Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 259

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
30.08.2018 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Rakel Sveinsdóttir 1. varaforseti,
Jón Páll Kristófersson bæjarfulltrúi,
Steinar Lúðvíksson bæjarfulltrúi,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Þrúður Sigurðardóttir bæjarfulltrúi,
Guðmundur Oddgeirsson bæjarfulltrúi,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari
Leitað er eftir því að á fundinn verði tekin inn fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands dags. 22. ágúst 2018 og erindi frá skipulagsfulltrúa um breytingu á aðalskipulagi á reit U11 en hvorutveggja barst eftir að fundarboð var sent út.

Samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1808019 - Fjármál: Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2019-2023
Vinna við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar sveitarfélagsins fyrir árin 2019-2022 er að hefjast.
Lagt fram minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um forsendur fyrir vinnslu fjárheimilda ársins 2019 og fjárhagsáætlana til þriggja ára.
Þá var einnig lagt fram yfirlit yfir þróun fasteignagjalda í sveitarfélaginu síðustu ár.

Bæjarstjórn þakkar upplýsingarnar og vísar þeim til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.
2. 1808020 - Fjármál: Lánsumsókn hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
Eftirfarandi bókun lögð fram.

"Bæjarstjórn Ölfuss samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 150.000.000 kr. til 16 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum.
Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir ársins við fráveitu og gatnagerð, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Elliða Vignissyni (280469-5649), bæjarstjóra, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Ölfuss að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

Meirihluti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun:

"Í gildandi fjárhagsáætlun voru áætlaðar framkvæmdir árið 2018 að upphæð kr. 620 m.kr.
Áætlunin gerði ráð fyrir að framkvæmdirnar yrðu fjármagnaðar ma. með lántöku að upphæð kr. 355 m. kr.
Á 301. fundi Bæjarráðs var óskað eftir því að bæjarstjóri myndu undirbúa lántökuna með tilliti til þeirra áherslna sem kynntar voru fyrir íbúum vorið 2018, fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, stöðu verkefna og skuldbindinga.
Niðurstaða þess var að taka nú 150 m.kr. lán til 16 ára til að mæta kostnaði vegna þegar áfallina verka vegna lagningu kaldavagnslagnar og gatnagerð að nýju atvinnusvæði".
Enn liggur ekki fyrir hver endanlega þörf verður fyrir lántöku á árinu vegna framkvæmda við íþróttamannvirki, nýja móttöku og flokkunarstöð og fl."


Samþykkt samhljóða.
3. 1808039 - Samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss.
Í sveitarstjórnalögum er kveðið er á um skyldu sveitarstjórna til að setja sér samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast í sveitarstjórnarlögum.
Í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu ber sveitarstjórn að taka afstöðu til fjölda atriða sem varða innra stjórnskipulag sveitarfélagsins, svo sem um þær nefndir sem kjósa skal, meginatriði um hlutverk þeirra, verkaskiptingu milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra og eftir atvikum byggðarráðs og sveitarstjóra, helstu ákvæði um starfslið o.fl. Mikilvægt er að sveitarfélög sinni þeirri skyldu að setja samþykktir vandi til þess verks og gæti þess að starfshættir séu í samræmi við gildandi samþykt.
Fyrir liggur að samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss hefur ekki verið endurskoðuð síðan 2013.

Bæjarstjórn samþykkir að skipa 3 manna starfshóp sem fái það hlutverk að endurskoða gildandi samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp sveitarfélagsins.
Hópinn skipa þau Grétar Ingi Erlendsson, Sigríður Vilhjálmsdóttir og Jón Páll Kristófersson.
Með hópnum starfi bæjarstjóri.

Samþykkt samhljóða.
4. 1805037 - Samstarf sveitarfélaga: Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða þá breytingu að fulltrúar sveitarfélagsins á þinginu verði Grétar Ingi Erlendsson og Þrúður Sigurðardóttir og til vara Rakel Sveinsdóttir og Jón Páll Kristófersson.
Þá mun bæjarstjóri sveitarfélagins einnig sækja þingið
5. 1807010 - Framkvæmdaleyfi: Breikkun Hringvegar frá Biskupstungnabraut að Kambabrún.
Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi fyri 2 2 vegi frá Kambarótum að Biskupstungnabraut.
Fyrir liggur matsskýrsla sem Skipulagsstofnun hefur afgreitt fyrir framkvæmdina. Fyrir liggur listi um yfir hvaða land vegstæðið mun fara.
Framkvæmdaleyfisgögn liggja fyrir með skilyrðum um að ekki verði farið í framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki landeigenda um að láta land undir vegstæðið.

Samþykkt samhljóða að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir 2 2 vegi frá Kambarótum að Biskupstungnabraut með skilyrðum sem þar koma fram.

Bæjarstjórn Ölfuss fagnar ennfremur þeim mikilvægu samgöngubótum sem með framkvæmdinni verða fyrir íbúa í Ölfusinu og þá fjölmörgu gesti sem þarna eiga leið um.
6. 1806017 - Kosning í nefndir og ráð Sveitarfélagsins Ölfuss.
Alda Björg Kristjánsdóttir hefur beðist undan kjöri sem varamaður í kjörstjórn sveitarfélagsins kjörtímabilið 2018-2022.

Samþykkt samhljóða að skipa Katrínu Hannesdóttur sem varamann í kjörstjórn.
7. 1808041 - Fræðslumál: Skólaakstur dreifbýli Ölfuss,
Bæjarfulltrúar O-lista leggja til að skipulag á skólaakstri í dreifbýli Ölfuss verði tekið til endurskoðunnar nú í upphafi haustannar og m.a. verði skólabílum í morgunferð í dreifbýli Ölfus í Grunnskólann í Hveragerði fjölgað úr tveimur bílum í þrjá bíla nú þegar.
Óánægja er með skólaaksturinn í Grunnskólann í Hveragerði í upphafi þessa skólaárs vegna þess hversu langan tíma börnin þurfa að vera í skólabílnum áður en í skóla er komið og þau hafa verið að mæta of seint í skólann.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Bæjarfulltrúar D-listans taka undir þá afstöðu að fara þurfi vandlega yfir, og eftir atvikum að endurskoða og bæta, skólaakstur í sveitarfélaginu. Í honum er enda fólginn einn af grundvallar þjónustuþáttum dreifbýlis Ölfuss.
Í aðdraganda kosninga ræddu frambjóðendur D-listans nauðsyn þess að huga að þessum þætti í þjónustunni og bæta hann.
Byggðu þeir afstöðu sína á virku samtali við notendur þjónustunnar sem töldu þjónustuna ekki nægilega góða.
Athygli vakti þá þegar að aukið fjármagn hafi ekki verið sett til þessara úrbóta í gildandi fjárhagsáætlun sem unnin var af fyrrverandi meirihluta. Eins og gefur að skilja er því að svo stöddu ekki möguleiki til úrbóta án breytinga þar á".

Bæjarstjórn samþykkir því samljóða að vísa málinu til umræðu og vinnslu í bæjarráði með áherslu á að greina stöðuna og bregðast við henni þannig að þjónustan verði betur í samræmi við þarfir notenda.
Bæjarstjóra er því falið að tryggja að á fundi bæjarráðs liggi fullnægjandi upplýsingar til upplýstrar ákvörðunar um úrbætur.
8. 1805042 - Hreinlætismál: Samstarf um urðunarstað á Nessandi.
Lögð fram fyrirspurn og kynning á urðunarstað á Nessandi.
Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir móttöku- og flokkunarstöð á Nessandi, U1. Sorpsamlag Suðurlands hefur sent inn kynningargögn til að fjalla um urðun á óvirkum úrgangi innan reitsins U1.
Þann 26. nóvember 2015 fjallaði bæjarstjórn um erindi frá SOS bs og SORPU bs um móttöku- og flokkunarstöð fyrir úrgang.

Eftirfarandi bókun varðandi erindið lögð fram:

"Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss er skipulagt um 15 ha. svæði í Neslandi vestan Þorlákshafnar sem hugsað er fyrir móttöku- og flokkunarstöð fyrir úrgang.
Á svæðinu er hugsuð aðstaða til móttöku umhleðslu og flokkunar á úrgangi og endurvinnsluefnum sem þjónað gæti sveitarfélögum á Suðurlandi. Á svæðinu er gert ráð fyrir urðun á því sem ekki verður endurnýtt eða flutt burt.
Erindið sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir mun stærra og fjölmennara svæði en skilgreining aðalskipulagsins gengur út frá og því ná forsendur aðalskipulagsins ekki yfir beiðnina.
Í erindinu er nefnt að fyrirhuguð rannsókn myndi m.a. lúta að því að skoða landið og aðstöðu m.t.t. að koma upp móttöku- og flokkunarstöð og til urðunar á óvirkum úrgangi. Í 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og í 3. gr. reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs er skilgreiningin á óvirkum úrgangi sú að um sé að ræða úrgang sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega og hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.
Í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2008-2020 sem er samstarfsverkefni Sorpu bs., Sorpstöðvar Suðurlands bs., Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. og Sorpurðunar Vesturlands hf. er skilgreining óvirks úrgangs á sama veg.
Í áætluninni kemur fram að um 51 þús. tonn af óvirkum úrgangi hafi fallið til á svæðinu árið 2006 og voru um 88% af því uppgröftur og ómengaður jarðvegur, gler 4%, steinsteypa, flísar, keramik um 2% og annar óvirkur úrgangur um 6%.
Ef tryggt er að ekki verði um skoðun á urðun annarra úrgangstegunda að ræða sér bæjarstjórn ekki meinbugi á því að farið verði í rannsóknir í samræmi við erindið."
Bæjarstjórn vekur athygli á að eins og fram kom á borgarafundi sem haldinn var vegna málsins eru efasemdir meðal bæjarfulltrúa og íbúa að tilgreind breyting á aðalskipulagi falli að framtíðarsýn samfélagsins um uppbyggingu svæðisins meðal annars undir matvælavinnslu, landbúnað, ferðaþjónustu, vatnstöku og fl. Þar með má ljóst vera að sveitarfélagið Ölfus getur á engan máta ábyrgst framgang þessa máls óháð niðurstöðum rannsókna.
Bæjarstjórn leggur því áherslu á að samhliða rannsóknum tengdum Nessandi verði aðrir mögulegir urðunarstaðir skoðaðir og þarfar rannsóknir þar að lútandi unnar".

Samþykkt samhljóða.

Fulltruar O-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Fulltrúar O-listans fagna því að dregin sé fram bókun síðustu bæjarstjórnar um urðunarreitinn á Nessandi þar sem skýrt er tekið fram að reiturinn sé eingöngu fyrir óvirkan úrgang.
Einnig er rétt að taka fram að það var í valdatíð D-listans þegar umræddur reitur var settur inn á aðalskipulag árið 2006".

9. 1808009 - Skipulagslýsing, Skyggnir úr Kirkjuferjuhjáleigu
Lagt fram erindi um skipulagslýsing fyrir deiliskipulag á Skyggni 10.7 ha. land úr Kirkjuferjuhjáleigu.
Fyrirhugað er að byggja á landinu um 150 m2 frístundahús, um 40 m2 gestahús og um 300 m2 hesthús.
Skipulagið er í samræmi við aðalskipulag á landbúnaðarsvæði.

Málið kynnt. Fyrirspurnin um að hefja gerð deiliskipulags á reitnum samþykkt. Farið verði í lögboðinn feril.

Samþykkt samhljóða.
10. 1808001 - Framkvæmdaleyfi vega og lagna innan jarðhitagarðs
Erindið varðar lóðina Norðurvellir 7 innan Jarðhitagarðsins við Hellisheiðavirkjun. Sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir að leggja rafmagn, heitt- og kalt vatn að lóðinni. Heitt- og kalt vatn er tekið frá lögnum sem liggja rétt við lóðina en rafmagn frá stöðvarhúsi virkjunarinnar.
Á lóðina kemur verksmiðja Algaennovation.

Samþykkt samhljóða að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir tengingu við hitavatnslögn og kaldavatnslögn sem liggur í vegstæði við lóðina og einnig fyrir 11 kW rafstreng frá stöðvarhúsi Hellisheiðavirkjunar að lóðinni.
11. 1808006 - Framkvæmdaleyfi, borholur á plani 3, Hellisheiðavirkjun
Orka náttúrunnar sækir um óverulega breytingu á deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi fyrir tveimur borholum á borplani 3 sem liggur á svæði sem nefnt er á milli hrauns og hlíðar. Þær borholur sem á að bora liggja það utarlega á borplaninu að mikil röskun verður á hrauninu utan við planið. Sótt er um að færa borsvæðið á raskað svæði rétt hjá sem var notað fyrir lager þegar Hellisheiðavirkjun var í uppbyggingu.

Erindið kynnt.
Tekið er jákvætt í að skoðaður verði lögboðinn ferill við afgreiðslu á óverulegri breytingu á deiliskipulaginu.

Samþykkt samhljóða.
12. 1706001 - Árbær IV Skipulag: Aðalskipulag. Ósk um breytingu Aðalskipulags Ölfuss 2010-2022 í landi Árbæjar IV og heimild til deiliskipulagsgerðar á grundvelli hennar
Árbær IV, aðalskipulagsbreyting og deiliskipulag fyrir íbúðabyggð.
Svæðið er stækkun á Árbæjarhverfinu til vesturs.
Erindið hefur verið auglýst á lögboðinn hátt.
Inn komu athugasemdir sem brugðist var við og uppdráttur lagfærður.
Landeigandi staðfestir að hann sjái um nægt neysluvatn og nægt slökkvivatn.
Heitt vatn kemur frá hitaveitu Árbæjarhverfis.
Lóðarhafi sér um uppbyggingu vega og fráveitu.

Aðal- og deiliskipulagstilögur samþykktar samhljóða eftir lagfæringa vegna ábendinga sem inn komu.
13. 1808028 - Deiliskipulag, skipulagslýsing Á Ingólfshvoli ehf
Að Ingólfshvoli var stofnuð lóð fyrir módelhús, alls 4 hús hvert með 8 einingum í. Hver eining var með einu herbergi og snyrtingu. Í hverri einingu gátu þá verið þrír. Alls var þá gisting fyrir um tæplega 100 manns.
Í aðalskipulagi er reitur merktur V12 og þar innan var gistingin.
Innan þjónustureita í aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 eru gistihús og hótel.
Heimilt er að vera með gistingu innan V12 reitsins.
Skipulagslýsing gerir grein fyrir 30 húsum, hvert þeirra stendur sér.
Hvert hús verður um 48 m2, innréttað með stofu, eldhús, baðherbergi og tveimur herbergjum. Gisting í hverju húsi gæti verið 6- 8 manns.
Í heildina væri þá gisting fyrir 180 til 240 manns, fullornir og börn.
Fyrirhugað er að stækka lóðina fyrir gistihúsin innan V12 reitsins úr 21.525 m2 í 31.615 m2.
Deiliskipulagið sem unnið verður eftir kynningu á skipulagslýsingunni mun taka á umhverfisþáttum og byggingarlýsingu.
Fyrirhugað er að áfangaskipta uppbyggingunni og byrja með 6 til 8 hús.
Að Ingólfshvoli er reiðhöll og því hægt að bjóða upp á ýmsa afþreyingarmöguleika þar fyrir þá sem gista í gistihúsunum.
Hugmyndin að setja niður smáhýsi til gistingar fellur að því sem aðalskipulag segir til um að styðja við atvinnuuppbyggingu á jörðum í dreifbýlinu s.s. með afþreyingu og ferðaþjónustu.

Samþykkt samhljóða að skipulagslýsing fyrir uppbyggingu á gistimöguleikum að Ingólfshvoli fari í lögboðinn feril.
14. 1804038 - Skipulagsstofnun um matsskyldu Laxa
Lögð fram fyrirspurn frá Skipulagsstofnun um matsskyldu fyrir 100 tonna seiðaeldi að Bakka í Ölfusi.
Í skýrslu tilkynning um framkvæmd við 80 tonna framleiðsluaukningu á laxaseiðum í eldisstöð Laxa fiskeldi ehf að Bakka í Ölfusi er farið yfir alla þætti er varða fyrirhugaða stækkun.
Fyrir er 20 tonna seiðaeldisstöð.
Seiðaeldisstöðin er neðan þjóðvegar á landi með landnúmer 193186.
Svæðið er innan I9 í aðalskipulagi er segir fiskeldisstöð á um 12 ha landi, Bakki I. Fyrirhugðuð stækkun á seiðaeldisstöðinni verður kynnt og afgreidd á lögbundinn hátt með deiliskipulagi.
Erindið er í samræmi við staðfest aðalskipulag Ölfuss 2010-2022.
Í lýsingunni er vel greint frá hvernig vatnsöflun verður, hvernig verður með fráveitu og klóak, mótvægisaðgerðir og vöktun á starfseminni og sjónræn áhrif.

Erindi frá Skipulagsstofnun um matskylda framkvæmd þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um tillögu að matsáætlun sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum á 100 tonna seiðaeldi á laxaseiðum hjá Laxar fiskeldi ehf að Bakka I í Ölfusi, er afgreidd jákvæð.
Fyrirhuguð starfsemi er í samræmi við gildandi aðalskipulag Ölfuss og er til styrkingar á uppeldisstöð Laxa fiskeldi ehf að Laxabraut 9 í Þorlákshöfn.

Til kynningar.
15. 1808008 - Laxar Fiskeldi ehf. Umsögn um 2500 tonna framleiðslu
Lagt fram erindi frá Skipulagsstofnun um allt að 2500 tonna laxeldi Laxa fiskeldi ehf. að Laxabraut 9. Matsáætlun um framkvæmdina er til umsagnar hjá sveitarfélaginu.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Ölfuss frá 2016 er fyrirhuguð iðnaðarsvæði frá Þorlákshöfn meðfram ströndinni vestur að Keflavík um 5 km svæði fyrirhugað fyrir eldisstöðvar.
Svæðið er sérstakt þar sem nægt grunnvatn er til staðar og nægur jarðsjór fyrir eldisstöðvarnar.
Góður viðtaki er fyrir fráveitu eftir hreinsun frá stöðvunum.
Laxar fiskeldi ehf. eru með seiðaeldisstöð að Bakka I í Ölfusi og eru þau síðan áframalin í eldisstöðinni að Laxabraut 9 þar til þau eru flutt í sjókvíar.
Sérstaða svæðisins er að þar er nægt grunnvatn og jarðsjór.
Á svæðinu hefur verið eldi í um 35 ár lax, silungur og lúða.
Dæling á grunnvatni og jarðsjó hefur verið allan þennan tíma og ekki borið á að áhrif séu á milli stöðva hvað varðar grunnvatn eða jarðsjó.
Skipulagið á lóðinni Laxabraut 9 gerir ráð fyrir að hægt sé að vera með 2500 tonna laxeldi.
Í skýrslunni er vel skýrt hvernig förgun verður á dauðum fiski, hvernig vatnstakan er grunnvatn, jarðsjór og heitt vatn.
Endurnýting verður á eldisvatninu til að minnka fráveituna frá stöðinni. Umhverfisþáttum er vel lýst og umfanginu á stöðinni.
Framkvæmdin er mjög jákvæð fyrir atvinnu á svæðinu.

Erindi frá Skipulagsstofnun um matskylda framkvæmd þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um tillögu að matsáætlun sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og 17. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum er afgreitt jákvætt.
Erindið tekur til 2500 tonna framleiðslu á laxi og laxaseiðum að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Fyrirhuguð starfsemi er í samræmi við gildandi aðalskipulag Ölfuss frá 2016.

Til kynningar.
16. 1808016 - Hvammsvegur, vegtengingar
Fyrir liggur erindi um uppbyggingu á svæðinu austan Hvammsvegar á móts við byggðina í Gljúfurárholti.

Sveitarfélagið hefur afgreitt jákvætt að heimila aðalskipulagsbreytingu á F11 austan við Hvammsveg í landbúnaðarland.
Vegagerðin tók fyrir erindi um vegtengingar af Hvammvegi inn á skika úr Gljúfurárholti til austurs og vesturs. Vegtengingar eru inn á land Gljúfurárholt 23 og 24 ein tenging. Til vesturs inn á Gljúfurárholt 2, svæði til skipulags fyrir íbúðabyggð. Inn á land Gljúfurárholt 10 sem er að tengivegi er tengir land 13, 10 og 14 saman. Inn á Gljúfurárholt 2, íbúðabyggð til vestur. Inn á land Gljúfurárholt 8 sem er með tengiveg að landi nr. 9

Samþykkt samhljóða að heimila deiliskipulagsgerð í samræmi við samþykktar vegtengingar inn á svæðið.
17. 1607012 - Aðalskipulag: Breyting á reit U11.
Aðalskipulagsbreyting á U11
Breyting var gerð á aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 að stækka iðnaðarsvæðið með ströndinni frá Nesbraut 25 að Laxabraut 19. Inni í þessi svæði er U11 sem samþykkt var að gera breytingar á og setja þar iðnaðarsvæði. Bæjarstjórn samþykkti breytingar á U11 reitnum 24. nóvember 2016 og 19. maí 2017 var gerður samningur við Landeldi ehf að þar gæti farið fram fiskeldi á landi. Fyrirhugað að vera með framleiðslugetu allt að 5000 tonnum á ári. Með aðalskipulagsbreytingunni er umhverfisskýrsla og greinargerð er segir frá fyrirhugaðri nýtingu lóðarinnar.


Samþykkt samhljóða að aðalskipulagsbreytingin fari í lögboðinn feril.
Fundargerð
18. 1808001F - Bæjarráð Ölfuss - 301
Fundargerð bæjarráðs frá 7. ágúst s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
19. 1808002F - Skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd - 94
Fundargerð skipulags- bygginga- og umhverfisnefndar frá 16. ágúst s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
20. 1604036 - Fjallskil: Fundargerðir fjallskilanefndar.
Fundargerð fjallskilanefndar frá 17. ágúst 2018 lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.

Þá var lagður fram fjallseðill 2018.
Til kynningar.
Fundargerðir til kynningar
21. 1602011 - Heilbrigðismál: Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 23. ágúst s.l.lögð fram.

Til kynningar.
22. 1701026 - Brunamál: Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu
Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 24. ágúst s.l. lögð fram.

Til kynningar.
23. 1601020 - Hreinlætismál: Fundargerðir stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.
Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands frá 22. ágúst s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Samþykkt samhljóða að boða til næsta fundar í bæjarstjórn
25. september n.k.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?