Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 334

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
03.09.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Kristín Magnúsdóttir 1. varamaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602017 - Fjármál Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus 2020.
7 mánaða uppgjör lagt fram til kynningar.

Í uppgjörinu kemur fram að útsvar hækkar um 1% á milli ára þegar borin eru saman fyrstu 7 mánuðir beggja ára. Er það umtalsvert undir áætlun ársins. Fasteignaskattar og lóðaleiga eru hinsvegar í samræmi við áætlun en vegna verulegrar fjölgunar atvinnu- og íbúðarhúsnæðis sem og hækkun fasteignamats ríkisins vaxa þær tekjur nokkuð. Jöfnunarsjóður er 2% undir áætlun.

Rekstur málaflokka er umtalsvert kostnaðarmeiri í samanburði við fyrri ár. Félagsþjónusta vex um 12%, fræðslu- og uppeldismál um 7% og æskulýðs- og íþróttamál um 9%.

Sé litið til B-deildar kemur í ljós að hafnarsjóður er í hröðum og góðum vexti. Þannig hækka tekjur vegna hafnargjalda um 12% milli ára, seld þjónusta um 22% og önnur seld þjónusta um 48%. Útgjöld vegna aukins launakostnaðar eru 6%.


Bæjarráð þakkar upplýsingarnar. Ráðið telur ljóst að efnahagsleg áhrif af COVID faraldrinum séu nú þegar að raungerast eins og sést af samdrætti í áætluðum útsvarstekjum. Bæjarráð beinir því til starfsmanna að allra leiða verði leitað til að hagræða í rekstri þannig að verja megi þjónustu og lífsgæði bæjarbúa.
2. 2008069 - Menningarmál Lista-og menningarverðlaun Ölfuss
Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá Söndru Dís Hafþórsdóttur sviðsstjóra þar sem fjallað er um fyrirkomulag lista- og menningaverðlauna Sveitarfélagsins Ölfuss.

Bæjarráð felur starfsmönnum sínum að auglýsa eftir tillögum frá íbúum þannig að hægt sé að tilnefna hvort sem er einstakling eða hóp sem hefur starfað á lista- og menningarsviðnu.
3. 2003001 - Barnvæn sveitarfélög-innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
Tilnefning á kjörnum fulltrúa í samstarfshóp vegna vinnu við verkefnið Barnvænt sveitarfélag.


Bæjarráð samþykkir að tilnefna Þrúði Sigurðardóttur sem fulltrúa í samstarfshóp vegna vinnu við verkefnið Barnvænt sveitarfélag.
4. 1910033 - Tjaldstæði Þorlákshafnar.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá rekstraraðilum tjaldsvæðis Þorlákshafnar

Í erindinu kemur fram að rekstraraðilar eru afar ánægðir með tjaldsvæðið og telja það hafa ríka burði til vaxtar enda aðstaða til fyrirmyndar og staðsetning góð. Í erindinu kemur einnig fram að eins og við hafi verið búist hafi gestafjöldi verið langt undir væntingum vegna áhrifa COVID faraldursins og takmarkana á ferðafrelsi. Vegna þessa óska rekstraraðilar eftir niðurfellingu á leiguverði að hluta eða alfarið.


Bæjarráð tekur undir með rekstraraðila hvað varðar mikil tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar tjaldsvæðisins og vaxtar á gestafjölda. Þá samþykkir bæjarráð að fella niður 50% af leigugjaldi vegna forsendubrests og fresta greiðslu 50% þess til september 2021.

5. 2004061 - Úthlutunarreglur á löndun byggðakvóta
Fyrir bæjarráði lá svar við erindi bæjarráðs frá fundi þess 07. maí sem sent var ráðuneytinu 14. maí, þar sem bæjarráð óskaði eftir tímabundinni undanþágu frá skilyrðum 1. mgr. 6. gr. um að landa afla innan byggðalagsins út fiskveiðiárið. Í svari dagsettu 31. ágúst kemur fram að ráðuneytið hafi tekið beiðni sveitarfélagsins til efnislegrar afgreiðslu og ekki þótt ástæða til að verða við beiðni sveitarfélagsins. Þá er í erindinu beðist velvirðingar á að erindinu hafi ekki verið svarað fyrr en nú.
Bæjarráð þakkar svörin en harmar efnislega niðurstöðu og ítrekar fyrri vilja.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?