Til bakaPrenta
Fræðslunefnd - 19

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
22.11.2017 og hófst hann kl. 08:10
Fundinn sátu: Ágústa Ragnarsdóttir formaður,
Michal Rybinski varaformaður,
Hansína Björgvinsdóttir aðalmaður,
Ólafur Hannesson aðalmaður,
Svanlaug Ósk Ágústsdóttir aðalmaður,
Hrönn Guðfinnsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ingibjörg Aðalsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Guðrún Jóhannsdóttir skólastjóri, Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri.
Fundargerð ritaði: Ágústa Ragnarsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Október er tileinkaður brjóstakrabbameini. Í tilefni af því var bleikur litadagur þann 6. október. Einnig var bleikt þema hjá kennurum á haustþingi leikskólastarfsfólks á Suðurlandi 13. október.

Aðalfundur foreldrafélagsins var 13. september og var mæting prýðileg. Tveir nýir fulltrúar voru kosnir í stjórn en þrír úr eldri stjórn munu sitja áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum á eftirfarandi hátt: Sigríður Vilhjálmsdóttir ritari, Erla Sif Markúsdóttir gjaldkeri, Helga Jóna Gylfadóttir meðstjórnandi, Arndís Lára Sigtryggsdóttir meðstjórnandi og Ingólfur Arnarson formaður. Sigríður Vilhjálmsdóttir verður áheyrnarfulltrúi foreldra í fræðslunefnd.
Aðlögun nýrra barna lauk formlega í október og eru 88 nemendur í leikskólanum á fimm deildum.

Bergheimar eru sem fyrr afar fjölþjóðlegur leikskóli en 32 nemendur eiga annað hvort annað eða báða foreldra af erlendum uppruna. Löndin sem nemendur eiga ættir til auk Íslands eru: Pólland, Rúmenía, Argentína, Kenýa, USA, Slóvakía, Tæland og Búlgaría.

Félag eldri borgara kom á Hulduheima og las fyrir nemendur þann 10. október.

Haustþing leikskólastarfsfólks á Suðurlandi var haldið 13. október. Allt starfsfólk Bergheima fór og valdi fjölbreytta fyrirlestra, má þar nefna „Raddbeiting og söngur“, „Að kenna skapandi hugsun“, „Blómstrandi deildarstjórar“ og „Að ná tökum á streitu og jákvæð sálfræði“.
Almenn ánægja var með fyrirlestrana sem og skipulag Haustþingsins og alltaf gagnlegt fyrir starfsfólk að fræðast um nýja hluti og eflast þannig í starfi.

Í október og nóvember hafa allir elstu nemendurnir verið teknir í svo kallað Hjómpróf en þar er mælt hvernig nemendur standa í t.d. rími, orðhlutaeyðingu og hljóðkerfisvitund. Niðurstöður eru sendar til Skóla- og velferðaþjónustu Árnesþings þar sem þær eru bornar saman við niðurstöður annarra leikskóla á svæðinu.

Í október kom fulltrúi frá Brunavörnum Árnessýslu í heimsókn á Goðheima. Hann kynnti verkefnið Eldvarnir í leikskólanum. Markmiðið með þessu samstarfsverkefni EBÍ og slökkviliðanna er að veita börnunum fyrstu fræðslu um eldvarnir og stuðla að bættum eldvörnum bæði í leikskólunum og á heimilum barnanna. Í vetur munu börnin skiptast á að sinna reglubundnu eftirliti vegna eldvarna á leikskóladeildinni svo sem að athuga hvort flóttaleiðir séu vel merktar og aðgengilegar. Börnin fengu m.a. afhenta möppu frá slökkviliðinu sem þau vinna með í vetur.

Leikskólastjóri tók alla starfsmenn sem tilheyra leikskóladeildinni í starfsmannaviðtal í október. Góðir punktar komu fram í þessum viðtölum sem strax var unnið í og í öðrum er verið að vinna.

Í nóvember fóru allir deildarstjórar á Tras námskeið en það er mælitæki sem notað er til að kanna stöðu á orðforða o.fl. á börnum frá 2-4 ára.

Í nóvember bjóða deildarstjórar upp á foreldraspjall. Settir voru upp listar á öllum deildum þar sem foreldra geta skráð sig. Eiginleg foreldraviðtöl verða í lok janúar.

Að venju komu nemendur og lásu fyrir leikskólabörnin í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem er 16. nóvember.

20. nóvember kom fiðlukennari með nema úr tónlistarskólanum í heimsókn.

Jólasýning var í boði foreldrafélagsins þann 22. nóvember. Leikhópurinn Vinir kom og sýndi leikritið „Strákurinn sem týndi jólunum“.

2. 1602031 - Leikskólinn Bergheimar: Starfsmannahald.
Í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2018 óskar leikskólastjóri eftir aukningu á stöðugildum sem hér segir ásamt rökum:

Að afleysing fari úr 50% í 100% Það liggja nokkrir þættir að baki þessari ósk: a) Meðalaldur starfsfólks Bergheima er 44,3 ár og flestir eru með langan starfsaldur. Það þýðir m.a. Að margir eiga eftir aukaviku af sínu sumarfríi og það þarf að dekka með afleysingu, b) Á Bergheimum er lögð mikil áhersla á að starfsfólk sinni endurmenntun, c) margir starfsmenn eru í eða eru að fara í fæðingarorlof, d) alltaf er töluvert um lengri veikindaleyfi.

Hvað varðar stöðugildi sérkennslu er óskin sú sama að það fari úr 50% í 100%. Er það einkum til að aðstoða þá fjölmörgu erlendu nemendur sem þurfa meiri aðstoð og aðra nemendur sem reynt er að sinna í snemmtækri íhlutun, en þá fær barnið meiri aðstoð strax ef það vaknar upp grunur um að það þurfi einverja aðstoð en ekki beðið þar til greiningarpappírar eru komnir í hús.

Þá þyrfti að ráða í 50% sérstuðning vegna nemanda sem búinn er að fara í gegnum sálfræðimat hjá Skóla- og velferðaþjónustunni og mat hjá talmeinafræðing og þarf mikla aðstoð. Hjá Greiningarstöð ríkisins er 18 mánaða biðtími, því er mikilvægt að brúa bilið með sérstuðningi.

3. 1711035 - Leikskólinn Bergheimar: Verklagsreglur
Drög að breytingum verklagsreglna Leikskólans Bergheima lögð fram til kynningar.

4. 1711036 - Ályktun frá Félagi stjórnenda leikskóla.
Samráðsnefnd Félags stjórnenda leikskóla hefur sent frá sér ályktun þar sem komið er á framfæri þeim áhyggjum sem þeir hafa af stöðu barna í leikskólum landsins en skýrsa frá OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári. Samráðsnefnd telur að rými fyrir hvert leikskólabarn sé of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma og hafa áhyggjur að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. FSL beinir orðum sínum til foreldra, sveitarstjórna/rekstraraðila leikskóla og atvinnulifsins alls að standa saman að velferð barna og finna leið til þess að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar.

Lagt fram til kynningar.

5. 1711037 - Leikskólinn Bergheimar: Heildarvistunartími barna.
Lagt fram til umsagnar erindi sem skólastjóri Leikskólans Bergheima sendi á bæjarráð Ölfuss sem vísaði málinu til umsagnar fræðslunefndar. Þar kemur m.a. fram að meðalvistunartími barna á Bergheimum er 8,5 tímar á dag sem er yfir meðaltali á landsvísu sem þó er það mesta meðal OECD-landa samkv. skýrslu frá OECD. Leikskólastjóri kemur með tillögu að breyttum vistunartímum sem bæði gætu orðið til þess að stytta vistunartíma barna og auka skipulagningu í vöktum starfsfólks. Að auki leggur leikskólastjóri til að bæjarstjórn marki sér stefnu um vistunartíma barna.

Fræðslunefnd Ölfuss tekur undir tillögu skólastjóra leikskólans Bergheima varðandi það að aukið val á vistunartíma verði til þess að börn sem sum hver eru allt að 9.5 klukkustundir á dag í leikskólanum fái fleiri stundir með sínum aðstandendum.
6. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
14. september var haldinn fjölmennur kynningarfundur fyrir foreldra um nýjar skólareglur sem tóku síðan gildi miðvikudaginn 25. október. Á þessum fundi gafst foreldrum tækifæri til þess að tjá sig um skólareglurnar og gagnrýna ef þörf var á. Þeir foreldrar sem voru mættir samþykktu skólareglurnar eins og þær voru bornar upp.

22. september fór aðstoðarskólastjóri á samráðsfund skólastjórnenda í Árnesþingi sem haldinn var í Bláskógaskóla Laugarvatni.

Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk voru haldin í annað sinn með rafrænum hætti í septemberlok. Mjög vel tókst til við að skipuleggja og framkvæma prófin af hálfu GÞ.

20. október fóru grunnskólakennarar og skólastjórnendur á haustþing Kennarafélags Suðurlands á Hellu og aðalfund Skólastjórafélags Suðurlands. Annað starfsfólk fór í skólaheimsókn í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og Kópavogsskóla.

Haustfrí var í grunnskólanum 12. og 13. október.

29. september komu skólaþjónustuaðilar úr Norðurþingi í heimsókn í GÞ og kynntu sér skólastarfið og þar á meðal starfsemi Bjargs.

6. nóvember fóru skólastjóri og aðstoðarskólastjóri á fróðlegt skólamálaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á Hótel Nordica sem kallaðist Á ég að gera það?

Gott samstarf er milli grunnskólans og eldri borgara í Ölfusi og fóru nemendur í 9. bekk í heimsókn í október á 9-una og tóku slátur með nokkrum heldri borgurum sem var snætt síðar í mánuðinum af bestu lyst.

Starfsdagur og foreldradagur voru með nokkuð hefðbundnu sniði 23. og 24. október.

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur kom í heimsókn í 10. bekk með erindi sem kallast, Verum ástfangin af lífinu. Hann hitti einnig nemendur á miðstigi, en það erindi kallast Sterk liðsheild.

Öflugt starf nemenda 10. bekkjar og nemendaráðs er í gangi og héldu þau afar vel heppnað Hrekkjavökuball fimmtudaginn 2. nóvember. Ballið er liður í fjaröflun 10. bekkjar fyrir skólaferðalagið í vor.

8. nóvember var baráttudagur gegn einelti með tilheyrandi dagskrá í tilefni dagsins.

14. nóvember komu gestir í heimsókn frá Samtökunum 78 með hinseginfræðslu handa nemendum í 7.-10. bekk annars vegar og starfsfólki skólans hins vegar.

Á Degi íslenskrar tungu er unnið með íslenskuna á fjölbreyttan hátt. Nemendur yngsta stigs og miðstigs hlýddu á upplestur rithöfunda og nemendur unglingastigs unnu að gerð örmyndbands þar sem leitast var við að svara tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? Af hverju ert þú mikilvæg/ur fyrir íslenskuna?

7. 1711038 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Nýjar skólareglur
Skólastjóri GÞ kynnti fyrir fræðslunefnd nýjar skólareglur sem samþykktar voru á fjölmennum foreldrafundi þann 14. september sl. Reglurnar voru unnar í samráði við skólasamfélagið og tóku gildi 25. október. Fræðslunefnd fagnar skýrt framsettum skólareglum og þeim áherslum sem þar eru í forgrunni. Skólareglurnar má sjá á vef grunnskólans.
8. 1711039 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skólanámsskrá 2017-2081
Skólanámskrá Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir skólaárið 2017-2018 lögð fram til kynningar.

9. 1711040 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Starfsáætlun 2017-2018
Starfsáætlun Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir skólaárið 2017-2018 lögð fram til kynningar.
10. 1711041 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Samantekt samstarfsnefndar Sambands isl. sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara.
Samantekt samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara á niðurstöðum í lokaskýrslum sveitarfélaga og umbótaáætlunum grunnskóla vegna úrvinnslu bókunar 1 með kjarasamningi þessara aðila lögð fram til kynningar.
Alls komu umbótaáætlanir frá 139 skólum og 53 sveitarfélögum, þar á meðal Grunnskólanum í Þorlákshöfn og Ölfusi.
Skýrsluna má finna á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:50 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?