir aðalmaður,
Hjörtur S. Ragnarsson aðalmaður,
Ágústa Ragnarsdóttir aðalmaður,
Vigdís Lea Kjartansdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Hallfríður Snorradóttir áheyrnarfulltrúi,
Guðlaug Einarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri, Karen Viðarsdóttir leikskólastjóri.
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Skólastjóri greindi frá helstu þáttum í starfsemi skólans undanfarnar vikur, m.a. að því hvernig unnið hefur verið sérstaklega að bættum samskiptum nemenda og skólamenningu. Í ljósi þess að fyrsta mæling Skólapúlsins kom ekki vel út varðandi einelti er unnið að auknum krafti að forvörnum gegn einelti í öllu bekkjum auk þess sem athygli foreldra hefur verið vakin á ábyrgð og hlutverki þeirra. Greindi skólastjóri einnig frá niðurstöðum samræmdra prófa í 4. og 7.bekk, en stjórnendur og kennarar funda um niðurstöðurnar, taka saman árangur í einstökum námsþáttum og skoða árangur einstakra nemenda út frá áherslum t.d. í sérkennslu og stuðningi.

Þá fjallaði skólastjóri um áhrif hertra sóttvarnarreglna fyrir skólastarfið og hvernig sóttvarnarráðstöfunum er háttað í skólanum. Komið hefur verið á góðu skipulagi á skólastarfi með uppskiptingu hópa, hólfaskiptingu og notkun andlitsgríma hjá starfsfólki og nemendum í 5.-10. bekk. Nemendur í 1.-4.bekk hafa fengið óskerta kennslu og hádegismat í skólanum. Nemendur á miðstigi hafa fengið 25 kennslustundir á viku í stað 35 og nemendur á unglingastigi hafa fengið kennslu í öllum kjarnagreinum en valgreinar hafa fallið niður. Ef ekki sóttvarnarreglur verða óbreyttar í skólunum stendur til að leita leiða til að auka við kennslu nemenda í 5.-7. bekk.

Nemendur hafa tekið breytingunum af miklu æðruleysi og starfsfólk verið einstaklega lausnarmiðað. Foreldrar hafa jafnframt sýnt ástandinu mikinn skilning.

Nefndin þakkar kynninguna og fagnar því sérstaklega að hratt sé brugðist við vísbendingum um einelti í skólanum. Jafnframt er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið að halda skólastarfi gangandi síðustu vikur.
2. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Leikskólastjóri greindi frá helstu atriðum í starfi leikskólans undanfarnar vikur, þar sem innleiðing Hjallastefnunnar er veigamikill þáttur. Greindi leikskólastjóri frá því hvernig upplýsingaflæði hefur verið háttað vegna innleiðingarinnar, en haldnir hafa verið 6 foreldrafundir á þriggja vikna tímabili þar sem niðurstöður foreldra- og starfsmannakannana voru kynntar, sem og innleiðingaráætlun. Þá var jafnframt haldinn kynningarfundur hinn 10. nóvember í beinu streymi þar sem fjallað var um hugmyndafræði og meginreglur starfsins. Þá var haldinn upplýsingafundur 17. nóvember til að svara spurningum foreldra varðandi innleiðinguna og einstaka þætti hennar. Þá hefur sérfræðingur í mannauðsstjórnun fundað með öllum starfskonum leikskólans þar sem fjallað hefur verið um helstu áskoranir og þau tækifæri sem felast í innleiðingu Hjallastefnunnar á Bergheimum. Jafnframt hefur stjórnendum verið boðin stjórnendasamtöl sem ganga út á að kortleggja styrkleika og áskoranir. Fréttabréf hafa verið send vikulega á foreldra í formi tölvupósta auk þess sem mánaðarleg fréttabréf eru einnig send foreldrum. Þá stendur til að taka í notkun nýja heimasíðu á allra næstu dögum.

Upplýsti leikskólastjóri um að bæði hafi verið lögð fyrir starfsmannakönnun í október, og sé von á niðurstöðum hennar bráðlega, og að jafnframt sé stefnt að því að leggja foreldrakönnun Hjallastefnunnar fyrir nú í nóvember.
Þá greindi leikskólastjóri frá því að nýtt dagskipulag hafi verið tekið í notkun hinn 2.nóvember, en skipulagið er blanda af dagskrá Hjallastefnunnar og fyrra dagskipulagi. Dagurinn skiptist þá í megindráttum upp í val- og hópatíma og er mikil ánægja með skipulagið meðal starfskvenna sem meta það svo að með nýju skipulagi hafi meiri ró og festa færst yfir starfið. Þá hefur undanfarið verið unnið að því að skipuleggja efnivið og valsvæði og hefur verið farið yfir efnivið skólans og hafa kjarnastýrur metið faglega hvaða efnivið skuli unnið út frá. Á valtíma stendur börnunum til boða að velja úr opnum efnivið, þ.e. þau hafa val um kubbakrók, sullkrók, leirkrók, föndurkrók, útisvæði og leikstofu/kubbastofu. Þá eru leikbúnasett væntanleg á næstu vikum. Mikil ánægja er hjá börnunum með nýju valsvæðin og efniviðinn.

Jafnframt greindi leikskólastjóri frá vinnu við gerð nýrrar skólanámskrár sem nú er unnið að.
Að endingu upplýsti leikskólastjóri að nú eru á leikskólanum 99 börn, og stefnt er að því að úthluta 8 plássum í desember og að aðlögun hefjist í janúar. Miðað við stöðuna nú og fyrirhugaðar úthlutanir má vænta þess að í janúar verði þrjú börn á biðlista sem náð hafi 18 mánaða aldri, í febrúar bætist við eitt barn, þrjú bætist við í mars og tvö í apríl. Má því vænta þess að í vor þegar næst kæmi að úthlutun plássa yrðu 9 börn á biðlista sem orðin væru 18 mánaða.

Nefndin þakkar upplýsingarnar og fagnar því að vel gangi með innleiðingu Hjallastefnunnar á Bergheimum.
3. 1908043 - Leikskólinn Bergheimar, Breyting starfsdaga.
Leikskólastjóri fór yfir ástæður þess að flytja þurfti til starfsdag sem fyrirhugaður var hinn 9. október. Upphaflega stóð til að færa starfsdaginn fram til 16. október, þ.s. halda átti starfsdag sameiginlega með fleiri Hjallaleikskólum. Í ljósi sóttvarnarráðstafana og aðstæðna í samfélaginu fór starfsdagurinn ekki fram þá en leikskólastjóri óskaði eftir samþykki fræðslunefndar til að halda starfsdaginn hinn 20. nóvember þess í stað.

Nefndin samþykkir tillöguna.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:05 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?