Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 33

Haldinn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn,
30.10.2019 og hófst hann kl. 08:00
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Halldóra Björk Guðmundsdóttir aðalmaður,
Hjörtur S. Ragnarsson aðalmaður,
Ágústa Ragnarsdóttir aðalmaður,
Hólmfríður F. Zoega Smáradóttir áheyrnarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Katrín Ósk Sigurgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri, Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri.
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fjölskyldu- og fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Leikskólastjóri greindi frá helstu viðburðum í starfi skólans frá því í lok ágúst, m.a. heimsóknum iðjuþjálfa, eldri borgara, tónlistarskólans og gestum frá leikskólanum Undralandi í Hveragerði. Þá upplýsti leikskólastjóri um atburði í starfinu, s.s. námskeið fyrir erlenda starfsmenn, fundi, dag náttúrunnar, foreldrafundi, leikshúsheimsókn helstu barna, haustþing og fyrirlestur frá Blátt áfram.
Jafnframt greindi leikskólastjóri frá álagspunktum í starfinu vegna námskeiða starfsmanna, veikinda og óvæntra forfalla, og hvernig brugðist gengið hefur að manna leikskólann við þessar aðstæður.
Hvað varðar nemendafjölda við skólann greindi leikskólastjóri nokkuð hafi verið um flutninga til og frá bæjarfélaginu, og hafi það haft nokkur áhrif á hreyfingar á plássum við skólann. Eru í dag 93 nemendur við leikskólann.
Þá greindi leikskólastjóri frá fyrirkomulagi á leikskólanum í kringum jól og áramót og kynnti útfærslu Grindavíkurbæjar í því sambandi.
Leikskólastjóri upplýsti einnig um óhjákvæmilegar breytingar á starfsdögum vegna námsferðar starfsmanna við skólann.
Að endingu greindi leikskólastjóri frá nýrri jafnréttisstefnu sem starfsfólk Bergheima og foreldrafélag hafa samþykkt en fjallað er sérstaklega um stefnuna undir næsta dagskrárlið.
2. 1901023 - Leikskólinn Bergheimar. Jafnréttisáætlun
Leikskólastjóri lagði fram til samþykktar nýja og vandaða jafnréttisáætlun sem unnin hefur verið við skólann og hlotið hefur samþykki Jafnréttisstofu. Áætlunin er talsvert ítarlegri en fyrri áætlun, og auk þess í betra samræmi við nýja löggjöf og áherslur í jafnréttismálum.
Þá er áætlunin mun hnitmiðaðri þar sem hún er skilgreind út frá markmiðum með tilteknum þáttum hennar, því hvernig markmiðinu skuli náð, hver beri ábyrgð á hverum þætti áætlunarinnar og tímamarki varðandi það hvenær hvaða markmiði skuli náð.

Nefndin samþykkir framlagða jafnréttisáætlun.
3. 1910059 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Niðurstöður nemendakönnunar.
Á fundi fræðslunefndar þann 13. maí síðastliðinn kynnti skólastjóri niðurstöðu nemendakönnunar sem framkvæmd var hjá nemendum í 6. - 10. bekk í grunnskólanum.
Þeir þættir sem snúa að skólastarfi komu vel út.
Niðurstöður gáfu þó til kynna að börn í grunnskólanum séu undir meðaltali ef bornir eru saman sambærilegir skólar sem taka þessa könnun, bæði í reglulegri hreyfingu sem og hollumataræði. Telur fræðslunefnd mikilvægt að yfirvöld sem koma að málefnum barna í sveitarfélaginu séu meðvituð um þessar niðurstöður og þess verði freistað að efla reglulega hreyfingu og hollt mataræði hjá börnunum. Þar sem þessir þættir snúa einnig að íþróttastarfi og lýðheilsu ungs fólks en ekki aðeins að skólastarfi, álítur fræðslunefnd rétt að vísa þessum niðurstöðum til umfjöllunar í íþrótta- og æskulýðsnefnd, samhliða því sem fræðslunefnd og skólayfirvöld munu reyna að bregðast við niðurstöðunum eftir megni í sínu starfi.
Nefndin vísar málinu til frekari kynningar í íþrótta- og æskulýðsnefnd.
4. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Skólastjóri kynnti starf skólans frá því í ágúst og fór yfir helstu viðburði í starfinu, s.s. ævintýra og útivistarferð unglingadeildar á vegum Kiwanis, heimsóknar frá Bifhjólasamtökunum Sniglunum þar sem veitt var fræðsla um notkun hjálma á reiðhjólum og vespum, samræmdum prófum í 4. og 7. bekk, alþjóðlega friðarhlaupinu, heimsókn frá List fyrir alla, heimsókn pólska sendiherrans á Íslandi, heimsókn rithöfundar á vegum bókmenntadagskrárinnar Skáld í skólum.
Þá greindi skólastjóri frá því nemendum hefði fjölgað um 18 frá síðasta hausti og að um þessi mánaðarmót verði þeir orðnir 240.
Skólastjóri greindi frá því að teymiskennsluverkefni hafi farið vel af stað, að starfsáætlun skólans hafi verið send foreldrum og birt á heimasíðu, og að kennsluáætlanir allra kennara muni birtast á heimasíðu skólans á næstu dögum.

Nefndin þakkar upplýsingarnar.
5. 1910056 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Pólskukennsla.
Skólastjóri greindi frá fjölda nemenda af erlendu bergi brotnu við skólann, og upplýsti um að fjöldi nemenda með pólskan bakgrunn væri mikill, alls um 20 nemendur.
Skólastjóri upplýsti að skólastjórnendur hefðu áhuga á að kanna hvort að hægt sé að fá stundakennara til að kenna pólsku í 1-2 kennslustundir á viku og koma þannig til móts við þennan fjölmenna hóp. Slíkt fyrirkomulag ætti sér stoð í aðalnámskrá grunnskóla þar sem segir: Mikilvægt er að hafa í huga að nemendur með annað móðurmál en íslensku viðhaldi og rækti eigið móðurmál, en samkvæmt grunnskólalögum er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. Traust kunnátta í móðurmáli er meginundirstaða staðgóðrar menntunar.

Nefndin þakkar upplýsingarnar og tekur jafnframt undir með skólastjóra um að æskilegt væri að veita þessum nemendum skólans sem besta menntun og auka lífsgæði þeirra með þessu móti. Vísar nefndin málinu til frekari umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar hjá bæjarráði.

6. 1711040 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn Starfsáætlun.
Skólastjóri kynnti nýja starfsáætlun skólans og þau nýmæli sem koma fram í henni.
Áætlunin hefur þegar verið lögð fyrir starfsmannafund og samþykkt þar og send foreldrum.

Nefndin samþykkir framlagða starfsáætlun.
7. 1910057 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Kennsluáætlun
Skólastjóri kynnti kennsluáætlanir við skólann, sem birtar eru á heimasíðu skólans á veffanginu https://www.olfus.is/grunnskolinn/skolinn/kennsluaaetlanir.
Með nýju fyrirkomulagi er birting kennsluáætlana samræmd við skólann, og efni þeirra og framsetning jafnframt samræmt.

Nefndin þakkar upplýsingarnar.
8. 1910058 - Fastir fundartímar fjölskyldu- og fræðslunefndar.
Á þessum fyrsta fundi nefndarinnar skv. nýrri skipan eftir nýjum samþykktum sveitarfélagsins leggur formaður til að fundað verði í nefndinni að jafnaði á 6 vikna fresti og að jafnaði á miðvikudagsmorgnum ýmist um miðjan mánuðinn eða undir lok hans.

Nefndin samþykkir að funda reglulega með ofangreindum hætti.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?