Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 345

Haldinn í fjarfundi,
18.02.2021 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Formaður óskaði eftir því að taka mál nr.1806017 Kosning í nefndir og ráð Sveitarfélagsins Ölfuss inn með afbrigðum og var það samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2102010 - Sveitarfélagsmörk Ölfuss og Hveragerðis
Minnisblað frá bæjarstjóra Hveragerðisbæjar þar sem óskað er eftir viðræðum við bæjarstjórn Ölfuss um breytingu á sveitarfélagamörkum Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar. Svæðið sem Hveragerðisbær óskar eftir umræðu um er spildan sem nær frá Varmá og að fjallsrótum Reykjafjalls. Þá er einnig óskað eftir viðræðum um breytingu sveitarfélagamarka í Kömbunum.
Bæjarráð Ölfuss bendir á að Hveragerðisbær er um 9 km2, þar af eru innan við 2 km2 nýttir undir íbúabyggð. Talsvert svigrúm er því innan núgildandi sveitarfélagamarka til áframhaldandi þróunar. Þau rök sem til eru tínd í erindi Hveragerðisbæjar eru fyrst og fremst að svæðin sem um ræði séu mikilvæg vegna útivistar. Þá hefur einnig verið nefnt að hluti íbúa í Ölfusi sæki þjónustu inn í Hveragerði og er þar sérstaklega fjallað um íbúa við Brúarhvammsveg í Ölfusi.

Bæjarráð Ölfuss fær ekki fallist á þau rök að íbúar í Hveragerði fái ekki notið umræddra svæða til útivistar nema að þau séu hluti af skipulagssvæði Hveragerðis. Í því samhengi má til að mynda nefna afar vel lukkað göngustígakerfi frá Torfeyri að Reykjum, golfvöllinn í Gufudal, gönguleiðir inn Reykjadal og fleira. Allir þessir staðir í Ölfusi nýtast til útivistar fyrir íbúa í Hveragerði þrátt fyrir að svæðin tilheyri Sveitarfélaginu Ölfusi.

Hvað varðar það að breyta þurfi sveitarfélagamörkum þar sem íbúar í Ölfusi sæki þjónustu, svo sem skólaþjónustu, inn í Hveragerði þá vill bæjarráð Ölfuss minna á að þjónusta grunn- og leikskóla í Hveragerði er ekki eingöngu í rekstri þess sveitarfélags heldur í raun réttri byggðasamlag þar sem Sveitarfélagið Ölfus ekki bara fer með eignarhald á fasteignum heldur greiðir hluta rekstrar. Hið sama á við með félagsþjónustu og fleira. Bæjarráð Ölfuss telur mikilvægt að þeir sem um málin fjalla, ekki hvað síst kjörnir fulltrúar í Hveragerði, séu meðvitaðir um þessa tilhögun. Ekki verður séð að þetta fyrirkomulag kalli á breytt sveitarfélagamörk.

Að framansögðu telur bæjarráð Ölfuss ekki ástæðu til viðræðna vegna breytinga á sveitarfélagamörkum. Eftir sem áður er Sveitarfélagið Ölfus tilbúið til viðræðna um ýmis sameiginleg hagsmunamál.
2. 2102021 - Samkomulag um aðilaskipti að samningi Lambafellsnáma
Fyrir bæjarráði lá samkomulag um aðilaskipti að samningi um Lambafellsnámu.

Með lögum um þjóðlendur sem samþykkt voru á Alþingi 6. maí 2020 var gerð sú breyting að leyfisveiting ráðherra að því er varðar nýtingu náma og annarra jarðefna innan þjóðlendu yrði framvegis á hendi sveitarfélaga.

Með fyrirliggjandi samkomulagi eru gerð aðilaskipti að samningi um efnistöku úr Lambafellsnámu þannig að Sveitarfélagið Ölfus tekur við af forsætisráðuneytinu sem aðili að samningnum.

Bæjarráð samþykkir samkomulag um aðilaskipti að samningi um efnistöku úr Lambafellsnámu fyrir sitt leyti.
3. 2102017 - Viðauki við samning um sölu fasteigna Laxabraut 19
Fyrir bæjarráði lá viðauki við samning um sölu fasteigna að Laxabraut 19. Með viðaukanum er FISK Seafood gefinn frestur til að uppfylla ákveðnar vörður og þannig koma í veg fyrir að sveitarfélagið virki forkaupsrétt að fasteignum við Laxabraut 19.

Vörðurnar eru sem hér segir:

a)Eigi síðar en 1.júní 2021 skal kaupsamningur og síðari viðauki ásamt fyrirætlan framkvæmdaraðila kynnt fyrir kjörnum fulltrúum og helstu hagsmunaaðilum.

b)Eigi síðar en 1.janúar 2022 skal búið að leggja inn drög að tillögu að matsáætlun.

c)Eigi síðar en 1. febrúar 2022 skal búið að leggja inn drög að tillögu að umsókn um rekstrar- og starfsleyfi.

d)Eigi síðar en 1. apríl 2022 skal framkvæmdaraðili hafa skilað inn drögum að teikningum vegna framkvæmda, eftir atvikum með beiðni um breytingar á skipulagi.

e)Eigi síðar en 1. júlí 2023 skulu verklegar framkvæmdir hafa hafist.


Bæjarráð samþykkir viðaukann.
4. 2102022 - Smábátafélagið Árborg-ósk um breytingar á sérreglum um úthlutun á byggðakvóta
Erindi frá Smábátafélaginu Árborg þar sem þess er krafist að gerðar verði breytingar á sérreglum um úthlutun á byggðakvóta fyrir Sveitarfélagið Ölfus fiskveiðiárið 2020-2021.

Bæjarráð tekur undir álit Smábátafélagsins, líkt og það hefur áður gert.

Bæjarráð minnir á að á fundi þess 03.09.2020 lá fyrir svar við erindi bæjarráðs frá fundi þess 7.maí sem sent var ráðuneytinu 14.maí, þar sem bæjarráð óskaði eftir tímabundinni undanþágu frá skilyrðum 1.mgr. 6.gr. um að landa afla innan byggðalagsins út fiskveiðiárið. Í svarinu var beiðni Sveitarfélagsins Ölfuss hafnað.5. 2102004 - 70 ára afmæli þéttbýlis
Skipan í þriggja manna stýrihóp vegna 70 ára afmælis þéttbýlis í Þorlákshöfn.

Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að skipa 3ja manna stýrihóp sem skila skal kostnaðargreindum tillögum til bæjarráðs um það hvernig 70 ára þéttbýlissögu Þorlákshafnar verði best minnst. Bæjarráð beinir því til hópsins að kostnaði verði haldað innan við 5 milljónir.

Hópnum verði falið að skila tillögunum eigi síðar en 1.apríl nk.

Í hópnum sitja: Róbert Dan Bergmundsson (formaður), Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir og Rúnar Gunnarsson.

Sviðsstjóra falið að kalla hópinn saman til fyrsta fundar.
6. 2102058 - Framboð í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga
Erindi frá stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga, dags.8.febrúar 2021, þar sem óskað var eftir tilnefningum eða framboðum í stjórn og varastjórn Lánasjóðsins.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
7. 2102007 - Úthlutunarreglur Uppgræðslusjóðs
Fyrir fundinum lágu tillögur frá umhverfisstjóra að minniháttar breytingum á úthlutunarreglum vegna uppgræðsluverkefna í Sveitarfélaginu Ölfusi. Reglurnar voru síðast uppfærðar 2014.Bæjarráð samþykkir breytingarnar.
8. 2102023 - Reglur um námsleyfi - endurskoðun
Fyrir bæjarráði lágu drög að breytingum á reglum um launuð námsleyfi starfsmanna ásamt minnisblaði sviðsstjóra.

Í minnisblaðinu kemur fram að mjög misjafnt sé hvort sveitarfélög séu með námsstyrki fyrir starfsmenn sína. Nokkur eru með styrki til nema í leikskólakennarafræðum, sum með almenna námsstyrki tengda kjarasamningum og fjölmörg með enga styrki. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem skoðuð voru eru með sérstaka styrki til nema í
grunnskólakennarafræðum.

Reglur um launuð námsleyfi starfsmanna Sveitarfélagsins Ölfuss hafa verið í gildi frá árinu 2014. Þau eru miðuð út frá heimild í kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga. Í minnisblaðinu er lagt til að reglurnar verði áfram í gildi, þó með nokkrum breytingum.

Helstu breytingar eru þessar:
Gerð er krafa um:

*Að umsækjandi hafi unnið hjá Sveitarfélaginu Ölfusi í að minnsta kosti 2 ár.

*Að umsækjandi sé að lágmarki í 75% starfshlutfalli.

*Að umsækjandi starfi hjá Sveitarfélaginu Ölfusi í að lágmarki 1 ár fyrir hvert ár í námsleyfi eftir að námi lýkur.

*Að þörf sé hjá stofnunum sveitarfélagsins fyrir faglært fólk á því sviði sem umsækjandi starfar á.Bæjarráð samþykkir drögin og tilgreindar breytingar.
9. 2004007 - Dagvistun - heimgreiðslur til foreldra
Fyrir bæjarráði lágu upplýsingar um heimgreiðslur til foreldra ungbarna ásamt drögum að reglum þar að lútandi.

Hámarksupphæð greiðslna er kr. 41.600 á mánuði fyrir hvert barn foreldra í sambúð og kr.48.000 til einstæðra foreldra og námsmanna. Greiðslurnar eru sambærilegar við niðurgreiðslu vegna vistunar barna hjá dagforeldrum í sveitarfélaginu.

Fram kom að úrræðið, sem sett var af stað til tilraunar, hafi mælst afar vel fyrir og bætt þjónustu við foreldra ungra barna talsvert. Þá er það mat margra að heimgreiðslur auki valfrelsi foreldra til að velja úrræði fyrir sín börn. Úrræðið er þó nokkuð mikið notað af foreldrum og eru dæmi þess að foreldrar 12 barna hafi samtímis notfært sér þetta úrræði.

Bæjarráð samþykkir reglurnar og þar með framhald verkefnisins.
10. 1909030 - Héraðsskjalasafn-framtíðarhúsnæði
Bæjarráð ræddi stöðu Hérðasskjalasafns Árnesinga.

Eins og ítrekað hefur verið fjallað um á vettvangi bæði einstakra sveitarfélaga í Árnessýslu og á samstarfsvettvangi þeirra innan stjórnar Héraðsskjalasafnsins eru húsnæðismál safnsins langt frá því sem æskilegt er talið. Fullyrt hefur verið að engan tíma megi missa hvað úrbætur varðar.

Þekkt er að tvö sveitarfélög buðu fram sérstaka aðkomu að húsnæðismálum Héraðsskjalasafnsins, Sveitarfélagið Ölfus og Sveitarfélagið Árborg. Sveitarfélagið Ölfus bauð fram gjaldfrjálsa lóð í miðbænum auk þess sem það, ásamt einkaaðilum, bauðst til að byggja sérhannað húsnæði og leigja Héraðsskjalasafninu ef vilji stæði heldur til þess. Sveitarfélagið Árborg bauðst til að afhenda Héraðsnefnd Árnesinga, endurgjaldslaust, lóð við Austurveg á Selfossi undir byggingu sem hýsa mun starfsemi héraðsskjalasafns. Þá kvaðst Sveitarfélagið Árborg sjálft einnig tilbúið til þess að byggja hentugt húsnæði sem sniðið yrði að starfsemi Héraðsskjalasafns Árnesinga gegn leigusamningi.

Eftir atkvæðagreiðslu í Héraðsnefnd Árnesinga var ákveðið að þiggja boð Sveitarfélagsins Árborgar.


Bæjarráð Ölfuss bendir á að Árborg hefur nú haft 16 mánuði til standa við það boð sem stjórn Héraðsskjalasafnsins ákvað að þiggja. Seinagangurinn hefur orðið til þess að nú er svo komið að byrjað er að horfa til þess að flytja þá starfsemi sem Héraðsskjalasafnið hefur veitt Árnesingum allt frá 1985 til Reykjavíkur.

Bæjarráð Ölfuss kallar því eftir því að framkvæmdum við húsnæðismál Héraðsskjalasafnsins verði hraðað í anda tilboða sveitarfélaganna.

Eðlilegt og sanngjarnt verður að telja að þar sem Árborg hefur enn ekki getað staðið við það tilboð sem það lagði fram verði sú leið farin að byggja safnið í Ölfusi gegn þeirri aðkomu sem lýst hefur verið. Til viðbótar við það sem áður hefur verið boðið lýsir bæjarráð sig tilbúið til að veita sérstakan styrk til að mæta fasteignagjöldum af húsnæði þessarar menningarstarfsemi fyrstu 4 árin.

Verði þessu boðið tekið ætti útboð á hönnun að geta átt sér stað núna í mars og útboð vegna framkvæmda eigi síðar en í apríl. Framkvæmdir ættu að geta hafist eftir mitt ár og menningarstarfsemi Héraðsskjalasafnsins gæti þá verið komin í framtíðarhúsnæðið sem kallað er eftir strax á næsta ári.
11. 1806017 - Kosning í nefndir og ráð Sveitarfélagsins Ölfuss.
Kosning varamanns í Héraðsnefnd Árnesinga.
Lagt er til að Grétar Ingi Erlendsson verði varamaður í Héraðsnefnd Árnesinga.
Samþykkt samhljóða.
12. 1704002 - Lagafrumvörp Beiðni Alþingis um umsögn.
471.mál- Umsögn um frumvarp til laga um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggðamála.
478.mál- Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga.

Lagt fram
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 08:55 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?