Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 317

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
07.11.2019 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1908040 - Gjaldskrár Sveitarfélagsins Ölfuss 2020.
Fjárhagsáætlunargerð 2020, tillaga að gjaldskrá lögð fram til kynningar.
Fyrir bæjarráði lágu gjaldskrár sveitarfélagsins.

Bæjarráð ítrekar að með yfirlýsingu dagsettri 04.apríl 2019 mæltist Samband íslenskra sveitarfélaga til þess að gjaldskrár sveitarfélaga yrðu ekki hækkaðar umfram 2,5% vegna „lífskjarasamninganna“.

Bæjarráð leggur til að gert verði ráð fyrir að orðið verði við þessum tilmælum og gjaldskrár eingöngu hækkaðar um 2,5% að jafnaði.

Útsvar í sveitarfélaginu er í dag 14,52%. Bæjarráð leggur til að halda útsvarsprósentu óbreyttri.

Fasteignagjöld í Ölfusi eru nú sem hér segir: Fasteignaskattur 0,35%, holræsagjald 0,25% og vatnsskattur 0,12%.

Bæjarráð leggur til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,35% í 0,34%, holræsagjöld lækki úr 0,25% í 0,20 og vatnsskattur lækki úr 0,12% í 0,10%.

Samþykkt samhljóða
2. 1910073 - Niðurstaða úthlutnarnefndar stofnframlaga.
Bréf frá Íbúðalánasjóði vegna umsóknar Sveitarfélagsins Ölfuss um stofnframlag vegna byggingar íbúða við Egilsbraut 9.
Fyrir bæjarráði lá niðurstaða úthlutunarnefndar stofnframlaga í kjölfar umsóknar Sveitarfélagsins Ölfuss um stofnframlag vegna bygginga á 4 íbúðum við Egilsbraut 9. Íbúðirnar verða nýttar sem íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélagsins sem leigðar verða eldri borgurum. Íbúðirnar verða 58 m2 að stærð og er áætlað heildarstofnvirði byggingarinnar 114.616.306 kr.

Niðurstaða úthlutunarnefndar er að samþykkja umsókn um veitingu 18% stofnframlags og 4% viðbótarframlags vegna byggingarinnar að upphæð 25.215.587 kr.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og vísar erindinu til gerð fjárhagsáætlunar.
3. 1910030 - Samkomulag um uppgjör lífeyrisskuldbindinga.
Fyrir bæjarráði lágu upplýsingar um uppgjör milli Hveragerðisbæjar og Ölfus vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna sem sinna sameiginlegum verkefnum svo sem við fræðslustörf. Kostnaður Sveitarfélagsins Ölfuss eru 13.482.952 kr. skv.uppgjörinu.

Bæjarráð samþykkir uppgjörið og felur starfsmönnum að ganga frá greiðslu vegna þess.

Samþykkt samhljóða.
4. 1911010 - Byggðakvóti 2019-2020
Umsókn um byggðakvóta fiskveiðiársins 2019/2020.
Fyrir bæjarráði lá afrit af umsókn um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 dagsett 04.nóv 2019.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
5. 1910076 - Smábátafélagið Árborg
Ósk frá Smábátafélaginu Árborg um breytingar á reglum um byggðakvóta.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Smábátafélaginu Árborg þar sem þess að krafist að reglum um byggðakvóta verði breytt á þá leið að þeir bátar sem fái úthlutað og eru án vinnslu fái að landa byggðakvótanum í sínu byggðalagi á fiskmarkað.

Bæjarráð hefur skilning á erindinu en minnir á að vald til breytinga á tilgreindum reglum liggja ekki hjá sveitarfélaginu heldur atvinnuvegaráðuneytinu og hvetur því bréfritara að beina kröfum sínum þangað.

Samþykkt samhljóða.
6. 1911003 - Stækkun kirkjugarðs í Þorlákshöfn.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Þorláks- og Hjallasókn þar sem óskað var eftir aðkomu sveitarfélagsins vegna stækkunar kirkjugarðsins í Þorlákshöfn.

Bæjarráð er jákvætt fyrir erindinu en getur eðli málsins samkvæmt ekki tekið ákvörðun um aðkomu fyrr en fyrir liggja kostnaðartölur og áætluð kostnaðarskipting milli sóknarnefndar Þorláks- og Hjallasóknar og sveitarfélagsins.

Að öðru leyti vísar bæjarráð erindinu til áframhaldandi vinnslu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

Samþykkt samhljóða.
7. 1901025 - Jafnlaunavottun Sveitarfélagsins Ölfuss.
Fyrir bæjarráði lágu tilboð í vottun á jafnlaunakerfi fyrir Sveitarfélagið Ölfus.
Þrjú tilboð bárust í vottunarúttekt og viðhaldsúttekt til 3 ára. Tilboðin voru sem hér segir;

BSI Íslandi, kostnaður alls: 1.295.000 kr.
iCert, kostnaður alls: 1.085.000 kr.
Versa vottun, kostnaður alls: 883.480 kr.

Bæjarráð samþykkir að fela sviðsstjóra að ganga til samninga við lægstbjóðanda svo fremi sem ekkert óvænt komi í ljós við áframvinnslu málsins.

Samþykkt samhljóða.
8. 1910061 - Sameiningar sveitarfélaga.
Ósk frá Capacent ehf. um fund með sveitarstjórn til að kynna þá aðstoð sem Capacent getur veitt til að aðstoða við undirbúning á sameiningum sveitarfélaga.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Capacent ehf. þar sem þeir auglýsa þá aðstoð sem fyrirtækið getur veitt til að aðstoða við undirbúning á sameiningum sveitarfélaga. Í erindinu er einnig boðið upp á kynningafund vegna þessarar þjónustu.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar en þar sem Sveitarfélagið Ölfus á ekki í viðræðum við önnur sveitarfélög um sameiningu er ekki þörf á frekari kynningu að svo stöddu.

Samþykkt samhljóða.
9. 1812018 - Þorláksskógar.
Tilnefning fulltrúa í verkefnastjórn Þorláksskóga í stað Hrannar Guðmundsdóttur.
Fyrir bæjarráði lá afrit af fundargerð 6. fundar Verkefnastjórnar Þorláksskóga.

Í fundargerðinni var óskað eftir tilnefningu fulltrúa frá Sveitarfélagin Ölfus þar sem Hrönn Guðmundsdóttir hefur veri ráðin verkefnastjóri.

Bæjarráð samþykkir að skipa Sigurð Ósmann Jónsson í verkefnastjórnina.
10. 1910045 - Skákhátíð styrkbeiðni
Fyrir fundinum lá styrkbeiðni vegna alþjóðlegrar skákhátíðar sem haldin verður á Selfossi 19.-29.nóvember nk.
Fyrir bæjarráði lá styrkbeiðni vegna alþjóðlegrar skákhátíðar sem haldin verður á Selfossi 19. til 29.nóvember nk. Sótt er um 250.000 kr. styrk frá Sveitarfélaginu Ölfus.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu þar sem það rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar.

Samþykkt samhljóða.
11. 1910062 - Umsókn um rekstrarstyrk 2020
Umsókn frá Kvennaathvarfinu um rekstrarstyrk fyrir árið 2020.
Fyrir bæjarráði lá umsókn um rekstrarstyk til Kvennaathvarfsins fyrir árið 2020.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.
12. 1910063 - Umsókn um fjárstuðning 2020.
Umsókn um fjárstuðning fyrir árið 2020 frá Stígamótum.
Fyrir bæjarráði lá fjárbeiðni Stígamóta fyrir árið 2020.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.
13. 1910033 - Tjaldsvæði Þorlákshafnar
Upplýsingar um aðsókn að tjaldsvæði Þorlákshafnar.
Fyrir bæjarráði lá minnisblað um rekstur tjaldsvæðis sveitarfélagsins í Þorlákshöfn.

Þar kom fram að gestakomur voru alls 3.533 sumarið 2019 og vaxa um 175% milli ára og gistinætur alls 4.255 og vaxa um 161% milli ára. Sé horft til lengri tíma kemur í ljós að fjölgun gesta frá 2015 nemur 244% og 247% í gistinóttum. Um umtalsverða aukningu er að ræða og ljóst er að enn eru tækifæri til frekari vaxtar.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

Bæjarráð telur afar mikilvægt að tjaldsvæðið í Þorlákshöfn haldi áfram að vaxa og dafna. Til marks um það hefur sveitarfélagið varið talsverðum fjármunum í uppbyggingu þess og er hið nýja þjónustuhús skýrt dæmi um vilja sveitarfélagsins hvað það varðar.

Bæjarráð telur í því samhengi fulla ástæðu til að leita leiða til að hleypa einkaaðilum að þessari ferðaþjónustu enda er hún í eðli sínu lík annarri ferðaþjónustu sem stunduð er af einkaaðilum í sveitarfélaginu með góðum árangri.

Bæjarráð felur því bæjarstjóra að leggja drög að útboðslýsingu vegna reksturs tjaldsvæðisins og leggja fyrir nefndina á næsta fundi hennar.

Samþykkt samhljóða.
Mál til kynningar
14. 1910037 - Ágóðahlutagreiðsla 2019.
Ágóðahlutagreiðsla EBÍ.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands. Þar kemur fram að hlutdeild Sveitarfélagsins Ölfuss í Sameignarsjóði EBÍ er 1,585% og greiðsla ársins 792.500 kr.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
15. 1910072 - Jafnréttisáætlanir sveitarfélaga.
Bréf Jafnréttisstofu um jafnréttisáætlanir sveitarfélaga til kynningar.
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með áskorun til þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa sett sér jafnréttisáætlun að gera slíkt.

Bæjarráð þakkar brýninguna sem þó er óþörf í tilfelli Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem jafnréttisáætlun sveitarfélagsins er þegar frágengin og samþykkt.
16. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:05 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?