Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 368

Haldinn í fjarfundi,
20.01.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir 2. varamaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2112058 - Endurnýjun samstarfssamnings 2022
Fyrir fundinum lá ósk frá Markaðsstofu Suðurlands um endurnýjun á samstarfssamningi fyrir árið 2022. Framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar kom inn á fundinn.
Bæjarráð samþykkir endurnýjaðan samstarfssamning til eins árs.

Samþykkt samhljóða.
2. 2201038 - Fýsileika athugun á framleiðslu á rafeldsneyti í Ölfusi
Á fundinn kom Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins Ölfus Cluster og fór yfir hugmynd að verkefni sem snýr að því að gera fýsileika athugun á framleiðslu á rafeldsneyti í Ölfusi ásamt því að fara yfir drög að skilmálaskjali (Term Sheet) sem Ölfus þarf að samþykkja áður en haldið er lengra með verkefnið. Um er að ræða samstarfverkefni Sveitarfélagsins Ölfuss, Eflu hf. verkfræðistofu, Summu ehf. fjárfestingafélags, Proton Ventures og WPD AG. Skilmálaskjalið byggir á eldra samkomulagi sem samþykkt var á 289. bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 25.03.2021.

Markmið verkefnisins er sem fyrr að meta hvort aðstæður, landrými og innviðir sveitarfélagsins henti og/eða geti uppfyllt kröfur um framleiðslu á rafeldsneyti til notkunar innanlands og til útflutnings. Sú breyting hefur þó verið gerð á samkomulaginu að nýir samstarfsaðilar bætast nú við þá sem fyrir eru. Er þar um að ræða hollneska orkuverkfræðifyrirtækið Proton Ventures og þýska vindorkufyrirtækið WPD AG.

Bæjarráð þakkar kynninguna og samþykkir þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu.

Samþykkt samhljóða.
3. 2201020 - Reglur um afslátt af fasteignagjöldum og holræsagjöldum 2022.
Fyrir bæjarráði lágu drög að reglum um afslátt af fasteignagjöldum árið 2022. Drögin byggja á gildandi reglum en með þeim breytingum þó að tekjuviðmið hækka um ca. 5% milli ára.
Bæjarráð samþykkir drögin og þar með breyttar reglur um afslátt af fasteignaskatti og holræsagjaldi hjá Sveitarfélaginu Ölfusi.

Samþykkt samhljóða.
4. 2005022 - Frístundastyrkir barna í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Bæjarráð fjallaði um frístundastyrk barna í Sveitarfélaginu Ölfusi. Fyrir liggur að á kjörtímabilinu hefur styrkurinn verið hækkaður mikið og munar þar mestu um sértæka aðgerð í fjárhagsáætlun sem samþykkt var 2018 þar sem styrkurinn var hækkaður um 100%. Í dag er styrkurinn 45.000.


Bæjarráð samþykkir að upphæð frístundastyrks verði 45.000 eins og fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en sú breyting verði gerð að styrkurinn nái til allra barna, óháð aldri, þannig að tækifæri til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi verði jafnað og þar með aukið.

Samþykkt samhljóða.
5. 2106045 - Vilyrði um lóð undir fiskeldisstöð
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Geo Salmo vegna viljayfirlýsingar sem undirrituð var í júní 2021 þar sem kveðið er á um kynningarmál verkefnisins. Í yfirlýsingunni var kveðið á um að áform fyrirtækisins yrðu kynnt fyrir kjörnum fulltrúum fyrir 1. september 2021 og fyrir íbúum í Ölfusi fyrir 1. febrúar 2022.

Vegna samkomutakmarkana hefur reynst erfitt að standa að tilgreindum kynningum. Geo Salmo ehf. óskar því eftir afstöðu bæjarráðs til næstu skrefa í þessu máli, hvort sem um væri að ræða að halda umrædda fundi, fresta vörðunum um óákveðinn tíma eða annað sem hentar, ásamt staðfestingu sveitarfélagsins á því að þrátt fyrir að breytingar verði á tímasetningum eða framkvæmd standi vilyrðið áfram. Aðrar vörður standi óbreyttar.

Bæjarráð þakkar erindið og lýsir yfir fullum skilningi á þeim forsendubresti sem óhjákvæmilega fylgir samkomutakmörkunum. Bæjarráð bendir fyrirtækinu á að í samstarfi við Ölfus Cluster vinnur Sveitarfélagið Ölfus nú að ráðstefnu um hringrásarhagkerfið. Fyrirhugað er að ráðstefnan fari fram í febrúar eða mars. Bæjarráð telur heppilegt að samtvinna fyrrgreindar vörður í viljayfirlýsingunni við ráðstefnuna enda vinnur Geo Salmo einbeitt út frá tengdri hugmyndafræði.

Samþykkt samhljóða.
6. 2201039 - Sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar
Erindi frá stjórn SASS þar sem óskað er eftir að hugmynd um sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar verði tekin til umfjöllunar hjá bæjarstjórn og að tekin verði afstaða til málsins. Stjórn SASS bókaði um málið á 577.fundi sínum þann 7.janúar sl.

Bæjarráð lýsir yfir áhuga á framgangi málsins og óskar eftir að hugmynd um sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar verði tekin til umfjöllunar hjá fjölskyldu- og fræðslunefnd sveitarfélagsins.
7. 2112015 - Skólastefna Sveitarfélagsins Ölfuss
Á fundi fjölskyldu- og fræðslunefndar sveitarfélagsins þann 09.12.2021 var tekið fyrir mál um skólastefnu sveitarfélagsins og bókaði nefndin eftirfarandi:

,,Eftir ábendingu starfsmanns sveitarfélagsins er lagt til að hafin verði vinna við skólastefnu sveitarfélagsins, en hún hefur ekki verið uppfærð síðan 2014. Leggur formaður til að myndaður verði starfshópur til að vinna að endurbættri skólastefnu og að leitað verði eftir áhugasömum og hæfum fulltrúum og að skipað verði í starfshóp á næsta fundi. Leggur nefndin til að bæjaryfirvöld samþykki að leggja til fjármagn til að fenginn verði sérfræðingur til samstarfs við hópinn, til að tryggja að sjónarhorn starfshópsins verði ekki of þröngt."

Nefndin óskar eftir því við bæjarráð að fjármunum verði varið í verkefnið.

Bæjarráð tekur undir mikilvægi þess að skólastefnan verði endurskoðuð. Hvað varðar kostnað þá samþykkir bæjarráð að óska eftir því við fræðsluráð að lögð verði fram kostnaðaráætlun vegna verkefnsins þannig að hægt sé að taka afstöðu til kostnaðarþátttöku.

Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:35 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?