Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 258

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
26.07.2018 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Jón Páll Kristófersson bæjarfulltrúi,
Steinar Lúðvíksson bæjarfulltrúi,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Þrúður Sigurðardóttir bæjarfulltrúi,
Guðmundur Oddgeirsson bæjarfulltrúi,
Kristín Magnúsdóttir 1. varamaður,
Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1806009 - Starfsmannamál: Ráðning bæjarstjóra.
Lagðar fram umsóknir um starf bæjarstjóra Sveitarfélagsins Ölfuss.
Ráðningarferlið hefur verið unnið í gegnum ráðgjafafyrirtækið Capacent.

Eftirtaldar umsóknir bárust:

Anna Greta Ólafsdóttir Sérfræðingur
Ármann Halldórsson Framkvæmdastjóri
Ásta Stefánsdóttir Bæjarstjóri
Baldur Þórir Guðmundsson Útibússtjóri
Björn Ingi Jónsson Bæjarstjóri
Björn S. Lárusson Verkefnastjóri
Daði Einarsson Verkefnastjóri
Edgar Tardaguila Móttaka
Elliði Vignisson Bæjarstjóri
Gísli Halldór Halldórsson Bæjarstjóri
Glúmur Baldvinsson MSc í alþjóðastjórnmálum
Gunnar Björnsson Viðskiptafræðingur
Linda Björk Hávarðardóttir Verkefnastjóri
Magnús Stefánsson Bæjarstjóri
Ólafur Hannesson Framkvæmdastjóri
Rúnar Gunnarsson Sjómaður
Valdimar Leó Friðriksson Framkvæmdastjóri
Valdimar O. Hermannsson Rekstrarstjóri

Meirihluti bæjarstjórnar leggur til að Elliði Vignisson verði ráðinn bæjarstjóri Ölfuss kjörtímabilið 2018-2022.
Forseta bæjarstjórnar falið að ganga frá ráðningarsamningi við Elliða.

Fulltrúar O listans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Í ljósi þess að við bæjarfulltrúar O listans höfðum ekki aðkomu að ráðningu nýs bæjarstóra þá sjáum við okkur ekki fært að greiða atkvæði með ráðningunni. Við vorum ekki höfð með í ráðum á nokkurn máta né upplýst um hvernig staðið var að valinu þrátt fyrir að samþykkt hafi verið samhljóða á fundi bæjarstjórnar í júní að auglýsa eftir bæjarstjóra.
Við sem starfandi bæjarfulltrúar vonumst til þess að bæjarfulltrúar D listans hér í Ölfusi muni ekki starfa í þessum anda á kjörtímabilinu og að bæjarstjórn, nýr bæjarstjóri sem og annað starfsfólk sveitarfélagsins muni vinna saman og í góðu samstarfi að þeim verkefnum sem framundan eru á kjörtímabilinu".

Fulltrúar meirihluta lögðu síðan fram eftirfarandi bókun:

"Ráðningaferlið var í höndum Capacent. Þegar listi umsækjenda lá fyrir ákvað meirihluti bæjarstjórnar að fara í viðræður við Elliða Vignisson sem einn hæfustu umsækjenda og var ákveðið að tala ekki við fleiri umsækjendur á meðan þær viðræður voru í gangi. Í kjölfar viðræðna þótti fýsilegt að ganga til samninga við Elliða og kom því ekki til að ferlið yrði lengra.
Í ráðningarferlinu var gengið út frá því að bjóða nýjum bæjarstjóra sambærileg kjör og fráfarandi bæjarstjóri hafði. Heildarlaun Elliða verða 1.650.000 kr. samanborið við 1.579.0000 kr. hjá fráfarandi bæjarstjóra. Hækkun heildarlauna skýrist aðallega af því að húsaleiga í Ölfusi hefur hækkað umtalsvert síðan samið var við fráfarandi bæjarstjóra. Skilyrt er í samningi að Elliði hafi búsetu í Ölfusi á ráðningartímabilinu. Bæjarstjóri mun sjálfur leigja eða kaupa fasteign í Ölfusi á ráðningatímabilinu en fær til þess fastan styrk sem innifalin er í heildarlaunum þeim sem getið er að ofan. Húsnæðisstyrkurinn verður aðeins greiddur frá þeim tíma sem húsnæði verður tekið á leigu eða keypt.
Þá eru í samningnum skýr ákvæði um hvenær vinnuskyldu bæjarstjóra lýkur að kjörtímabili loknu ef ekki verður um endurráðningu að ræða. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að sú staða endurtaki sig, sem kom upp eftir nýliðnar kosningar þegar að samningur við fráfarandi bæjarstjóra var óljós að þessu leyti sem varð til þess að fráfarandi bæjarstjóra var unnt að hætta störfum þegar eftir kosningar, áður en ný bæjarstjórn tók formlega við völdum og án þess að upplýsa meirihluta nýkjörinnar bæjarstjórnar um stöðu helstu mála. Vegna óskýrleika í orðalagi í ráðningarsamningi varð engu að síður að greiða fráfarandi bæjarstjóra laun án vinnuframlags frá kosningum til 1. júlí þegar biðlauna tímabil tók við. Þetta atriði er skýrt í samningi við nýjan bæjarstjóra. Til viðbótar er ákvæði um að bæjarstjóri skuli vinna tvo mánuði af biðlauna tímabilinu sé þess óskað af nýrri bæjarstjórn.
Að öðru leyti er samningurinn efnislega eins og við fráfarandi bæjarstjóra og í samræmi við það sem almennt gerist í sambærilegum samningum".

Samþykkt með fjórum atkvæðum að ráða Elliða Vignisson sem bæjarstjóra.
Þrúður, Jón Páll og Guðmundur sátu hjá.



2. 1803036 - Persónuvernd: Ráðgjafavinna.
Ný persónuverndarlög tóku gildi þann 15. júlí s.l. og samkvæmt þeim er sveitarfélögum skylt að ráða sér persónuverndarfulltrúa.
Undirbúningur að þessu verkefni hefur staðið yfir hjá sveitarfélaginu frá því í byrjun árs og lögmenn frá Dattacalabs unnið með starfsmönnum þess að greiningum og innleiðingu nýrra verkferla vegna þessarar nýju löggjafar.
Skoðaðar hafa verið ýmsar leiðir með ráðningu persónuverndarfulltrúa.

Lögð fram tillaga þess efnis að ganga til samninga við Dattacalabs ehf. um að fyrirtækið taki að sér hlutverk persónuverndarfulltrúa fyrir sveitarfélagið á þeim grunni sem ræddur var á fundinum og að gerður verði samningur til sex mánaða með möguleika á framlengingu til hálfs árs.

Samþykkt samhljóða.
3. 1807010 - Framkvæmdaleyfi: Breikkun Hringvegar frá Biskupstungnabraut að Kambabrún.
Lagt fram bréf Vegagerðarinnar dags. 5. júlí s.l. með frekari skýringum varðandi umsókn hennar frá 8. maí s.l. um framkvæmdaleyfi fyrir
"Breikkun Hringvegar frá Biskupustungnabraut að Kambarótum"

Samþykkt samhljóða að veita umbeðið framkvæmdaleyfi og skipulags- og byggingafulltrúa falið að gefa það út fyrir hönd sveitarfélagsins.
4. 1807016 - Framkvæmdaleyfi, vetnisstöð við Hellisheiðavirkjun
Orka náttúrunnar sækir um framkvæmdaleyfi fyrir byggingu á vetnisstöð við tæknigarða.
Fyrir liggur erindi um óverulega breytingu á afmörkun byggingarreits við stöðvarhús Hellisheiðavirkjunar en vestan við stöðvarhúsið er afmarkaður reitur fyrir tæknigarða.
Fyrirhugðuð vetnisstöð kemur innan þeirrar stækkunar sem gerð verður á byggingarreit við stöðvarhúsið.

Samþykkt samhljóða að veita framkvæmdaleyfi fyrir byggingu á vetnisstöðinni enda liggi fyrir umsögn Brunavarna Árnessýslu og Vinnueftirlits ríkisins.
5. 1807015 - Stofnun lóða, Hellisheiðavirkjun
Fyrir liggur staðfest deiliskipulag þ.e. 10. breyting á deiliskipulagi fyrir Hellisheiðavirkjun, Jarðhitagarður.
Innan svæðisins koma lóðir til úthlutunar.

Samþykkt samhljóða að gerð verði stofnskjöl fyrir svæðið og afmörkun lóða innan þess.
6. 1807014 - Óveruleg breyting á 10. br. á deiliskipulagi Hellisheiðavirkjunar
Orka náttúrunnar sækir um óverulega breytingu á einni lóð Norðurvellir 7 þar sem mörk byggingarreits eru færð út frá 25 m í 15 m.
Erindið hefur verið grenndarkynnt til nágranna sem er eigandi landsins Orkuveita Reykjavíkur og er breytingin samþykkt af þeirra hálfu.

Samþykkt samhljóða að heimila óverulega breytingu á deiliskipulaginu er nær til lóðarinnar Norðurvellir 7 og færa út byggingarreit innan lóðar frá 25 m í 15 m.
7. 1805020 - Skipulags- og matslýsing fyrir aðalskipulag
Lögð fram og kynnt sameiginleg skipulags- og matslýsing fyrir nokkrar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Helstu breytingar eru:
Frístundasvæði í land Gljúfurárholts fellt út. Þar kemur landbúnaðarland með þeim skilyrðum sem eru um landbúnaðarland.
Heimildir um byggingar á landbúnaðarsvæðum.
Heimildir um uppbyggingu lyktarmengandi starfsemi á landbúnaðarvæðum.
Verslunar- og þjónustusvæði í landi Litla- og Stóra Saurbæjar.
Iðnaðarsvæði norðan Varmár og lagnaleiðir.
Iðnaðarsvæði I24, gert ráð fyrir að heimila starfsmannahúsnæði á iðnaðarsvæði.

Samþykkt samhljóða að skipulags- og matslýsingin fari í lögboðinn feril.
8. 1807013 - Óveruleg breyting á byggingarreit við stöðvarhús Hellisheiðavirkjunar
Orka náttúrunnar sækir um óverulega breytingu á byggingarreit við Hellisheiðarvirkjun.
Í skipulaginu er afmarkaður byggingarreitur við stöðvarhús Hellisheiðavirkjunar. Sótt er um að stækka byggingarreit við stöðvarhúsið.
Vestast í byggingarreitnum er afmarkað svæði fyrir tæknigarða.
Sótt er um að stækka byggingarreitinn til norðurs og vesturs.
Innan þessarar stækkunar er fyrirhugað að byggja vetnisstöð.
Erindið hefur verið grenndarkynnt til nágranna sem er Orkuveita Reykjavíkur sem hefur veitt heimild fyrir þessari óverulegu breytingu.

Samþykkt samhljóða að heimila óverulega breytingu á skipulaginu er tekur til að stækka byggingarreitinn við stöðvarhúsið þar sem tæknigarðarnir eru.
9. 1806011 - Aukaaðalfundur Bergrisans bs.
Í fundargerð aukaaðalfundar Bergrisans bs. frá 18. júní s.l 6. lið er fjallað um byggingu sjö íbúða þjónustukjarna fyrir fatlað fólk á Selfossi og liggur þar fyrir samþykki Íbúðarlánasjóðs og Sveitarfélagsins Árborgar um stofnframlag til byggingarinnar.
Þá er einnig fjallað um í 8. lið tillögu um að keypt verði íbúðarhús á Selfossi fyrir úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að ráðist verði í bæði þessi verkefni á vegum Bergrisans bs.

Fundargerðir til kynningar
10. 1506123 - Skóla- og velferðarmál: Fundargerðir NOS.
Lögð fram fundargerð NOS frá 10. júlí s.l.

Til kynningar.
11. 1603005 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. júní s.l. lögð fram.

Til kynningar.
12. 1605028 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir Héraðsnefndar Árnesinga.
Fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga bs frá 16. júlí s.l. lögð fram.

Til kynningar.
13. 1602011 - Heilbrigðismál: Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 29. júní s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:05 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?