Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 254

Haldinn í ráðhúsi,
27.04.2018 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Sveinn Samúel Steinarsson forseti bæjarstjórnar,
Jón Páll Kristófersson bæjarfulltrúi,
Ágústa Ragnarsdóttir bæjarfulltrúi,
Þrúður Sigurðardóttir bæjarfulltrúi,
Guðmundur Oddgeirsson bæjarfulltrúi,
Ármann Einarsson bæjarfulltrúi,
Baldur Þór Ragnarsson 1. varamaður,
Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri, Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari
Í upphafi fundar lagði forseti fram tillögu þess að tvö mál þ.e. fundargerð hafnarnefndar frá 27. april og samningur við Smyril Line verði tekinn á dagskrá.

Samþykkt með 6 atkvæðum.
Ármann Einarsson á móti og taldi eðlilegt að erindi þessi yrðu lögð fyrir næsta fund bæjarstjórnar.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1803032 - Fjármál: Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss 2017.
Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss A- og B- hluti fyrir árið 2017 tekinn til síðari umræðu
Á fundinn var mætt Sigrún Guðmundsdóttir endurskoðandi sveitarfélagsins frá BDO endurskoðun ehf.
Þá fór hún yfir endurskoðunarskýrslu ársins 2017 og gerði grein fyrir helstu vinnuferlum við endurskoðunina svo og helstu niðurstöður hennar.
Þá fór hún yfir helstu niðurstöðutölur ársins og svaraði spurningum kjörinna fulltrúa.
Vék hún síðan af fundi.

Eftirfarandi bókun síðan lögð fram:

"Rekstur Sveitarfélagsins Ölfuss gekk vel á árinu og var samstæða sveitarfélagsins rekin með rétt um 152 m.kr. hagnaði þrátt fyrir gjaldfærslu í rekstri upp á tæpar 67 m.kr. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð á árinu tengt lífeyrissskuldbindingum starfsmanna.
Helstu niðurstöðutölur ársreiknings Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2017 voru eftirfarandi.
Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Ölfuss A og B hluta námu alls um 2.274 m.kr. á árinu 2017.
Þar af voru rekstartekjur A hluta um 2.067 m.kr. og B hluta um 207 m.kr.
Rekstrargjöld A og B hluta urðu alls 2.122 m.kr. Þar af voru rekstrargjöld A hluta 1.941 m.kr. og B hluta um 181 m.kr.
Rekstarniðurstaða A og B hluta varð því jákvæð um tæpar 152 m.kr. þar af var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 126 m.kr. sem er um 17 m.kr. betri niðurstaða en á árinu 2016 þrátt fyrir þessa miklu gjaldfærslu vegna Brúar lífeyrissjóðs.
Rekstrarniðurstaða B hluta var jákvæð um 26 m.kr. en á árinu 2016 var hún jákvæð um rúmar 48 m.kr.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar um 4.464 m.kr.
Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 478 m.kr. Þar af í hafnarmannvirkjum fyrir 213 m.kr. og fasteignum fyrir 194 m.kr. Önnur fjárfesting nam 71 m.kr.
Langtímaskuldir samstæðunnar í árslok voru 1.258 m.kr. og lækka um 31 m.kr. milli ára.
Tvö langtímalán voru tekin á árinu alls að upphæð tæpar 48 m.kr. vegna kaupa á félagslegum íbúðum.
Lífeyrisskuldbindingar í árslok voru 428 m.kr. og hækka um 12 m.kr. milli ára.
Langtímaskuldir og skuldbindingar í árslok voru því alls um 1.686 m.kr.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins þann 31. desember 2017 var 77.89% en var 71.96% þann 31. desember 2016 og er meginskýring hækkunar vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.
Skuldaviðmið hefur lækkað stöðugt síðustu árin frá því sem það var hæst í lok ársins 2009 en þá var það 198% af reglubundnum tekjum. Gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri sveitarfélagsins á síðustu tveimur árum og sérstaklega á því sem nú er liðið. Sterkur grunnur hefur verið lagður fyrir frekari framfarir í sveitarfélaginu á komandi árum og tækifærin til vaxtar og eflingar eru á mörgum sviðum.
Rekstur sveitarfélagsins hefur verið í jákvæðri þróun og það alls ekki á kostnað þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum. Þjónusta hefur verið aukin á ýmsum sviðum svo sem með tómstundastyrkjum til barna og unglinga og greiðslu fyrir námsgögn grunnskólabarna sem teknar voru upp á árinu svo eitthvað sé nefnt.
Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði töluvert á árinu og voru þeir þann 1. janúar 2018 2.111 en voru 2.005 þann 1. janúar 2017 og fjölgaði því um 104 á árinu. Íbúar um áramót hafa aldrei verið fleiri í sveitarfélaginu og það má alveg leiða líkum að því að kynningarátakið „Hamingjan er hér“ hefur haft sitt að segja varðandi þessa mjög svo ánægjulegu íbúaþróun og bætta ásýnd sveitarfélagsins á öllum sviðum.
Bæjarstjórn Ölfuss þakkar öllum starfsmönnum sveitarfélagsins þátt þeirra í þeirri þjónustu sem það veitir íbúum og góða rekstrarniðurstöðu ársins.
Þá þakkar bæjarstjórn endurskoðendum sveitarfélagsins fyrir þeirra störf sem veita stjórnendum og starfsmönnum stuðning og aðhald í sínum störfum".

Ársreikningur Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2017 síðan samþykktur samhljóða.
2. 1803007 - Umhverfismál: Jarðgerð í Þorláksskógum á Hafnarsandi
Lagt fram bréf Íslenska gámafélagsins dags. 6. mars. sl. varðandi möguleika á tilraunaverkefni í jarðgerð í Þorláksskógum á Hafnarsandi.

Bæjarstjórn tekur vel í tilraunaverkefnið.
Samþykkt samhljóða að fela umhverfisstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa að koma með tillögu að staðsetningu.
Ef tilraunin tekst vel er fyrirsjáanlegt að skipuleggja svæði miðlægt innan Þorláksskóga fyrir moltugerð.
3. 1804025 - Veitumál: Almennt um veitumál. Jarðhitanýting í Ölfusdal - upplýsingar um núverandi stöðu
Lagt fram bréf frá Orkustofnunar dags. 28. apríl 2018 um stöðu orkunýtingar í Ölfusdal.
Vegna orkuskorts í Hveragerði hefur Orkustofnun boðið Veitum ohf. að taka ábyrgð á þremur borholum í Ölfusdal (HV 2-4) til tímabundinnar nýtingar. Að öðru leyti mun OS ekki taka tillit til umsókna um nýtingarleyfi í dalnum fyrr en ríkið hefur ákveðið með hvaða hætti skuli staðið að málinu í heild sinni en telur því best farið til framtíðar að nýtingarleyfi sem gefið verður út í framtíð nái yfir allar holur í dalnum (HV 1-8).

Til kynningar.
4. 1802049 - Aðalskipulagsbreyting Litla og Stóra Saurbæ.
Tálkni ehf óskar eftir aðalskipulagsbreytingu á landi Litla- og Stóra Saurbæjar innan Ölfuss sem er í eigu fyrirtækisins neðan Þorlákshafnarvegar.
Svæðið er um 4 ha. og innan svæðisins er fyrirhugað að vera með ferðaþjónustutengda starfsemi.
Málið kynnt.
Samþykkt samhljóða að boða fulltrúa Tálkna ehf. á fund með skipulags- bygginga- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn til að ræða erindið.
5. 1802048 - Þorkelsgerði II, fastanúmer 221-2045
Óskað er eftir heimild til að nýta íbúðarhúsið í Þorkelsgerði II Selvogi sem gistihús í flokki II.
Samþykkt samhljóða að vísa erindinu til endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins.
6. 1801051 - Silfurberg fyrirspurn um gistiheimnili
Óskað er eftir heimild til að nýta íbúðarhúsið Silfurberg á lóð innan jarðarinnar Kvíarhóll sem gistihús í flokki II.
Samþykkt samhljóða að vísa erindinu til endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins.
7. 1802028 - Deiliskipulag Gljúfurárholt 2
Lögð fram beiðni um að fá að auka við byggingarmagn í áfanga 2 í landi Gljúfurárholts (Í9) úr 40 íbúðum sem aðalskipulag gerir ráð fyrir í 106.
Erindinu er hafnað samhljóða þar sem það er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag varðandi byggingarmagn á reitnum.
Við endurskoðun aðalskipulags verða íbúðareitir í dreifbýli Ölfuss teknir til endurskoðunar.
8. 1802045 - Deiliskipulag Gljúfurárholt við bæinn Gljúfurárholt
Óskað er heimild til að deiliskipuleggja heimaland við bæinn Gljúfurárholt landnr. 171707 sem í dag er skilgreint sem landbúnaðarland.
Aðalskipulag heimilar að taka landbúnaðarland og vinna á því deiliskipulag fyrir byggingarmagn sem er í samræmi við greinargerð aðalskipulagsins.

Samþykkt samhljóða.
9. 1802044 - Breyting á greinargerð með aðalskipulagi
Lögð fram beiðni frá Hauki Elíasi Benediktssyni um breytingar á greinargerð með aðalskipulagi um byggingarmagn á landbúnaðarlandi.

Samþykkt samhljóða að vísa erindinu er til endurskoðunar á aðalskipulagi Ölfuss.
10. 1802043 - Deiliskipulag fyrir Gljúfurárholt lóð 11
Lögð fram beiðni um heimild til að deiliskipuleggja lóð 11 í landi Gljúfurárholts.
Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi.

Samþykkt samhljóða að hafna erindinu þar sem það er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og vísa því til endurskoðunar á aðalskipulagi Ölfuss.
11. 1803029 - Reykjadalur, landsáætlun um uppbyggingu
Fyrir liggur bókun skipulags- byggingar- og umhverfisnefndar frá 15. mars 2018 varðandi landsáætlun um uppbyggingu í Reykjadal.

Vinnuhópur um Reykjadal skipaður fulltrúum Ölfuss, Hveragerðis og LBHÍ að Reykjum leggur til að ekki verði farið inn í þetta verkefni þar sem upphæðin til framkvæmda er 15 m.kr. í heild fyrir árin 2019 og 2020 en þörfin er fyrir tugi milljóna króna fyrir sama tímabil.
Að óbreyttu samþykkt að sækja áfram um styrki til uppbyggingar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mikilvægt er að ríkið taki svæðið yfir í næstu framtíð og kosti verkefnið að fullu enda landið í eigu ríkisins.

Samþykkt samhljóða að ræða við umhverfis- og auðlindaráðuneytið um verkefnið.
12. 1703042 - Rammaskipulag: Þorlákshöfn Norðursvæði.
Lagt fram rammaskipulag af Þorlákshöfn norðursvæði.
Skipulagssvæðið afmarkast af Vesturbakka til austurs, Ölfusbraut til vesturs, Hafnarvegi til norðurs og Egilsbraut til suðurs. Rammaskipulagið tekur mið af ákvæðum í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um hvernig stjórnvöld skuli vinna að skipulagsmálum.
Sérstaklega er tekið á búsetumynstri og dreifingu byggðar.
Skipulag byggðarinnar stuðli af sjálfbærri þróun þéttbýlisins með þéttri samfelldri byggð, endurskipulagingu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélagsins.
Uppbygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis verði í samræmi við þarfir samfélagsins á hverjum tíma og til framtíðar. Skipulagið stuðli að gæðum í hinu byggða umhverfi og að yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmyndinni.
Jafnframt verði stuðlað að heilnæmu umhverfi sem veiti góð skilyrði til búsetu.
Í greinargerð með rammaskipulaginu er farið yfir viðfangsefni og markmið. Áherslur skipulagsnefndar skýrðar. Svæðinu skipt upp í reiti með áherslum á uppbyggingu á hverjum reit.
Reitirnir eru A, Norðursvæði með blandaðri byggð, íbúðir, verslun, þjónusta, léttur iðnaður og opin svæði. B, Miðsvæði með verslun og þjónusta, íbúðir og bæjargata. C, Núverandi íbúðarbyggð frá Selvogsbraut að Egilsbraut. Íbúðarsvæði og græn útivistarsvæði.
Greinargerðin skýrir hvernig landnotkun verður og sérákvæði einstakra reita.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að rammaskipulagið fari í lögboðinn feril enda hefur það verið kynnt á íbúafundum.
13. 1804024 - Aðalskipulag, vatnaskil
Vatnaskil hefur unnið greinargerð er lýsir vinnu við rannsókn á grunnvatnsstraumum vestan og norðan við Þorlákshöfn.
Áætlaður heildarkostnaður er 7,9 m.kr.
Mikilvægt er að vinna þessa rannsókn til að geta í aðalskipulagi skilgreint magn á upptöku á grunnvatni fyrir fyrirtæki og byggðina í Þorlákshöfn og á jarðsjó fyrir eldisfyrirtæki vestan við Þorlákshöfn.

Samþykkt samhljóða að þessi vinna sem er hluti af endurskoðun á Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 verði unnin hið allra fyrsta.
14. 1704023 - Deiliskipulag: Breyting í Búðahverfi.
Deiliskipulag fyrir Búðahverfi var í auglýsingu frá 8. mars til 19. apríl s.l.
Engar athugasemdir komu inn á tímabilinu.
Fyrir liggur bókun skipulags- byggingar- og umhverfisnefndar frá 16. apríl s.l.

Samþykkt samhljóða að deiliskipulag fyrir Búðahverfi verði sent til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.
15. 1711024 - Deiliskipulag Sambyggð fjölbýli
Deiliskipulag fyrir fjölbýli við Sambyggð var auglýst frá 8. mars til 19. apríl 2018.
Engar athugasemdir bárust á auglýsingartímanum.
Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar 16. apríl s.l.

Guðmundur Oddgeirsson mætti á fundinn undir þessum lið.

Samþykkt samhljóða að deiliskipulag fyrir fjölbýlishúsalóðir við Sambyggð verði sent til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.
16. 1803034 - Deiliskipulag Bláengi
Skipulagsuppdráttur fyrir Í13 sýnir 5 lóðir úr landi Grásteins 1. Erindi liggur fyrir að taka land úr Vorsabæjarlandi og skipuleggja þar fjórar nýjar íbúðarhúsalóðir.
Erindið var tekið fyrir í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd 16. apríl s.l.

Samþykkt samhljóða að fara í lögboðinn skipulagsferil með málið.
17. 1711022 - Orka náttúrunnar, deiliskipulag jarðhitagarður
Erindi er varðar deiliskipulag fyrir jarðhitagarð við Hellisheiðarvirkjun var tekið fyrir á fundi SBU 16. apríl s.l.
Á fundi með bæjarstjórn um skipulagsmál mættu fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og kynntu tillöguna og afgreiðslu á innkomnum athugasemdum. Gerðar voru breytingar á deiliskipulaginu er varðar punkta sem sveitarfélagið benti á.
Bætt var inn skilmálum um fráveitu að þegar til þess kemur að fyrirtæki sækja um að staðsetja sig í jarðhitagarðinum verður í hverju tilfelli metið hvaða fráveitukerfi er heppilegast að vera með áður en framkvæmdaleyfið er gefið út af sveitarfélaginu.
Bætt er við þeim skilmálum að geymslusvæði sorpgerði og önnur opin svæði á lóðum skulu þannig frá gengin að ekki verði óprýði af þeim og ásýnd verði góð.
Bætt er við þeim skilmálum að ljósmagn frá starfseminni innan lóða verði metið í hverju tilfelli fyrir sig áður en framkvæmdaleyfi er gefið út af sveitarfélaginu.

Deiliskipulagið hefur farið í lögboðinn feril og öllum athugasemdum svarað.
Samþykkt samhljóða að senda skilulagið til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.
18. 1803019 - Orka náttúrunnar, leyfi fyrir niðurrennsli
Erindið var tekið fyrir í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd 16. apríl s.l. Tvær leiðir voru kynntar, norðan og sunnan við þjóðveginn.
Umsögn Skipulagsstofnunar fyrir lögninni norðan við þjóðveginn, ofan jarðar, liggur fyrir.
Lagning pípunnar í tilraunaskyni á yfirborði fellur ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.
Varanlegar framkvæmdir við lagninguna eru háðar breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi og kunna að falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og þarf að senda Skipulagsstofnun fyrirspurn um það ef ráðast á í þær framkvæmdir.

Samkvæmt samningi við Hveradali ehf sem leigir lóð við Skíðahótelið í Hveradölum af Orkuveitu Reykjavíkur til uppbyggingar á ferðaþjónustutengdri starfsemi, skal vera samráð við þá um framkvæmdir innan leigulóðarinnar. Í innsendum gögnum frá ON kemur þetta fram um samráðið. Lagnaleiðin norðan þjóðvegar fer inn á kynnta tillögu Hveradala ehf. Lögnin fer að hluta til yfir byggingarreit fyrir þjónustuhús sem liggur næst veginum og síðan á milli fyrirhugaðs reits fyrir gróðurhús og þjónustuhús eins og deiliskipulagið var kynnt. Aðal- og deiliskipulag Hveradala ehf er ekki komið á endanlegt stig.

Bókun skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar frá 16. apríl s.l. er þessi:
Málið rætt. Lega lagnarinnar skal vera ákveðin í samráði við Hveradali ehf, leigutaka á lóðinni þar sem lögnin fer um fyrirhugað svæði sem skipuleggja á. Samþykkt er að veita tímabundið leyfi fyrir lögninni eins og kemur fram í erindi frá ON. Sett verða skilyrði fyrir frágangi á lögninni í framkvæmdaleyfinu.

Samþykkt samhljóða að heimila framkvæmdaleyfi fyrir verkinu samkvæmt bókun nefndarinnar.
19. 1610036 - Skógrækt: Þorláksskógar
Samþykkt liggur fyrir um verkefnið Þorláksskógar á svæði norðan og vestan við Þorlákshöfn.
Vegna umfangs verkefnisins þarf að endurskoða aðalskipulagið og gera breytingu vegna þeirra breytinga sem ræktun trjáa hefur á ásýnd svæðisins og verður málið tekið fyrir í heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Ölfuss skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Í framkvæmdaleyfinu verður fjallað um leyfi er snúa að verktökum vegna vinnu á svæðinu.

Samþykkt samhljóða að veita framkvæmdaleyfi fyrir verkinu.
20. 1506103 - Menningarmál: Báturinn Friðrik Sigurðsson varðveisla.
Báturinn Friðrik Sigurðsson hefur staðið um tíma á lóðinni Unubakki 12.
Svæðið sunnan við gatnamótin að útsýnisskífunni við Nesbraut er talið hentug staðsetning fyrir bátinn.

Samþykkt samhljóða að báturinn verði færður á umrætt svæði.
21. 1804034 - Atvinnumál: Fiskeldisstefna sjávarútvegssveitarfélaga
Lagðar fram upplýsingar um vinna á vegum Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um stefnumörkun vegna fiskeldis.
Fiskeldi er vaxandi grein víða um land en með tilkomu þess hefur atvinnutækifærum fjölgað á mörgum stöðum sem átt hafa undir högg að sækja í langan tíma.
Það er mikilvægt að umhverfi greinarinnar sé vel skilgreint og að fyritæki í greininni búi ekki við óvissu hvað varðar starsfskilyrði og leyfisveitingar.
Ljóst er að fyrirtæki í greininni hafa fjárfest verulega vegna jákvæðra fyrirheita þeirra sem utan um málaflokkinn halda hjá ríkinu. Því miður er það svo að staða einhverra fyrirtækja er sú að hætta er á að sú fjárfesting sem þau hafa farið í komi ekki til með að nýtast miðað við óbreytta stöðu sem setur rekstur þeirra og jafnvel samfélaga í óvissu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

"Bæjarstjórn Ölfuss hvetur stjórnvöld til að setja strax ramma utan um málaflokkinn sem tekur mið af hagsmunum náttúrunnar, samfélaga og fyrirtækja sem í greininni starfa".

Samþykkt samhljóða
22. 1702001 - Fasteignamál: Sala Selvogsbrautar 4.
Ármann Einarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Samþykkt var á fundi 241. fundi bæjarstjórnar Ölfuss þann 23.2. 2017 með 5 atkvæðum af 7 (undirritaður var á móti lánveitingunni) að veita félaginu SF2014 ehf. kt. 460513-1380 lán fyrir 100% af kaupverði Selvogsbrautar 4 í Þorlákshöfn.
Gefið var út verðtryggt veðskuldabréf að fjárhæð 33 milljónir króna til 5 ára með 25 ára endurgreiðsluferli sem ber 5% vexti.
Þar að auki var gefinn greiðslufrestur í 6 mánuði eða til 1.9. 2017.
Samkvæmt veðbókarvottorði Selvogsbrautar 4 var skilmálabreytingu á veðskuldabréfinu þinglýst á eignina þann 6.2. 2018 án þess að málið hafi verið tekið fyrir í bæjarstjórn.
Skilmálabreytingin felur í sér að frekari greiðslufrestur er veittur eða til 1.3. 2018. Skilmálabreytingin er undirrituð af bæjarstjóra. Samk. lauslegum útreikningum hefði átt að vera búið að greiða um 660 þúsund kr. án verðbóta auk vaxta um 1,5 milljónir kr. samtals tæplega 2,2 milljónir kr.
Af hverju var beiðni um skilmálabreytinguna ekki tekin fyrir í bæjarstjórn?
Vissu aðrir bæjarfulltrúar af þessum gjörningi? Ef svo er finnst þeim þetta vera vandaðir stjórnsýsluhættir?
Voru reiknaðir dráttarvextir þann tíma sem veðskuldabréfið var í vanskilum frá 1.9.2017 til 6.2.2018. (þess er ekki getið í skilmálabreytingunni)?
Einnig var samkvæmt veðbókarvottorði gefið út afsal fyrir eigninni þann 7.11. 2017 þegar veðskuldabréfið var í vanskilum.
Lánastarfsemi er ekki hluti af reglulegri starfsemi sveitarfélagsins og því mjög óeðlilegt að beiðni um breytingu á skilmálum veðskuldabréfsins sé ekki tekin fyrir í bæjarstjórn og allir bæjarfulltrúar upplýstir um málið.
Ef ekki hafa verið reiknaðir dráttarvextir á meðan skuldabréfið var í vanskilum hefur jafnræðis ekki verið gætt.
Íbúar sveitarfélagsins greiða dráttarvexti og innheimtukostnað ef þeir lenda í vanskilum með gjöld sem þeir skulda sveitarfélaginu.
Þá er að mínu mati mjög óeðlilegt að gefa út afsal þegar veðskuldabréf sem gefið var út fyrir 100% af kaupverði er ekki í skilum og það sem meira er ekki verið greidd króna af kaupverðinu".

Forseti bæjarstjórnar lagði fram bókun varðandi málið.

"Fyrirspurn barst skrifstofu sveitarfélagsins frá SF2014 í upphafi ársins vegna greiðsludráttar sem orðið hafði á skuldabréfi sem gefið var út sem fullnaðargreiðsla vegna kaupa félagsins á Selvogsbraut 4 í Þorlákshöfn. Óskað var eftir því þar sem dregist hafði að koma húsnæðinu í rekstur að greiðsludátturinn myndi ekki leiða til þess að bréfið væri í vanskilum. Niðurstaða varð sú að gerður var viðauki við skuldabréfið af hálfu LEX lögmannsstofu þar sem hluta af ógreiddum höfuðstólsgreiðslum var seinkað þ.e.a.s. bætt við höfuðstól skuldabréfsins en gjaldfallnar greiðslur að öðru leyti gerðar upp að fullu.
Viðaukinn var gerður í því skyni að bregðast við þeirri aðstöðu að útgefandi bréfsins hafði ekki greitt af fyrstu gjalddögunum. Að öðru leyti var sveitarfélagið í sömu stöðu og áður, þ.e. veðið jafn tryggt, vextir þeir sömu og lokagjalddagi óbreyttur.
Það er þekkt hjá sveitarfélaginu að komið sé til móts við íbúa og fyrirtæki þegar greiðsluvandi er og átti ekkert annað við þegar að starfsmenn sveitarfélagsins komu var til móts við óskir SF2014 ehf. og gerður var viðauki sem tók gildi 1. mars við áðurnefnt skuldabréf.
Eins og kemur fram í sveitarstjórnarlögum þá er framkvæmdarstjóra heimilt og falið að undirrita skjöl og samninga varðandi kaup og sölu, lántökur og ábyrgðir og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eigna sveitarfélagsins. Vissulega fjallar sveitarstjórn um málefni sem varða veruleg fjármál sveitarfélagsins eins og skylt er skv. 58. gr. sveitarstjórnarlaga en ljóst er að þetta mál varðar ekki veruleg fjármál sveitarfélagsins.
Þar sem nefndur viðauki hefur fengið sérstaka umfjöllun meðal kjörinna fulltrúa og mögulegrar óánægju í kjölfarið hafa eigendur SF2014 ehf. ákveðið að falla frá viðaukanum og fá honum aflýst og greiða þann mismun sem viðaukinn tók til og liggur það samþykki fyrir.
Það er ánæjulegt er að sjá að endurbætur á Selvogsbraut 4. séu að komast á lokastig og starfsemi að hefjast í húsinu sem hefur verið án starfssemi um árabil".
23. 1703031 - Þorlákshöfn: Tollverndar- og geymslusvæði
Á fundi 16. apríl sl. óskaði hafnarstjórn Þorlákshafnar eftir því við bæjarstjórn að fá stækkun á því svæði sem þegar hefur verið samið um í tengslum við tollgeymslusvæði, sem nemur um 1,45 ha. Stækkunin er ekki hugsuð sem tollgeymslusvæði.

Samþykkt með sex atkvæðum að fela bæjarstjóra að útbúa samning við höfnina vegna þessarar stækkunar.
Ármann Einarsson á móti.
24. 1702010 - Umhverfismál: Töfrastaðir
Lagður fram afnotasamningur milli Sveitarfélagsins Ölfuss sem landeiganda og Félagasamtökin Töfrastaðir kt. 580914-0550 um 5 ha landssvæði upp með gamla vegi til uppgræðslu, fræðslu og útivistar.
Gildistími samningsins er til 31. desember 2019.

Samningurinn samþykktur með sex atkvæðum.
Ármann Einarsson á móti.
25. 1804039 - Byggingarmál: Lóðir. Ósk um afnot af lóð við Hraunbakka
Trésmsiðja Heimis ehf. sem haft hefur til afnota auða lóð við Vesturbakka 2 vegna starfsemi fyrirtækisins undanfarin ár óskar eftir því að gera langtímasamning við sveitarfélagið um afnot af umræddri lóð.

Samþykkt samhljóða að vísa málinu til skipulags- bygginga- og umhverfisnefndar til afgreiðslu.
26. 1611042 - Þorlákshöfn: Ferjusiglingar
Lagður fram samningur milli Hafnarsjóðs og Smyril-line um hafnaraðstöðu og vöruflutningastarfsemi í Þorlákshöfn.
Gíldistími samningsins er frá 1. maí 2018 til 30. apríl 2024.

Samningurinn samþykktur samhljóða.
27. 1708022 - Fjármál: Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2018-2021
Lagður fram viðauki nr. 1 við fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagins Ölfuss fyrir árið 2018 til fyrri umræðu.
Helstu breytingar eru að rekstrarniðurstaða A-hluta versnar um 15,7 milljónir kr. og 16.5 milljónir kr. í A- og B-hluta til samans og eru helstu breytingar vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga við Brú lífeyrissjóð 8.6 mkr. Vaxtakostnaður langtímalána vegna nýs láns sem tekið var á árinu að upphæð 240 mkr. til að gera upp áðurnefndar lífeyrisskuldbindingar 4.5. mkr. og nýrra laga um persónuvernd 3 mkr.
Afborganir langtímalána hækka um 12.1 mkr. vegna áðurnefnds láns.
Fjárfestingar eru hækkaðar um 21.5 milljónir kr. í A-hluta að stærstum hluta vegna íþróttamannvirkja .
Fjárfestingar í B-hluta er lækkaðar um 10 milljónir króna.
Um er að ræða breytingu á framkvæmdaáætlun Hafnarsjóðs Þorlákshafnar.
Handbært fé í ársbyrjun er 41.2 mkr. hærra en gert var ráð fyrir í upprunalegri áætlun vegna aukinna tekna umfram áætlun á árinu 2017.
Farið yfir helstu liði viðaukans.

Samþykkt samhljóða að vísa honum til síðari umræðu á næsta reglulega fundi bæjarstjórnar.
Fundargerðir til staðfestingar
28. 1701026 - Brunamál: Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu.
Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 2. febrúar og 23. mars s.l. lagðar fram.

Til kynningar.
29. 1804001F - Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 12
Fundargerð íþrótta- og æskulýðsnefndar frá 9. apríl s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
30. 1804002F - Bæjarráð Ölfuss - 298
Fundargerð bæjarráðs Ölfuss frá 12. apríl s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
31. 1804003F - Markaðs- og menningarnefnd - 137
Fundargerð markaðs- og menningarnefndar frá 10. apríl s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
32. 1804004F - Skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd - 92
Fundargerð skipulags- bygginga- og umhverfisnefndar frá 16. apríl. s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
33. 1804005F - Hafnarstjórn Þorlákshafnar - 29
Fundargerð hafnarstjórnar Þorlákshafnar frá 16. april. s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
34. 1804007F - Hafnarstjórn Þorlákshafnar - 30
Fundargerð hafnarstjórnar frá 27. apríl. s.l lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
Fundargerðir til kynningar
35. 1703033 - Menningarmál: Fundargerðir stjórnar Listasafns Árnesinga
Fundargerð stjórnar Listasafns Árnesinga frá 10. apríl. s.l. lögð fram.

Til kynningar.
36. 1602012 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir stjórnar SASS.
Fundargerð stjórnar SASS frá 6. apríl. s.l. lögð fram.

Til kynningar.
37. 1602036 - Æskulýðsmál: Fundargerðir framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts 2018
Fundargerð framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2018 frá 17. apríl. s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:20. 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?