Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 306

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
10.01.2019 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Rakel Sveinsdóttir formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir 1. varamaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1812028 - Beiðni um styrk . Bændur græða landið.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Landgræðslu ríkisins þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi við verkefnið „Bændur græða landið“.
Verkefnið er fólgið í því að styrkja bændur til uppgræðslu á gróðursnauðum svæðum. Óskað er eftir því að Ölfus taki þátt í verkefninu með styrk upp á 6.000 kr. pr. þátttakanda.
Alls voru 3 þátttakendur í verkefninu árið 2018 og kostnaður sveitarfélagsins því 18.000 kr.

Bæjarráð telur verkefnið falla vel að stefnumótum sveitarfélagsins hvað varðar áherslu á umhverfisvernd og uppgræðslu eins og það endurspeglast til að mynda í Þorláksskógaverkefninu.
Bæjarráð samþykkir því erindið samhljóða.
2. 1812011 - Dómsmál vegna lóðarúthlutunar Landstólpi ehf.
Fyrir bæjarráði lágu upplýsingar um að kveðinn hafi verið upp úrskurður í Héraðsdómi Suðurlands þess efnis að vísa skuli frá dómi máli Landstólpa ehf. gegn Ölfusi þar sem þess var krafist að viðurkennt yrði með dómi að stefnandi ætti rétt á að fá lóð nr. 16 við Hafnarskeið í Sveitarfélaginu Ölfusi úthlutað til leigu.
Féllst dómurinn á málatilbúnað sveitarfélagsins um að krafa stefnanda væri ódómtæk. Þá var stefnandi dæmdur til að greiða kr. 752 þús. krónur í málskostnað.
Þá lá ennfremur fyrir að Landstólpi hafi kært til Landsréttar viðkomandi frávísunarúrskurð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gæta áfram hagsmuna sveitarfélagsins hvað þetta varðar.

3. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
Fyrir bæjarráði lágu eftirfarandi lagafrumvörp til kynningar:

https://www.althingi.is/altext/149/s/0558.html
https://www.althingi.is/altext/149/s/0631.html

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
4. 1812005 - Úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2018-2019
Fyrir bæjarráði lágu upplýsingar frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þess efnis að ráðherra hafi ekki fallist á þá áherslu sveitarfélagsins að ekki yrði um vinnsluskyldu að ræða á byggðarkvóta.
Þá lá ennfremur fyrir eftirfarandi tillaga Atvinnuvega- o gnýsköpunaráðuneytisins að reglum fyrir Sveitarfélagið Ölfus um skiptingu 300 tonna þorskígildiskvóta sem sveitarfélaginu hefur verið úthlutað fyrir fiskveiðiárið 2018/2019:

"Úthlutuðum byggðakvóta alls 300 þorskígildistonn verði þannig úthlutað að 35% verði skipt jafnt á milli allra skipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019 sem skráð voru í Þorlákshöfn 1. júlí 2018 og hafa almennt veiðileyfi.
Hinn hlutinn 65% skiptist á skip á grundvelli alls landaðs afla sem telur til aflamarks á fiskveiðiárinu 2017/2018.
Fiskiskipum sem fá úthlutað byggðakvóta er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019."

Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti þá tillögu sem að ofan greinir.
5. 1812027 - Yfirlýsing um búsetu á jörðinni Kröggólfsstöðum.
Fyrir bæjarráði lá afrit af umsögn sveitarfélagsins um búsetu á jörðinni Kröggólfsstöðum í Ölfusi og meðmæli með því að ábúandi fái að kaupa ríkisjörðina.

Bæjarráð samþykkir samhljóða umsögnina og meðmælin fyrir sitt leyti.
6. 1812031 - Beiðni um fjárhagslegan styrk
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Bjarkarhlíð Bústaðarveg 108 Reykjavík dagsett 18. desember 2018 þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi við þá starfsemi sem þar fer fram.
Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafinnar og hefur sveitarfélagið nú þegar stutt við starfsemi Stígamóta og Samtaka um kvennaathvarf.

Bæjarráð getur því ekki orðið við erindinu.
7. 1810058 - Tilkynning um niðurfellingu af vegaskrá.
Fyrir bæjarráði lágu upplýsingar um að Vegagerðin hafi ekki orðið við athugasemdum bæjarráðs um niðurfellingu Bakkárholtsvegar af vegaskrá og hann verði því felldur út af vegaskrá sem þjóðvegur.
Þá lágu einnig fyrir bæjarráði upplýsingar um að Vegagerðin hafi orðið við athugasemdum um niðurfellingu hluta Þórustaðarvegar af vegaskrá og hann verði því ekki felldur út af vegaskrá sem þjóðvegur eins og til stóð.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

8. 1901002 - Samningur um gámastöð Hrísmýri
Fyrir bæjarráði lá samningur um afnot Ölfusinga af starfsstöð Íslenska gámafélagsins ehf. að Hrísmýri Selfossi þar sem gert er ráð fyrir að íbúar frá Læk í vestri að Alviðru í austri skulu hafa aðgang að starfsstöðinni að Hrísmýri Selfossi.
Fram kemur að fyrir aðgang íbúanna greiði Sveitarfélagið Ölfus 1.000 kr. fyrir hvern miða og nær samningurinn til 12 ruslalosana af 1 m3 af gjaldskyldum úrgangi á ári á hvert heimili.
Eins og komið hefur fram er sorpurvinnsla sveitarfélagsins i útboðsferli. Hér er því um að ræða skammtímasamning til fjögurra mánaða til að mæta auknum kostnaði sem ella hefði orðið.

Bæjarráð samþykkir samninginn samhljóða fyrir sitt leyti.

9. 1901008 - Aðalfundur Bergrisans 18. janúar 2019.
Fyrir bæjarráði lá boðun á aðalfund Bergrisans byggðasamlags sem fyrirhugað er að halda föstudaginn 18. janúar nk. í Ráðhúsi Árborgar.
Fyrir liggur að Ölfus á 5 fulltrúa á fundinum.

Samþykkt samhljóða að eftirtaldir aðilar sæki fundinn f.h. sveitarfélagins:

Rakel Sveinsdóttir, Þrúður Sigurðardóttir, Jón Páll Kristófersson, Steinar Lúðvíksson og Grétar Ingi Erlendsson.


10. 1812030 - Beiðni um umsögn vegna ívilnanir til nýfárfestinga.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Ívilnunarnefnd nýfjárfestinga vegna umsóknar Algaennovation Iceland ehf.
Fyrir liggur að samið hefur verið við alþjóðlega sprotafyrirtækið Algaennovation um aðstöðu og ýmis orkutengd aðföng fyrir ræktun smáþörunga í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi.
Úr þörungunum verður framleitt fóður fyrir skepnur og hugsanlega til manneldis. Algaennovation er í eigu vísindamannanna sem stofnuðu fyrirtækið auk íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.
Jarðhitagarður Orku náttúrunnar er umgjörð um fjölbreytta starfsemi sem stuðlar að sem bestri nýtingu afurða Hellisheiðarvirkjunar í Ölfusi, jákvæðum umhverfisáhrifum og verðmætasköpun.
Nýting jarðhitans í virkjunum ON á Hengilssvæðinu Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun hefur lengst af verið eingöngu til vinnslu rafmagns og heits vatns fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
Orkuvinnslunni fylgja hinsvegar ýmsar aukaafurðir. Þar fellur til varmi í formi vatns eða gufu sem ekki nýtist allur til orkuvinnslunnar.
Efni í jarðgufunni á borð við kísil og jarðhitaloft geta verið verðmæt og við virkjunina er greiður aðgangur að fersku vatni og rafmagni sem unnið er í virkjuninni.
Þessi aðföng öll geta nýst ýmissi starfsemi eins og dæmin sanna.
Þessi fjölnýting jarðhitans í Ölfusi eykur enn á sjálfbærni nýtingar á jarðhitanum á svæðinu.

Eftirfarandi bókun lögð fram:

"Bæjarráð veitir hér með jákvæða umsögn um verkefnið og telur það til þess fallið að verða ein af stoðum atvinnulífs í sveitarfélaginu.
Þá fellur verkefnið afar vel að áherslum sveitarfélagsins á umhverfisvænan léttiðnað, matvælavinnslu og fullnýtingu orku innan svæðisins.
Sveitarfélagið telur þannig að verkefnið sé til þess fallið að styrkja búsetu á svæðinu efla innri gerð þess enda það afar umfangsmikið.
Þannig er gert ráð fyrir að eftir fimm ár muni árstekjur verksmiðjunnar verða um 70 milljónir dollara sem samsvarar um 7 milljörðum króna og störfin sem skapast verði a.m.k. 25 til 35.
Í upphafi mun árleg framleiðsla hlaupa á tugum tonna en á sjötta ári verður framleiðslan komin í 900 tonn".

Samþykkt samhljóða.
11. 1901009 - Útleiga á rými Hafnarbergi 1.
Fyrir liggur að fyrir nokkru rann út leigusamningur um það rými sem áður hýsti Blómaverkstæði Bergþóru að Hafnarbergi 1.
Þar hefur því engin starfsemi verið um nokkurt skeið.
Ennfremur liggur fyrir að fleiri en einn aðili hafa nú falast eftir leigu á húsnæðinu.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að auglýsa húsnæðið laust til leigu.
Við val á leigutaka skal meðal annars horft til þess að leiga sé sem næst markaðsverði og starfsemin skapi sem mest umsvif.
12. 1804011 - Samningar við Umf. Þór og Knattspyrnuf. Ægi vegna barna og unglingastarfs
Fyrir bæjarráði lágu drög að nýjum samstarfssamningum við Ungmennafélagið Þór og Knattspyrnufélagið Ægi.
Í samningunum er kveðið á um það meginmarkmið að bjóða upp á fjölbreytt starf þannig að sem flestir fái tækifæri til þátttöku í samræmi við áhuga, vilja og getu, óháð efnahag, búsetu eða kynþætti.
Að undangegnum ákveðnum forsendum veitir sveitarfélagið árlegt framlag.

Bæjarráð samþykkir samningana samhljóða fyrir sitt leyti.
13. 1901010 - Drög að reglugerðum um veiðar á sæbjúgum og úthlutun aflamarks i sæbjúgum.
Bæjarráð fjallaði um fyrirhugaða breytingu á reglugerð um veiðar á sæbjúgum.
Í drögum að reglugerð um (6.) breytingu á reglugerð nr. 674/2018 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2018/2019 (aflamark í sæbjúgu) er gert ráð fyrir að þeir bátar sem stundað hafa sæbjúgnaveiðar á undanförnum þrem fiskveiðiárum fái úthlutaða aflahlutdeild í sæbjúgum á skilgreindum veiðisvæðum A, E, F og G á grundvelli þriggja ára veiðireynslu.
Þá er lagt til í drögum að reglugerð um veiðar á sæbjúgum að Fiskistofa úthluti leyfum á skilgreindum nýjum veiðisvæðum B, C, D og H.
Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun komi fram með sérstaka veiðiráðgjöf á hverju þessara fjögurra nýju veiðisvæða.
Þeir níu aðilar sem nú þegar eru með leyfi til veiða í sæbjúgum fá úthlutað leyfi til veiða á þeim svæðum auk þess sem Fiskistofa úthlutar tveimur nýjum leyfum til viðbótar.
Alls verða því ellefu leyfi virk til veiða á svæðum B,C,D og H.
Hinir tveir nýju leyfishafar munu fá eins mánaðar forgjöf til veiða á þessum svæðum. Lagt er einnig til að hægt sé að sækja um tilraunaveiðileyfi til veiða á sæbjúgum utan skilgreindra veiðisvæða.
Bæjarráð hefur yfirfarið þær breytingar sem nú er unnið að og hafa verið kynntar.
Að mati ráðsins er um að ræða mikla breytingu ef drögin verða að veruleika.
Flestar breytingar verða í þá átt að skerða möguleika þeirra sem þegar stunda þessar veiðir.
Í dag starfa 50 til 60 manns hjá fyrirtækjum sem fyrst og fremst byggja á sæbjúgnaveiðum og því ljóst að ekkert sveitarfélag á Íslandi á jafn mikið undir hvað sæbjúgnaveiðar varðar.
Það má því ljóst vera að fara þarf varlega hvað varðar allar breytingar og tryggja að samfélagið í Ölfusi verði ekki fyrir skaða hvað slíkt varðar. Í því samhengi er minnt á að mjög nýverið hvarf svo til allur kvóti úr samfélaginu og hefði ekki komið til sókn og frumkvöðlastarf hvað sæbjúgu varðar hefði skaðinn orðið enn meiri.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

"Bæjarráð leggur til að í stað þess að samþykkja fyrirliggjandi breytingar á reglugerðum þeim sem hér um ræðir verði málið allt sett í samvinnuferil milli Atvinnuvegaráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunar, útgerða sem stunda sæbjúgnaveiðar og Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga.
Bæjarráð leggst gegn boðuðum reglugerðabreytingum er lúta að sæbjúgnaveiðum".

Samþykkt samhljóða.
Fundargerðir til kynningar
14. 1611032 - Almannavarnir: Fundargerðir almannavarnarnefndar Árnessýslu
Fundargerð stjórnar Almannavarna Árnessýslu frá 19. október s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:10 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?