Gísli á Uppsölum

Kómedíuleikhúsið með Elfari Loga Hannessyni leikara í fararbroddi mun koma og setja upp sýninguna Gísli á Uppsölum, í Versölum Ráðhúsi Ölfuss, 26. apríl kl: 20:00.

Leiksýningin hefur farið sigurför um landið og eru næstu sýningar þær 80. í röðinni. Sýningin hefur verið gríðarlega vinsæl og þykir virkilega áhrifamikil. Ekki var lagt upp með það í upphafi að einleikurinn myndi fara svo víða sem raun hefur orðið. Tvær sýningar eru bókaðar í apríl hér fyrir sunnan og nú þegar er uppselt á aðra. 

Miðasala hefst þriðjudaginn 03. apríl á Bæjarbókasafni Ölfuss.

Leikurinn hefur fengið lofsamlega dóma, m.a:

"Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera." ****
Morgunblaðið - Þorgeir Tryggvason

,,Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu.
Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að að ferðast um landið eins og hann hafði sjálfur viljað."

Víðsjá - Halla Þórlaug Óskarsdóttir

„Frábær og hnitmiðaður flutningur, góðar umræður eftir sýninguna um örlög þessa einstaklings Gísla á Uppsölum, sem lenti í einelti strax í barnaskóla, missti af ástinni, fannst hann ekki geta brugðist móður sinni, lifði í vernduðu umhverfi allt sitt líf, lét hverjum degi nægja sína þjáningu, og lifði alla ævi í einsemd án nokkurra lífsgæða.“
Magnús Ólafsson, Feykir

,,Í einleik þeirra Elfars Loga og Þrastar Leós Gunnarssonar, sem annast sviðsetningu og leikstjórn, er brugðið upp svipmynd af undarlegu lífi mannsins, brotakenndri mynd en þó einkennilega heillandi; mynd sem vekur miklu fleiri spurningar en hún svarar og býr yfir dýpt sem veldur því að hún leitar á mann löngu eftir að leik er lokið."
Fréttatíminn - Jón Viðar Jónsson

Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Þröstur Leó Gunnarsson
Dramatúrg: Símon Birgisson
Tónlist: Svavar Knútur
Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson
Leikstjórn: Þröstur Leó Gunnarsson

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?