Fatlað fólk á rétt á allri almennri þjónustu Velferðarþjónustunnar en ef þörf er á frekari stuðningi er veitt sértæk ráðgjöf og þjónusta.
Ráðgjöf
Auk almennrar ráðgjafar er veitt sérhæfð ráðgjöf til fólks með fötlun og aðstandendur þeirra sem felur m.a. í sér að upplýsa um réttindi og þá þjónustu sem það kann að hafa rétt á skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, sem miðar að því að skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Beiðni um ráðgjöf og viðtal má panta í síma 4803800 eða hjá velferd@olfus.is
Umsókn um þjónustu.
Þjónusta við fólk með fötlun 18 ára og eldri
Reglur og samþykktir Sveitarfélagsins Ölfuss í velferðarmálum
Bergrisinn, byggðasamlag um málefni fatlaðs fólks
Sveitarfélagið Ölfus rekur byggðasamlag í samstarfi við nágrannasveitarfélögin. Aðildarsveitarfélögin fela byggðasamlaginu skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, í samræmi við lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.
Hlutverk byggðasamlagsins er að útfæra þjónustu við fólk með fötlun, fjárhagslegri og faglegri umgjörð hennar er nánar lýst í samþykktum Bergrisans bs.
Búsetuúrræði
Húsnæði fyrir fatlað fólk er íbúðarhúsnæði sem er skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks.
Byggðasamlagið Bergrisinn rekur sértækt húsnæði með sólarhringsþjónustu fyrir fatlað fólk á þjónustusvæði sínu sem fer samkvæmt reglum Bergrisans.
Á Selfossi eru tvö heimili og önnur tvö utan Árborgar, staðsett í Hveragerði og Þorlákshöfn.
Sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk er ætlað þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfa umfangsmikla aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili.
-
Búsetuúrræði fyrir einstaklinga með þjónustuþörf.
-
Sjálfstæð búseta þar sem einstaklingar búa einir eða með öðrum í eigin/leiguhúsnæði en fá þjónustu í formi heimaþjónustu, liðveislu, heimahjúkrunar og frekari liðveislu.
-
Þjónustuíbúðir.
Akstursþjónusta fyrir fólk með fötlun
Skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skal fatlað fólk eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustunnar er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda fatlaðra. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónstu fatlaðra.
Sjá reglur Sveitarfélagsins Ölfuss um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk
Sækja þarf um akstur á sérstökum eyðublöðum sem hægt er að finna á heimasíðunni undir eyðublöð
Stoðþjónusta
Með stoðþjónustu/liðveislu er átt við persónulegan stuðning sem er nauðsynlegur til þátttöku í samfélagi umfram almennrar þjónustu. Stoðþjónustan miðar að því að rjúfa félagslega einangrun t.d. aðstoð til að njóta menningar- og félagslífs.
Umsóknum skal skila til ráðgjafa í fötlunarmálum.
Umsókn um stoðþjónustu má finna hér
Notendasamningur
Einstaklingur sem metin er í þörf fyrir stuðnings-og/eða stoðþjónustu geta óskað eftir að gerður verði notendasamningur. Í notendasamningnum er fjallað um framkvæmd þjónustunnar. Nánari upplýsingar veitir teymisstjóri fullorðinsteymis.
Notendastýrð persónuleg aðstoð - NPA
NPA er notendastýrð persónuleg aðstoð sem fer samkvæmt reglum Bergrisans.
NPA byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og stýrir einstaklingurinn sjálfur fyrirkomulagi þjónustunnar og ákveður hvaða aðstoð er veitt, hvernig hún er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana.
Einstaklingur sem metin er í þörf fyrir stuðning í meira en 15 klukkustundir á viku getur sótt um NPA.
Einstaklingar sem hyggjast nýta sér NPA þjónustu er hvattir til að hafa samband við ráðgjafa í málefnum fatlaðra.
Réttindagæsla
Einstaklingar með fötlun geta leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi, fjármuni og persónuleg mál þess. Réttindagæslumaðurinn veitir stuðning og aðstoð við úrlaus mála.
Nánari upplýsingar á vef stjórnarráðsins.