Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 38

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
21.09.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 1. varamaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi, Davíð Halldórsson umhverfisstjóri.
Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Jónasson, skipulagsfulltrúi
Í upphafi fundar lagði varaformaður til að eitt mál yrði tekið á dagskrá með afbrigðum. Það eru mál nr. 22 sem fjallar viðbyggingu við hesthús að Sunnuhvoli i Ölfusi. Var samþykkt samhljóða að málið yrði tekið fyrir á fundinum.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2209011 - Kynning á mögulegri uppbyggingu við Raufarhólshelli
Fulltrúar landeiganda við Raufarhólshelli mæta á fundinn og kynna hugsanlega uppbyggingu í tengslum við starfsemi sína.
Afgreiðsla: Lagt fram til kynningar.
2. 2208052 - Skálholtsbraut - lækkun hámarkshraða - þrengingar og bílastæði
Komið hafa upp hugmyndir um að lækka hámarkshraða við Skálholtsbraut milli Selvogsbrautar og Egilsbrautar og setja upp þrengingar í samræmi við það sem hefur verið gert annarstaðar í bænum. Einnig er hugmyndin að færa bílstæði af götunni en bílum er í dag lagt út í götuna sem skapar hættu.
Þar með verður hámarkhraði í götunni 30 km/klst eins og í mörgum íbúðargötum bæjarins.

Afgreiðsla: Samþykkt að kynna tillöguna fyrir íbúum Skálholtsbrautar með fresti til athugasemda.
3. 2209021 - Kynning á fjallahjólastígum í Ölfusi kringum Hvergerði
Magne Kvam kemur á fundinn og kynnir stígagerð sem fyrirtæki hans, Icebike hans hefur unnið að uppbyggingu á í Ölfusi við Hveragerði. Magne kom að gerð fjallahjólasvæðis í Þorlákshöfn.
Magne óskar eftir viljayfirlýsingu frá sveitarfélaginu vegna umsóknar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa eða bæjarstjóra verði heimilað að undirrita viljayfirlýsingu sveitarfélagsins fyrir hennar hönd.
4. 2209020 - Vesturbakki 1 - 3 -5 og 7 Girðingar- og gróðurbelti
Borist hefur erindi frá lóðarhafa við Vesturbakka vestanverðan um girðingu á vestanverðum lóðunum Vesturbakki 1, 3, 5 og 7. Skv. skipulagi skulu lóðarhafar reisa girðingu og planta gróðurbelti við vestanverð lóðarmörk þeirra lóða sem eru við vestanverðan Vesturbakka til að skerma svæðið frá væntanlegu íbúðarsvæði vestan þess. Lóðarhafi sendir inn tillögu að ákveðinni girðingu sem er vírnet með gaddavír að ofan.

Í kafla 4.2 í sérskilmálum deiliskipulagsgreinargerðar segir:

Við hönnun bygginga á lóðum Vesturbakki 1-3,5-7og 9,11,13 og 15 - 16:
- Sami litur skal notaður á húsþök innan sama byggingareits.
- Brjóta skal upp hliðar bygginga með t.d. útbyggingu, innskotum, efnisvali eða litabreytingu. Á þetta sérstaklega við um vesturhliðar.
- Kvöð er á lóðunum um gróður innan lóða og girðingu á vesturhlið lóða.
- Ekki er heimilt að setja upp skilti á vesturhlið bygginga, sem snýr að íbúðarbyggð.

Ennfremur segir í sérskilmálum í kafla 4.1 4.1 Frágangur lóða og lóðarmörk:
Ef þurfa þykir er lóðarhafi skyldur til að girða lóð sína og þá í því formi sem bæjaryfirvöld óska.............Áhersla er á góðan frágang umhverfis byggingar og að slíkt verði til fyrirmyndar. Krafa er á að lóðarhafar noti gróður til fegrunar umhverfis en ekki síður til að binda kolefni.

Eins er sýnt gróður-/ girðinga belti á uppdrætti meðfram vesturhlið lóða.

Einnig er bent á að á deiliskipulagsuppdrætti er sýnt gróðurbelti meðfram lóðunum, vestan þeirra í bæjarlandinu.

Afgreiðsla: Nefndin leggur áherslu á að ekki verði girt með gaddavírsgirðingu. Nefndin bendir á að tilgangurinn með þessu ákvæði í deiliskipulaginu er að hindra innsýn á athafnalóðirnar. Nefndin samþykkir engan gaddavír og ekki opnar girðingar úr vírneti eins og lagt er til heldur beinir því til lóðarhafa að girðingar verði lokaðar og amk. 1,8 metra háar.
Nefndin fellur frá kröfu um gróður innan lóðar á lóðamörkum, enda verði girðingar í samræmi við óskir nefndarinnar.
Davíð Halldórsson yfirgaf fundinn eftir að liðurinn var afgreiddur.
5. 2111026 - ASK Heildarendurskoðun aðalskipulags
Borist hafa athugasemdir Skipulagsstofnunar í kjölfar yfirferð stofnunarinnar á nýju aðalskipulagi sem auglýst var í vor. Stofnunin hefur fundið ýmis atriði sem bregðast þarf við áður en stofnunin staðfestir skipulagið. Athugasemdirnar/ábendingarnar eru í 11 liðum og má finna þær í viðhengi. Þar er einnig að finna skjal þar sem breytingar/lagfæringar sem lagt er til að gerðar verði á tillögunni eru auðkennd með "track changes".

Tæknimenn hjá EFLU vinna að því að breyta skipulagskorti til samræmis í vefsjá og samhæfa gögn.

Afgreiðsla: Tillögur að lagfæringum sem lagt er til að gerðar verði á tillögunni samþykktar. Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 3. málsgrein 30. greinar og 2. málsgrein 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. og niðurstaða bæjarstjórnar auglýst.
6. 2208001 - DSK Gljúfurárholt land 7
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina Gljúfurárholt land 7 í Ölfusi. Nefndin tók jákvætt í erindi á síðasta fundi um að heimila að unnið verði deiliskipulag sem gerði ráð fyrir að byggð væri ein hæð með nýrri íbúð ofan á húsið sem fyrir er á lóðinni.

Deiliskipulagið er í samræmi við heimildir fyrir uppbyggingu sem nýtt aðalskipulag gerir ráð fyrir í dreifbýli.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.
7. 2208053 - DSK Mýrarsel - frístundalóðum breytt í einbýlishúsalóðir
Haukur Benediktsson byggingafræðingur spyr fyrir hönd landeiganda hvort leyft verði að breyta skipulagi þannig að 5 frístundalóðir við Mýrarsel við Hvammsveginn verði íbúðarlóðir. Á svæðinu er íbúðasvæði sem innheldur 7 íbúðarlóðir. Við breytinguna verða 12 íbúðarlóðir á svæðinu en engin frístundalóð. Allir eigendur þessara 5 lóða sem um er að ræða hafa samþykkt breytinguna nema einn.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir að aðal- og deiliskipulagi verði breytt í samræmi við erindið.
8. 2209018 - Lækur II lóð C, Umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem óverulegt frávik.
Landeigandi leggur fram umsókn þar sem hann óskar eftir að breyta deiliskipulagi sem óveruleg frávik. Breytingin fellst í því að byggingarreit fyrir skemmu og íbúðarhús er víxlað, þeir færðir til norðvesturs þannig að þeir verði 5 metra frá lóðamörkum. Kunnugir aðilar hafa bent á að líklegt sé að lögn vatnsveitu Hjallasóknar liggi undir fyrirhugaða byggingarreiti.

Landeigandinn óskar eftir að þetta verði samþykkt í samræmi við 3. málsgrein 43. greinar skipulagslaga sem minniháttar breyting á deiliskipulagi.

Heildar byggingarmagn og hæð húsa er ekki umfram það sem heimilað var fyrir breytinguna í viðkomandi reitum.

Í annarri málsgrein 43. greinar skipulagslaga segir:
"Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. [Sveitarstjórn skal senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda."

Afgreiðsla: Nefndin samþykkir ekki að um sé að ræða minniháttar breytingu á deiliskipulagi. Heil hús á eða við lóðamörk falla ekki undir heimildir skipulagslaga til grenndarkynningar. Við hugsanlegt framhald málsins þarf að tryggja að staðsetning mannvirkja sé í hæfilegri fjarlægð frá vatnsveitu Hjallasóknar.
9. 2208019 - Hjólastígar í dreifbýli
Bæjarstjórn vísaði eftirfarandi máli til skipulagsnefndar á fundi sínum þann 25. ágúst síðastliðinn:

Fyrir bæjarstjórn lá handskrifað og myndskreytt erindi frá Hrólfi Vilhelm 9 ára íbúa á Þóroddsstöðum þar sem hann bendir á þörfina fyrir hjólastíga.
Bæjarstjórn vísaði erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar með beiðni um að stofnaður verði stýrihópur til að grófhanna hjóla- og göngustígakerfi í dreifbýlinu með áherslu á tengingar við helstu þéttbýlisstaði. Samhliða verði framkvæmdinni áfangaskipt og forgangsraðað.

Afgreiðsla Bæjarstjórnar: Bæjarstjórn þakkar fallegt og einlægt erindi og tekur ábendingunni alvarlega.

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi afgreiðslutillögu fyrir hönd meirihlutans:
Bæjarstjórn beinir erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar með beiðni um að stofnaður verði stýrihópur til að grófhanna hjóla- og göngustígakerfi í dreifbýlinu með áherslu á tengingar við helstu þéttbýlisstaði. Samhliða verði framkvæmdinni áfangaskipt og forgangsraðað. Bæjarstjórn hvetur sérstaklega til þess að stýrihópurinn leiti álits hjá Hrólfi Vilhelm og öðrum börnum við undirbúning verkefnisins.
Hrönn Guðmundsdóttir og Gunnsteinn Ómarsson tóku til máls.
Afgreiðsla Bæjarstjórnar: Samþykkt samhljóða.

Nefndin fagnar erindinu og skipar eftirfarandi í stýrihóp fyrir verkefnið í samræmi við bókun bæjarstjórnar:

Sigurbjörg Jenny Jónsdóttur, formann
Hrönn Guðmundsdóttur
Margréti Pollý Hansen
Hrafnhildi Árnadóttur
Hjört Ragnarsson

Gunnlaug Jónasson skipulagsfulltrúa, ritara stýrihópsins
10. 2208038 - DSK Þórustaðir 1
Borist hefur fyrirspurn varðandi svínabúið á Þórustöðum. Fyrirspurnin var í 4 liðum en skipulagsfulltrúi hefur svarað 3 af liðunum og má sjá svörin í viðhengi. Ósvarað er hvort krafist verði skipulagslýsingar ef skipulagsnefnd heimilar að umsækjandi láti vinna deiliskipulag í samræmi við erindið.
Afgreiðsla: Skipulags- og umhverfisnefnd heimilar að unnið verði deiliskipulag í samræmi við erindið. Þar sem áformin eru í samræmi við aðalskipulag Ölfuss, telur nefndin ekki ástæðu til að vinna skipulagslýsingu fyrir skipulagsáformin.
Sigurbjörg Jenny vék af fundi við afgreiðslu málsins.
11. 2206034 - Auðsholt - Krafa um endurköllun skipulags og merkingu aðgengisslóða
Borist hefur bréf frá lögmanni eigenda Auðsholts þar sem krafist er svara við nokkrum spurningum. Lögmaður sveitarfélagsins hefur unnið greinargerð og svarað lögmanninum.
Einnig hefur borist bréf frá eigendum Auðsholtshjáleigu.
Sveitarfélagið samþykkti í júlí að fella gildandi deiliskipulag Auðsholts úr gildi með auglýsingu þar um í B-deild stjórnartíðinda. Þessu mótmæltu eigendur Auðsholts og lögmaður sveitarfélagsins telur þetta ekki vera heimilt og þetta hefur ekki komið til framkvæmdar og mælir Lögmaður sveitarfélagsins með því að nefndin endurkalli fyrri ákvörðun sína. Einnig leggur lögmaðurinn til að landamerki í deiliskipulaginu verði breytt með óverulegri deiliskipulagsbreytingu eftir að breytingin hefur verið kynnt fyrir málsaðilum ef sátt er um þau.

Afgreiðsla: Skipulagsnefnd endurkallar fyrri ákvörðun sína frá 23.6.2022 þar sem nefndin beindi því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa yrði falið að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda sem felldi deiliskipulag Auðsholts úr gildi.

Stefnt er að því skipulagsfulltrúi fundi með málsaðilum um landamerki deiliskipulagsins.
12. 2209003 - Deiliskipulag í Þorlákshöfn
Í viðhengi má sjá kort sem sýnir Þorlákshöfn og þann hluta bæjarins sem hefur verð deiliskipulagður. Það eru tvö svæði sem ekki eru deiliskipulögð. Það eru annars vegar Bergin og hluti Hraunshverfis og hins vegar Brautirnar, skóla og íþróttasvæðið og hluti Selvogsbrautar/miðsvæðis.

Nýlega kom upp mál þar sem ekki var hægt að veita velyrði fyrir ákveðinni lóð á horni Unubakka og Selvogsbrautar þar sem hún hefur ekki verið deiliskipulögð.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til umhverfis og framkvæmdasviðs að á næstu árum verði unnið að því að deiliskipuleggja óskipulögð svæði í Þorlákshöfn í áföngum. Lagt er til að í næstu fjárhagsáætlun verði úthlutað fjármagni til að deiliskipuleggja allt miðsvæði Þorlákshafnar.
13. 2209002 - Umsókn - Ljósleiðari í landi Ölfuss
Ljósleiðarinn ehf óskar eftir heimild til að leggja ljósleiðara í jörðu með fram girðingu á landamörkum Þorlákshafnarjarðarinnar og Hrauns frá landtökustað nýs sæstrengs að Eyrarbakkavegi, gegnum svæði sem heitir Melar.

Þessi strengur verður hluti af tengingu nýs sæstrengs við kerfið á Íslandi. Nýi sæstrengurinn tengir Ísland og Írland og hófst lagning hans fyrr á árinu.

Afgreiðsla: Samþykkt að heimila lagningu ljósleiðara um umrætt svæði.
14. 2208016 - Árblik - erindi um landnotkun
Málinu var frestað á síðasta fundi nefndarinnar og eftirfarandi bókað: Borist hefur erindi þar sem óskað er eftir að lóðin Árblik í Árbænum verði skilgreind sem dreifbýli en lóðin er vel innan skipulagsmarka þéttbýlisins í Árbænum en er á svæði sem er skilgreint sem íbúðarsvæði.
Afgreiðsla 37 fundar: Afreiðsla: Frestað. Skipulagsfulltrúa falið að afla frekari gagna um málið. Eigendur Árbliks eiga einnig aðliggjandi lóð "Árbær 3 land" landnr. 171649 sem liggur milli Árbliks og Seyla.

Síðan þá hefur skipulagsfulltrúi fundað með málsaðilum og hafa hlutirnir skýrst nokkuð. Óskað er eftir að báðar lóðirnar sem þau eiga, Árbær 3 land L171649 og Árblik L171668, verði utan íbúðasvæðisins í Árbænum en tilheyri landbúnaðarsvæði sem umlykur það. Við breytinguna munu byggingarheimildir aðalskipulags á landbúnaðarsvæðum gilda um lóðirnar.

Afgreiðsla: Landeigendum er heimilt að láta breyta aðalskipulagi með óverulegar breytingu í samræmi við 36. gr. skipulagslaga, þannig að báðar lóðirnar sem þau eiga tilheyri landbúnaðarsvæði en ekki íbúðarsvæði.
15. 2208050 - Árhólmar í Hvergerði - kynning á breyttu deiliskipulagi
Komið hefur erindi frá skipulagsfulltrúa Hveragerðisbæjar þar sem vakin er athygli á breytingu á deiliskipulagi Árhólma sem er rétt innan bæjarmarka Hveragerðis í Ölfusdal. Breytingin felst í að hámarksstærð nýrrar þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn stækkar úr 350 fermetrum í 950 fermetra. Hægt er að gera athugasemd við breytinguna til miðnættis 21. september.
Afgreiðsla: Lagt fram.
16. 2209013 - Skipun faghóps um uppbyggingu á lóðum Heidelberg Cement Pozzolinic ehf
Í tillögu Grétars Inga Erlendssonar sem var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi var meðal annars lagt til að Skipulags- og umhverfisnefnd verði falið að skipa faghóp með arkitekt, verkfræðing og fl. sem tryggja skuli að ekki verði gefinn afsláttur af útliti og eðli mannvirkja sem rísa á hafnarsvæðinu. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina og að ef mannvirkin rísi þá verði það til að efla samfélagið en ekki skaða það. Hæð þeirra, útlit og annað fyrirkomulag skal í öllum tilvikum taka mið af nálægð við íbúabyggðina.

Komi til þess að skipulagi verði breytt við vinnslu málsins verða slíkar kröfur að minnsta kosti þær sömu og eru í skipulagi hafnarsvæðisins.

Lagt er til að skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins Gunnlaugur Jónasson, arkitekt MBA,
Sigurður Áss Grétarsson verkfræðingur og ráðgjafi sveitarfélagsins um hafnarsvæðið og
Páll Jakob Líndal eigandi TGJ-arkitekta og sérfræðingur í sálfræðilegum áhrifum heilsu á vellíðan íbúa verði skipaðir í hópinn.

Í viðhengi er mynd af sorpbrennslustöð í Kaupmannahöfn sem líka þjónar sem sleða/skíðabrekka.

Afgreiðsla: Frestað. Nefndin stefnir að því að jafna kynjahlutfall með því að fjölga í hópnum og taka málið upp á næsta fundi.
17. 2208037 - Loftgæðamælar í Þorlákshöfn
Bæjarstjórn vísaði tillögu um að þess verði farið á leið við Umhverfisstofnun að stofnunin setji upp loftgæðamæla í Þorlákshöfn. Í viðhengi er tillagan ásamt korti sem sýnir loftgæðamælar í nágrannasveitarfélögum okkar.

Bæjarstjórn bókaði:
Inngangur: Tillaga frá bæjarfulltrúum B og H lista þess efnis að Sveitarfélagið Ölfus fari fram á það við Umhverfisstofnun að settir verði upp loftgæðamælar í Þorlákshöfn.

Bókun bæjarstjórnar: Forseti flutti svohljóðandi afgreiðslutillögu: Bæjarstjórn vísar erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar sem fer með umhverfismál. Samþykkt samhljóða.

Afgreiðsla: Nefndin fagnar tillögunni. Því vísað til skipulagsfulltrúa að hann fari þess á leit við Umhverfisstofnun um að settir verði upp loftgæðamælar í eða við Þorlákshöfn.
18. 2208033 - Litla Sandfell umsögn um matsskýrslu
Skipulagsstofnun biður um umsögn sveitarfélagsins um matskýrslu vegna efnistöku úr Litla Sandfelli. Til stendur að vinna allt að 18 milljónir rúmmetra úr fellinu sem verður nýtt að hluta í framkvæmdir og að hluta sem íblöndunarefni í sement. Í skýrslunni eru bornir saman tveir valkostir, annars vegar að vinna ca hálft fellið og hins vegar að vinna efni úr öllu fellinu þannig að það hverfi alveg.
Gert er ráð fyrir að umferð muni aukast um 8-11% ef þjóðvegurinn verður fyrir valinu sem aðalflutningsleið efnis til Þorlákshafnar. Gert er ráð fyrir að efnistakan geti tekið allt að 30 ár.
Sveitarfélagið gaf umsögn um matsáætlun verkefnisins í mars í ár og þar kom eftirfarandi fram:

"Skipulags- og umhverfisnefnd Ölfus telur að vel sé gerð grein fyrir fyrirhuguðu umhversmati. Hún vill þó benda á mikilvægi þess að umhverfismatið taki á eftirfarandi atriðum:
Aðgengi almennings að útivistarsvæðum, t.d.inn að Geitafelli verði áfram opið.

Gerð verð grein fyrir álagi sem fylgir framkvæmdinni með mtt. umferðaröryggis og umhverfismála.

Gera þarf grein fyrir hvaða áhrif aukin þungaumferð mun hafa á Raufarhólshelli sem liggur undir þjóðveginn norðan Krossfjalla.

Nefndin vill einnig árétta mikilvægi þess að fyrirhugað umhverfismat fjalli um frágang svæðisins bæði eftir að námavinnslunni líkur og eins komi það skýrt fram að gengið verði jafnóðum frá þeim svæðum sem hafa verið unnin, meðan á námavinnslunni stendur."

Afgreiðsla: Skipulags- og umhverfisnefnd telur að skýrslan geri vel grein fyrir þeim atriðum sem sérstaklega var óskað eftir að fjallað yrði um í umsögn um matsáætlun verkefnisins í mars.
Eftir að skýrslan var unnin hafa komið fram hugmyndir um að námaefni verði flutt til Þorlákshafnar utan Þjóðvegakerfisins, um námaveg og í lokuðu færibandi. Þetta telur Skipulags- og umhverfisnefnd vænlegan valkost sem myndi minka umhverfisfótspor og bæta umferðaröryggi verulega.

Skipulags- og umhverfisnefnd Ölfus telur að skýrslan hefði átt að fjalla betur um fyrirhugaða efnisvinnslu í Þorlákshöfn.

Nefndin bendir á að ekki er fjallað um mótvægisaðgerðir í heimabyggð vegna aksturs og vinnslu. Eins og kemur fram er verkefnið jákvætt fyrir heimsbyggðina en sótspor verður eftir í Ölfusi. Krafist er að kolefni verði bundið með skógrækt eða öðrum leiðum.

Sveitarfélagið er leyfisveitandi þegar kemur að framkvæmdaleyfum fyrir efnistökunni og byggingarleyfum fyrir þeim byggingu sem framkvæmdin krefst.
19. 2207029 - Umsögn um vetnisstöð á Hellisheiði
Á júlífundi nefndarinnar var samþykkt umsögn um matsspurningu vetnisstöðvar á Hellisheiði. Nú hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að stöðin þurfi ekki að fara í umhverfismat eins og nefndin mælti með.
Afgreiðsla: Lagt fram.
20. 2208034 - Hverhlíðarlögn - umsögn um matstilkynningu
Borist hefur beiðni frá Skipulagsstofnun um umsögn um matstilkynningu um Hverhlíðarlögn sem er um 4,5 km löng gufulögn frá Hverahlíð að stöðvarhúsi Helliheiðarvirkjunar.

Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði þurfi að skýra frekar og hvort þau kalli á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði umsagnaraðila.

Afgreiðsla: Skipulagsnefnd er sammála því mati að framkvæmdin hafi óveruleg neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Framkvæmdin
sé því ekki að háð umhverfismati.

Nefndin er einnig sammála því mati sem kemur fram í skýrslunni að ekki sé þörf á að breyta deiliskipulagi Hellisheiðarvirkjunar vegna framkvæmdarinnar.

Sveitarfélagið vill af gefnu tilefni minna á að allar lokaðar byggingar eru byggingarleyfiskyldar þar með talin óeinangruð hýsi yfir borholum.

Sveitarfélagið Ölfus er leyfisveitandi þegar kemur að útgáfu framkvæmdaleyfis og hugsanlegra byggingarleyfa.

Sveitarfélagið gerir að öðru leiti ekki athugasemd við skýrsluna eins og hún er sett fram.
21. 2209012 - Umsögn um deiliskipulag Suðurlandsvegar í Kópavogi og Mosfellsbæ
Kópavogur óskar eftir umsögn Ölfuss um breikkun Suðurlandsvegar í 2 2 frá Geithálsi að tvíbreiðum hluta Suðurlandsvegar austan Lögbergsbrekku.

Hægt er að nálgast öll skipulagsgögn, á slóðinni: https://www.kopavogur.is/is/ibuar/skipulagsmal/skipulag-i-kynningu/sudurlandsvegur-i-kopavogi-og-mosfellsbae

Afgreiðsla: Skipulags- og umhverfisnefnd Ölfuss gerir ekki athugasemd við skipulagið eins og það er sett fram og fagnar öllum vegabótum sem mega verða til þess að bæta samgöngur til og frá Ölfusi.
22. 2209022 - Sunnuhvoll viðbygging við reiðskemmu
Sótt er um byggingarheimild fyrir viðbyggingu við reiðskemmu/hesthus að Sunnuhvoli í Ölfusi.
Viðbyggingin er innan byggingarreits ófullkomins deiliskipulags sem í gildi er fyrir lóðina sem sjá má í viðhengi.

Afgreiðsla: Nefndin samþykkir byggingaráformin í samræmi við 3 málsgrein 43. gr. skipulagslaga.
Fundargerð
23. 2209004F - Afgreiðslunefnd byggingarfulltrúa - 41
Afgreiðsla: Lagt fram.
23.1. 2209008 - Tilkynning um framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi
Jón Grétar Magnússon f/h eiganda tilkynnir um framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi. Um er að ræða steypt plan með stoðvegg á samkv. teikningu frá M 11 arkitektar dags.18.08.2022
Afgreiðsla: Samþykkt
23.2. 2209010 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Kolviðarhóll 1
Sverrir Ágústsson sækir um byggingaráform og byggingarleyfi í umfangsflokki 1 f/h lóðarhafa. Um er að ræða 2. hæða hús að hluta sem hýsa mun lofthreinsistöð. samkv. teikningu frá Tark arkitektar dags.15.08.2022
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi og heimild til að hefja framkvæmdir verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
23.3. 2209009 - Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1, Heinaberg 9
Sigurður Unnar Sigurðsson f/h lóðarhafa Kolbeinn Grímsson sækir um byggingarleyfi fyrir 20 fermetra garðskála sem verður byggður við núverandi íbúðarhús samkv. teikningum dags. 10.08.22
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi og heimild til að hefja framkvæmdir verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
23.4. 2208011 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur 2, Vetrarbraut 35-37-39
Eiríkur Vignir Pálsson f/h lóðarhafa Grétar Bjarnason sækir um byggingarleyfi fyrir raðhúsi samkv. teikningum frá Pro-ark teiknistofa dags. 19.05.22
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi og heimild til að hefja framkvæmdir verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
23.5. 2208010 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur 2, Vetrarbraut 29-31-33
Eiríkur Vignir Pálsson f/h lóðarhafa Helgi Sævar Sigurðsson sækir um byggingarleyfi fyrir raðhúsi samkv. teikningum frá Pro-ark teiknistofa dags. 09.08.22
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi og heimild til að hefja framkvæmdir verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
23.6. 2209007 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur 2 Lækur 2C
Samúel Smári Hreggviðsson sækir um byggingarleyfi f/h landeiganda á íbúðarhúsi á lóð, samkv. teikningum frá Húsey teikni-og verkfræðistofa dags. 16.08.2022
Afgreiðsla: Synjað. byggingaráform samræmast ekki deiliskipulagi byggingarreitur B2 er fyrir vélageymslu, hlöðu og gripahús.
23.7. 2209006 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur 2 , Vetrarbraut 9-11
Bent Larsen Fróðason f/h lóðarhafa Sigrún Hjördís Grétarsdóttir sækir um byggingarleyfi fyrir parhúsi samkv. teikningum frá Larsen hönnun og ráðgjöf dags. 22.08.22
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi og heimild til að hefja framkvæmdir verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?