Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 339

Haldinn í fjarfundi,
19.11.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2011009 - Markaðsstofa Suðurlands - ósk um endurnýjun á samstarfssamningi
Ósk um endurnýjun á samstarfssamningi. Dagný Hulda Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri tengdist fundinum og fór yfir starfsemi Markaðsstofunnar.
Bæjarráð þakkar kynninguna og framlögð gögn. Bæjarráð lýsir áhyggjum vegna þeirrar stöðu að ársreikningar séu lagðir fram með 3,7 milljóna tapi. Þegar horft er til þess að tilgreint rekstrarár er áður en heimsfaraldur COVID 19 skellur á má ljóst vera að næstu ársreikningar verða með enn dekkri mynd.

Bæjarráð vekur athygli á því að húsnæðiskostnaður Markaðsstofunnar er um 2 milljónir á ári. Bæjarráð lýsir sig viljugt til að endurnýja samstarfssamning til eins árs. Enn fremur vill bæjarrráð Ölfuss leggja Markaðsstofunni til húsnæði í Sveitarfélaginu Ölfusi, Markaðsstofunni að kostnaðarlausu. Þannig má draga úr rekstrarhalla og sýna að samstarf það sem liggur til grundvallar Markaðstofunni sem og annað sunnlenskt samstarf er heildrænt en ekki háð staðsetningu.
2. 2011002 - Lista- og menningarsjóður Ölfuss úthlutun 2020
Bæjarráð fjallaði um úthlutun úr lista- og menningarsjóði í samræmi við greinagerð þar að lútandi. Alls bárust 7 umsóknir upp á samtals 7 milljónir, til úthlutunar var kr.1.050.000.
Bæjarráð felur ráðgefandi nefnd í menningarmálum að skila tillögum til ráðsins vegna úthlutunar. Óskað er eftir því að tillögurnar liggi fyrir, fyrir næsta fund bæjarráðs.

3. 1805021 - Lögreglan Löggæslumyndavélar
Sviðstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs óskar eftir viðauka uppá 2,6 milljónir vegna framkvæmda við löggæslumyndavélar við innkomu í Þorlákshöfn. Sjá minnisblað.
Bæjarráð samþykkir tilgreindan viðauka upp á 2,6 milljónir og felur sviðsstjóra að ljúka framkvæmdum.
4. 2011008 - Árshátíð Sveitarfélagsins Ölfuss
Árið sem er að líða hefur fært starfsmönnum Sveitarfélagsins Ölfuss óvæntar áskoranir sem þeir hafa leyst með slíkum brag að eftir er tekið. Erfiðum aðstæðum hefur verið mætt af einurð, æðruleysi og með einbeittum vilja til að viðhalda mikilvægri innviðaþjónustu. Þetta ástand hefur á sama tíma komið í veg fyrir að hægt sé að halda reglubundna árshátíð eða umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf með hefðbundnum hætti.

Bæjarráð vill sýna þakklæti sitt í verki og hvetja starfsmenn til að gera sér dagamun í skammdeginu, stolt yfir vel unnum störfum.

Bæjarráð samþykkir því að færa öllum starfsmönnum 8000 kr. gjafakort með hvatningu um að gjöfin verði nýtt þannig að fyrirtæki hér í Sveitarfélaginu Ölfusi njóti góðs af.
5. 1602040 - Leiguverð íbúða á Egilsbraut 9.
Bæjarráð ræddi framkvæmdir við Egilsbraut 9 sem áætlað er að ljúki í upphafi komandi árs. Áætlað er að íbúðirnar verði leigðar út frá 1.mars nk. Þar með fjölgar leiguíbúðum fyrir aldraða um 40%.

Fyrir fundinum lá tillaga að leiguverði á íbúðunum.

Bæjarráð samþykkir leigulíkanið fyrir sitt leyti og einnig að leiguverð á núverandi íbúðum verði endurskoðað með tilliti til nýrra útreikninga þegar þær koma inn til endurleigu. Bæjarráð vill enn fremur minna væntanlega leigutaka á rétt þeirra til húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta sem geta eftir atvikum lækkað útgjöld um hátt í 50%.
6. 2011022 - Beiðni um fjárstuðning.
Fyrir fundinum lá beiðni frá Stígamótum um fjárstuðning við félagið.
Bæjarráð samþykkir erindið, gert er ráð fyrir styrk að fjárhæð kr.170.000 í fjárhagsáætlun ársins.
7. 2011006 - Reglur um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki skólaárið 2020-2021.
Með fjáraukalögum fyrir árið 2020 sbr. lög nr. 26/2020, nr. 36/2020 um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum COVID faraldursins var samþykkt 600 millj. kr. framlag til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir.

Fyrir bæjarráði lágu drög að reglum vegna úthlutunar styrkjanna sem verða veittir af sveitarfélaginu á grundvelli VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Þar kemur m.a. fram að styrk skal greiða vegna útlagðs kostnaðar við íþrótta- og tómstundastarf á skólaárinu 2020-2021, allt
að 45.000 kr. fyrir hvert barn.

Búið er að opna fyrir umsóknir inn á íbúagátt sveitarfélagsins.
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.
9. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðlu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 39.mál.
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 43.mál.
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, 81.mál.
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, 276.mál.

Lagt fram.
Mál til kynningar
8. 2011020 - Aðalfundur Bergrisans 2020
Fyrir bæjarráði lágu gögn vegna boðunar á Aðalfund Bergrisans.
Bæjarráð felur starfsmönnum að ganga frá erindisbréfum vegna aðalfundarins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:40 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?