Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 347

Haldinn í fjarfundi,
18.03.2021 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2011009 - Markaðsstofa Suðurlands - endurnýjun á samstarfssamningi
Áður á dagskrá 344.fundar bæjarráðs þann 4.febrúar sl. Fyrir fundinum liggur afstaða Markaðsstofunnar til boðs bæjarráðs Ölfuss um afnot af húsnæði í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss ásamt samningi til undirritunar.

Í afgreiðslu Markaðsstofunnar kemur fram að hún telji ekki tímabært að þiggja gjaldfrjálst húsnæði í Ölfusi að svo stöddu. Ekki eru frekari rök færð fyrir þeirri afstöðu.

Bæjarráð furðar sig á afstöðu Markaðsstofunnar. Boð Sveitarfélagsins Ölfuss hefði losað stofuna undan föstum rekstrarkostnaði og sýnt að Markaðsstofan gæti unnið fyrir allt starfssvæðið, án þess að staðsetning skipti máli.

Bæjarráð ítrekar boð sitt. Að auki óskar bæjarráð Sveitarfélagsins Ölfuss, sem aðili að Markaðsstofunni, eftir röksemdafærslu fyrir afstöðu stjórnar Markaðsstofunnar.

Í þeirri trú að breyting verði á viðhorfi stjórnar Markaðsstofunnar felur bæjarráð bæjarstjóra að undirrita fyrirliggjandi samning.

2. 2103048 - Menningarmál- styrkir vegna leigusamninga Selvogsbraut 4
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Leikfélagi Ölfuss og Hljómlistafélagi Ölfuss þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi við áform félaganna um að koma sér upp aðstöðu í leiguhúsnæði við Selvogsbraut 4.

Ennfremur lágu fyrir drög að húsaleigusamningum. Heildarkostnaður vegna þessara samninga er 294 þúsund á mánuði eða rúmlega 3,5 milljónir á ári.

Bæjarráð hefur um nokkuð skeið unnið bæði með Hljómlistafélagi Ölfuss og Leikfélagi Ölfuss að úrbótum í húsnæðismálum þeirra. Hjá sveitarfélaginu ríkir einlægur metnaður til að tryggja að mannlíf og menning blómstri og dafni samhliða hraðri uppbyggingu almennt. Á síðustu tveimur árum hefur íbúum fjölgað hratt og reksturinn þar með styrkst. Sveitarfélagið Ölfus, og þá ekki síst Þorlákshöfn, hefur um langt skeið einkennst af öflugu mannlífi og menningu. Það er því að mati bæjarráðs mikilvægt að horft sé til þess að bættur rekstur nýtist meðal annars til að styrkja þessa innviði tengda menningu og listum. Bæjarráð samþykkir að hækka styrk þessara tveggja félaga um sem nemur kostnaði við tilgreint leiguhúsnæði. Samhliða felur bæjarráð starfsmönnum að vinna viðauka vegna þessa.

3. 2103050 - Málefni Landbúnaðarháskólans-garðyrkjunám
Bæjarráð fjallaði um greinagerð um framtíð starfsmenntanáms í garðyrkju. Greinargerðinni, sem unnin er af hagsmunaðilum í garðyrkju, er ætlað að varpa ljósi á þann vanda sem uppi er og munu að mati höfunda skaða verulega hagsmuni atvinnugreinarinnar og starfsmenntanámsins.


Bæjarráð telur það fagnaðarefni að mennta- og menningarmálaráðherra skuli hafa ákveðið að færa starfsmenntanám í garðyrkjugreinum, sem er á framhaldsskólastigi, frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Bæjarráð bendir samhliða á að í rúmlega 80 ár hafa Reykir í Ölfusi verið hjarta garðyrkjunnar og lengst af sem sjálfstæð stofnun, sannur hornsteinn í héraði. Bæjarráð kallar því eindregið eftir því að skólanum verði áfram tryggð framtíð í núverandi húsnæði að Reykjum í Ölfusi. Bæjarráð óttast að ef svo heldur fram sem horfir muni starfsmenntanám í garðyrkju að Reykjum í Ölfusi heyra sögunni til. Með þetta í huga hvetur bæjarráð þingmenn og annað ráðafólk til að tryggja sjálfstæði Garðyrkjuskólans að Reykjum og þar með fjármagn til reksturs og vaxtar.


5. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
273.mál - Umsögn um frumvarp til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið og aukatekjur ríkissjóðs (gjaldfrjáls rafræn útgáfa)
561.mál - Umsögn um frumvarp til laga um greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins (samþætting þjónustu, hlutverk o.fl.)

Lagt fram.
Mál til kynningar
4. 2103047 - Áskorun til sveitarfélaga um að nota innlend matvæli í skólamáltíðir
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Bændasamtökunum þar sem sérstaklega er skorað á sveitarfélög að nýta eftir föngum innlend matvæli, sérstaklega grænmenti, kjöt og fisk.
Bæjarráð þakkar erindið og vísar því til þeirra sem annast matarinnkaup hjá sveitarfélaginu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 08:50 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?