Ganga á vegum Ferðamálafélags Ölfuss. Riftún.

Ganga á vegum Ferðamálafélags Ölfuss verður farin mánudaginn 30. apríl kl. 19:00 en gengið verður á Riftún í Ölfusi. 

Á Riftún í Ölfusi er kaþólsk kapella. Þar er einnig safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar á Suðurlandi. Kapellan ber heitið „Kapella hins helga kross“ og vísar heitið til fornrar sögu krossins sem var í Kaldaðarnesi í Flóa sem er handan Ölfusár. Árið 1985 var reistur kross á hamrinum fyrir ofan bæinn og stendur hann enn. Nær krossmessu á hausti eru farnar krossgöngur að krossinum.
Forsaga þess að kaþólska kirkjan eignaðist Riftún var sú að íslenska Jósefssystirin systir Clementía „yngri“ (Svanlaug Guðmundsdóttir), ein fjögurra íslenskra kvenna sem gekk í Jósefsregluna hafði forgöngu um það ásamt séra George þáverandi skólastjóra Landakotsskóla. Systir Clementía ráðstafaði hluta af arfi sínum til kaupanna. Kirkjan keypti svo jörðina árið 1963 til að reka þar sumarbúðir fyrir nemendur Landakotsskóla. Riftún var rekið sem sumardvalarheimili en nemendur Landakotsskóla nutu líka aðstöðunnar á öðrum árstímum.
Síðustu árin hefur sóknarprestur Maríukirkjusóknar haft umsjón með staðnum. Hann messar þar á sunnudögum kl. 16 og á miðvikudagskvöldum kl. 20. Reglulegar pílagrímsferðir eru farnar að krossinum í september ár hvert.  Kapellan dregur nafn sitt af krossinum.
Skammt frá eru kirkjuleifar og grafreitur frá árinu 1000, án þess þó að nokkur hafi veitt því athygli. (ferlir.is)

Göngustjóri er Hulda Svandís.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?