Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 58

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
20.09.2023 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Jónasson, skipulagsfulltrúi


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2309035 - ASK Meitlar og Hverahlíð II - Aðalskipulagsbreyting vegna rannsóknaboranna
Orkuveita Reykjavíkur leggur fram skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar þar sem skilgreint er rannsóknarsvæði við Meitla og nýtt rannsóknarsvæði skilgreint í Hverahlíð II.

Í öðrum dagskrárlið er lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna rannsóknaborhola í Meitlum sem er í samræmi við gildandi aðalskipulag. Þessi breyting sem lýsingin fjallar um miðar að því að stækka það rannsóknarsvæðið í aðalskipulagi og verður deiliskipulag unnið fyrir stækkaða svæðið, áður en að rannsóknum kemur.

Afgreiðsla: Nefndin minnir OR á Orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins. Þar kemur skýrt fram sú stefna að höfuð nýtinga auðlinda taki mið af því að:

* Að sveitarfélagið sé beinn gerandi í stjórnun auðlinda í sveitarfélaginu.
* Að sveitarfélagið og íbúar þess njóti góðs af auðlindum í sveitarfélaginu.
* Að nýting auðlinda sé sjálfbær.

Nefndin frestar afgreiðslu erindisins þar til upplýst er með hvaða hætti tilgreind aðalskipulagsbreyting fellur að Orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins.
2. 2302017 - DSK Meitlar deiliskipulag vegna rannsóknarborhola í Meitlum á Hellisheiði
Lögð er fram deiliskipulagstillaga sem heimilar að boraðar verði tilraunaholur í Meitlum sem er svæði norðan við Stóra-Meitil á Hellisheiði. Ástæðan fyrir þessum fyrirhuguðu borunum er þörfin á að finna frekari orku til að viðhalda afkastagetu Hellisheiðarvirkjunar. Nefndin samþykkti skipulagslýsingu vegna deiliskipulagsins til auglýsingar í febrúar í ár.

Í öðrum dagskrárlið hér fyrir ofan er lögð fram tillaga að aðalskipulagsbreytingu þar sem svæðið er stækkað. Þetta deiliskipulag er í samræmi við óbreytt, gildandi aðalskipulag og eru málin tvö óháð hvort öðru.

Afgreiðsla: Nefndin minnir OR á Orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins. Þar kemur skýrt fram sú stefna að höfuð nýtinga auðlinda taki mið af því að:

* Að sveitarfélagið sé beinn gerandi í stjórnun auðlinda í sveitarfélaginu.
* Að sveitarfélagið og íbúar þess njóti góðs af auðlindum í sveitarfélaginu.
* Að nýting auðlinda sé sjálfbær.

Nefndin frestar afgreiðslu erindisins þar til upplýst er með hvaða hætti tilgreint deiliskipulag falli að Orku- og auðlindastefnu sveitarfélagsins.
3. 2302023 - ASK og DSK Litla Sandfell breyting á aðalskipulagi og deiliskipulag
Lögð er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi fyrir námasvæðið við Litla-Sandfell. Unnið hefur verið umhverfismat og liggur álit Skipulagsstofnunar þar um fyrir.

Sértæk skipulagsákvæði fyrir svæðið eru óbreytt nema að hvað námasvæðið er stækkað úr 24,3 ha. í 40 ha. og heildar efnistaka eykst úr 10.000.000 rúmmetrum í 18.000.000 rúmmetra:

Eftirfarandi sértæk skipulagsákvæði koma fram í tillögunni:
Þar sem hluti námunar er á fjarsvæði vatnsverndar skal liggja fyrir aðgerðaráætlun hvernig bregðast skuli við óhöppum varðandi mengandi efni, áður en starfleyfi er gefið út. Áætluð efnitaka á ári er um 625.000 m3. Gera þarf deiliskipulag og vinna umhverfismat áður en náman er tekin í notkun.

Nefndin hefur áður samþykkt skipulaglýsingu vegna breytingarinnar.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að óska eftir að Skipulagsstofnun auglýsi tillöguna í samræmi við 31. grein skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br.

Hrönn Guðmundsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins.
4. 2206054 - DSK Geo Salmo fiskeldi - Básar vestan við Keflavík
Skipulagsstofnun gerði nokkrar athugasemdir við yfirferð deiliskipulags fiskeldisstöðvar Geo Salmo í Básum. Skipulagshöfundar hafa nú brugðist við og uppfært tillöguna í samræmi við athugasemdirnar.

Í fylgiskjali er uppfærð tillaga og jafnframt minnisblað frá skipulagshöfundi þar sem farið er nákvæmlega í gegnum það sem var breytt/bætt.

Breytingarnar eru ekki þess eðlis að auglýsa þurfi tillöguna aftur.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.
5. 2301039 - DSK Deiliskipulag Bjarnastaðir L171687
Skipulagsstofnun kom með nokkrar ábendingar við lokayfirferð tillögunnar. Líklegt er að mistökin sem gerð voru varðandi uppbyggingu á landbúnaðarlandi í greinargerð aðalskipulags hafi þvælst fyrir stofnuninni við yfirferð málsins. Mistökin voru reyndar leiðrétt með óverulegri aðalskipulagsbreytingu í febrúar en það tók tíma að fá uppfærð stafræn aðalskipulagsgögn svo breytingin fór ekki í gegn fyrr en nýlega. Í viðhengi er uppfærð tillaga þar sem skerpt hefur verið á ýmsu í samræmi við ábendingar skipulagsstofnunar.

Afgreiðsla nefndar: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br
6. 2303017 - DSK Vesturbyggð norðan Selvogsbrautar ÍB10 og ÍB11
Tillaga að deiliskipulagi nýs hverfis vestan við bæinn, norðan Selvogsbrautar hefur verið auglýst. Ekki komu athugasemdir frá lögboðnum umsagnaraðilum nema hvað Minjastofnun benti á eina vörðu sem hefði lent innan lóðar á skipulagsuppdrætti. Skipulagshöfundur hefur lagfært gögn til samræmis og fyrir liggur bréf frá Minjastofnun þar sem heimilað er að auglýsa gildistöku skipulagsins með skilyrði um að sótt verði um leyfi til að raska vörðunni áður en framkvæmdir hefjast á lóðinni sem varðan er á.
Íbúiar á nærliggjandi svæði í bænum gerðu athugasemdir við skipulagið og er tillaga að svarbréfi í viðhengi.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að ganga frá málinu í samræmi við 1. málsgrein 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Skipulagsfulltrúa falið að svara íbúunum í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að svarbréfi.
7. 2309010 - DSK Þrastavegur 1 - breyting á deiliskipulagi
Baldur Ó. Svafarsson arkitekt leggur fram breytingu á deiliskipulagi Þrastarvegar 1. Deiliskipulagi er breytt þannig að unnt sé að byggja eitt hús sem hýsir bæði íbúð og verkstæði/skemmu og hesthús undir einu þaki í stað þriggja.
Nefndin tók jákvætt í fyrirspurn um erindi í þessa veru á 47. fundi í mars. Ekki er um aukningu á byggingarmagni að ræða frá fyrri tillögu.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br.
8. 2309040 - DSK Breytinga deiliskipulaginu Hjarðarból lóðir 1 og 2
Hermann Ólafsson leggur fram breytingu á deiliskipulagi Hjarðarbóls lóðir eitt og 2 sem hjá Skipulagsstofnun er flokkað sem "Hjarðarból svæði 3 og 4"
Bætt er við lóð fyrir dæluhús við borholu settir byggingarskilmálar fyrir það. Einnig er skipulagsmörkum breytt lítillega svo lóðin verði innan skipulagssvæðisins.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br.
9. 2309039 - Lýsuberg 10 grenndarkynning L171049
Eigandi að Lýsubergi 10 óskar eftir að byggja við húsið í samræmi við skissur í viðhengi. Um er að ræða um 32 fermetra stækkun við hús sem er 196,2 fermetrar fyrir, eða rúmlega 16% stækkun.
Afgreiðsla: Samþykkt að grenndarkynna tillöguna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. málsgr. 43 gr. skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br eftir að skilyrðin hafa verið uppfyllt.
Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirtalinna lóða: Setberg 19, 21 og 23 og Lýsuberg 8 og 12.
Umsækjandi þarf að skila inn málsettri afstöðumynd, grunnmynd og sneiðingu af viðbyggingunni auk samþykkis þinglýstra eiganda hússins, áður en tillagan verður grenndarkynnt.
Hrönn Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
10. 2305035 - Fasteignaþróun við Óseyrarbraut
Fyrir liggur að á 46. fundi Skipulags- og umhverfisnefndar samþykkti nefndin að kanna áhuga byggingarfyrirtækja á því að koma að fasteignaþróun við sunnanverða Óseyrarbraut. Í kjölfarið á því var auglýst eftir samstarfi við áhugasamaðila um þróun byggðar sem gæti rúmað 90 til 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Samhliða var tilkynnt að til skoðunar væru forsendur byggingar á hjúkrunarheimili við Egilsbraut og fjölgun sérhæfðs leiguhúsnæðis fyrir aldraða.

Í auglýsingunni kom ma. fram að við hönnun svæðisins væri lögð áhersla á lágreista byggð sem félli vel að eldri mannvirkjum á aðliggjandi svæði. Ráðandi hlutfall íbúða skyldi vera hugsað fyrir fjölskyldufólk og umhverfið m.a. hannað út frá þörfum barna. Byggingar skyldu vera fjölbreyttar og til þess fallnar að skapa svæðinu hlýlegt og manneskjulegt yfirbragð sem tengir saman hafnarsvæðið og nýjan miðbæ sem unnið verður að samhliða.

Til að skerpa á þeim þáttum sem sveitarfélagið lagði áherslu á mótaði skipulagsnefnd eftirfarandi matskvarða við val á samstarfsaðila um fasteignaþróun við Óseyrarbraut:

Hugmyndafræði 25%
Áhugasamir skili inn ítarlegum lýsingum á því hvernig þeir sjá fyrir sér fasteignaþróun við Óseyrarbraut. Mikilvægt er að fram komi áætlað byggingarmagn, hlutfall íbúðarhúsnæðis gagnvart annarri nýtingu, áætluð stærð íbúða og hlutfall hvers stærðarflokks, drög að útliti bygginga, byggingarefni og annað það sem auðveldar sveitarfélaginu að meta hugmyndina. Æskilegt er að gögn séu studd teikningum, eftir atvikum þrívíddarteikningum.

Fólk í fyrirrúmi 15%
Áhugasamir skili inn ítarlegum upplýsingum um það hvernig tryggt verður að hverfið falli að fyrirliggjandi byggingum og hvernig tilkoma þess getur stutt við mannlíf, menningu og annað sem setur íbúa og gesti þeirra í fyrirrúm.

Reynsla af sambærilegum verkefnum 15%
Áhugasamir skili inn lýsingum af sambærilegum verkefnum sem þeir hafa komið að.

Fjárhagsleg geta 15%
Áhugasamir skili inn yfirliti yfir niðurstöður seinustu þriggja ársreikninga. Gögnin verða nýtt til að leggja mat á fjárhagslega burði viðkomandi til að ráðast í verkefnið.

Tímarammi verkefnisins 15%
Áhugasamir skili inn drögum að tímaramma verkefnisins með áherslu á framkvæmdahraða á áfangaskiptingu.

Þjónusta við aldraða 15%
Á skipulagssvæðinu og við jaðar þess liggur svæði sem skipulagt hefur verið undir þjónustu fyrir aldraða. Sveitarfélagið Ölfus hefur einlægan áhuga á að framkvæmdir við Óseyrabraut verði til að byggja upp enn frekari þjónustu við aldraða. Því er þess óskað að áhugasamir geri grein fyrir því hvort og þá hvernig þeir sjá fyrir sér að framkvæmdin geti orðið til þess að auka þjónustu við aldraða hvað varðar til að mynda aukið framboð af heppilegum eignum, heppilegu
leiguhúsnæði, hjúkrunarheimili eða hvað það annað sem stutt gæti við þróun á skipulagsreit fyrir aldraða.

Svo fór að 6 fyrirtæki skiluðu inn hugmyndum sínum og þar með ósk eftir samstarfi. Um er að ræða fyrirtækin Íslenskar fasteignir, Nordic/Ísold, Skuggi Byggingafélag, Hrímgrund, Múr og eftirlit, og VSÓ ráðgjöf/Sundaborg/Fortis.
Til að auðvelda yfirferð var farin sú leið að fela arkitekt í sumarstarfi hjá Ölfus Cluster að yfirfara innsend gögn og draga saman upplýsingar. Við yfirferð lá niðurstaða hennar og mat fyrir.

Afgreiðsla: Skipulags- og umhverfisnefnd beinir því til bæjarstjórnar að ganga til samninga við fleiri en eitt fyrirtæki sökum umfangs verkefnisins.

Í ljósi innsendra gagna og fyrirliggjandi úrvinnslu þeirra leggur nefndin til að byrjað verði á því að ræða við Íslenskar fasteignir og Nordic/Ísold um mögulegt samstarf um þróun reitsins.
11. 2203020 - Bárugata 1 - umsókn um fjölgun íbúða og breytingu á deiliskipulagi
Verksýn sem er lóðarhafi lóðarinnar Bárugötu 1 óska eftir að fá leyfi til að hafa 8 íbúðir á lóðinni sem er fyrir 6 íbúðir skv. deiliskipulagi. Jafnframt er óskað eftir að fara á bilinu 2-3 metra út fyrir byggingarreit á langveginn.
Byggingarreiturinn er 27x19 metrar,samtals 513 m² að grunnfleti. Ef nýta á byggingarreitinn sem best yrðu íbúðir í húsinu allt að 150 m² að stærð. Telur lóðarhafi ekki markað fyrir svo stórar íbúðir í fjölbýlishúsi enda yrði verð hverrar íbúðar þá orðið sambærilegt við, ef ekki hærra en verð raðhúsa.
Lóðarhafi hefur áður sent inn erindi á svipuðum nótum sem var hafnað.

Afgreiðsla: Synjað. Skipulagsnefnd bendir lóðarhafa á að ekki þurfi að fullnýta byggingarheimildir á lóðinni.
12. 2309008 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Reykir - Flokkur 1
Framkvæmdasýsla ríkisins sækir um niðurrif á þremur matshlutum að Reykjum í Ölfusi. Það eru matshlutar 16, 17, og 25. Um er að ræða 2 gróðurhús og steinsteypta byggingu sem gert er grein fyrir í umsókn.
Afgreiðsla: Niðurrif umræddra húsa samþykkt í samræmi við umsókn. Umsækjanda er bent á að einnig þarf heimild Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir niðurrifi.
13. 2309007 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Reykir - Flokkur 1
Framkvæmdasýsla Ríkisins sækir um stöðuleyfi fyrir tveim gámum á lóð Reykja. Um er að ræða salernisgám og gám fyrir kaffiaðstöðu.
Afgreiðsla: Stöðuleyfi samþykkt til eins árs með möguleika á framlengingu.
14. 2309029 - Unubakki 32 - áður Unubakki 50 L209551
Bíliðjan sem er lóðarhafi að Unubakka 32, sem áður hafði staðfangið Unubakki 50, sækir um að stækka byggingarreit þannig að unnt sé að koma fyrir húsi sem er 35*25 m innan hans. Byggingarreiturinn er í formi "vinkils" en verður nær því að vera ferhyrndur við breytinguna.
Afgreiðsla: Samþykkt i samræmi við 3. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br. Lóðarhafi getur skilað inn teikningum af umræddu húsi miðað við breytinguna þegar nýtt lóðarblað sem sýnir breytinguna, hefur verið unnið á hans kostnað.
Nefndin beinir því til lóðarhafa að skerma af innsýn á lóðir sínar á svæðinu.
15. 2309037 - Skólahreystibraut
Íþrótta- og tómstundanefnd fékk nýverið erindið frá Kolbrúnu Rakel Helgadóttur varðandi uppsetningu á skólahreystivelli á lóðinni milli íþróttahúss og skólabyggingarinnar.
Íþrótta- og tómstundanefnd var sammála að umfrábært verkefni væri að ræða og beinir því skipulagsnefndar í samráði við skólastjórnendur að taka málið til skoðunar.

Afgreiðsla: Nefndin fagnar þessu frumkvæði Kolbrúnar Rakel og telur að báðar staðsetningarnar sem komið hafa fram séu góðar. Nákvæm staðsetning verði skoðuð i samvinnu við skólastjórnendur.
16. 2309021 - Minningarsteinn við þjóðveginn
Ættingjar og aðstandendur Gísla Eiríkssonar heitins hafa óskað eftir leyfi til að setja "smáplötu merktri nafni Gísla" á stein við tréð sem þau hafa skreytt á hverju ári við aðkomuna að bænum í minningu um hann.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir erindið fyrir sitt leiti. Umsækjendum er bent á að hafa samráð við Vegagerðina.
17. 2003004 - Umsókn um afnot af lóð
Húseigandi að Faxabraut 4 óskar eftir að fá afnotarétt sem hann hefur að beitarlandi norðan við hús sitt, framlengdan. Hann hefur haft afnot af umræddu beitarhólfi við hesthús sitt frá árinu 1997.
Afgreiðsla: Afnot af beitarhólfi samþykkt til næstu þriggja ára með þeim fyrirvara að ef skipulagi verður breytt á tímabilinu, falli afnotin niður.
Mál til kynningar
18. 2309028 - Ályktun um skógarreiti og græn svæði innan byggðar - Skógræktarfélag Íslands
Lögð er fram ályktun Skógræktarfélags Íslands þar sem sveitarfélögin eru hvött til að huga sérstaklega að verndun og varðveislu skógarreita, trjálunda og grænna svæða innan byggðar og í næsta nágrenni.
Afgreiðsla: Lagt fram.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?