Fundargerðir

Til bakaPrenta
Skipulags- og umhverfisnefnd - 42

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
07.12.2022 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Geir Höskuldsson formaður,
Hjörtur S. Ragnarsson varaformaður,
Margrét Polly Hansen Hauksdóttir aðalmaður,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson aðalmaður,
Hrönn Guðmundsdóttir aðalmaður,
Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Gunnlaugur Jónasson, skipulagsfulltrúi


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2212002 - DSK Gljúfurárholt 14 breyting á deiliskipulagi
Landeigandi Gljúfurárholti 14 leggur fram breytingu á deiliskipulagi Gljúfurárholts 13 og 14 sem heimilar aukna útbyggingu, í samræmi við ákvæði nýs aðalskipulags. Stærð byggingar á reit fyrir íbúðarhús var að hámarki að 400 fermetrar en verður allt að 800 fermetrar. Einnig er hámarks stærð frístundahúss aukin úr 150 fermetrum í 200 fermetra og hámarksstærð bygginga til landbúnaðarnota aukin úr 800 fermetrum í 1200 fermetra.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr 123/2010 m.s.br.
2. 2212001 - Fyrirspurn um starfsemi á Athafnasvæði AT1
Spurt er hvort heimilað verði að breyta húsinu Unubakka 18b í gistingu. Húsið er hannað sem skrifstofuhúsnæði og kaffistofa en stendur nú hálftómt. Húsið er á athafnasvæði AT1 samkvæmt nýju aðalskipulagi.
Afgreiðsla: Samþykkt að breyta megi húsinu þannig að þar verði allt að 8 gistirými fyrir starfsmenn, sem gistiskáli í flokki II, tegund d, í samræmi við reglugerð 1277/2016 og framlagðan uppdrátt.
3. 2211044 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi umfangsflokkur , Oddabraut 9
Sótt er um að setja kvist norðan megin á húsið Oddabraut 9 og svalir sunnan megin. Við þetta stækkar húsið (A-rými) um 4 fermetra miðað við núverandi skráningu. Húsið er á einu af þeim svæðum hér í bænum sem aldrei hafa verið deiliskipulögð.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir erindið í samræmi við 1. málsgrein 44. greinar og 3. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr, 123/2010.
Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4. gr. sömu reglugerðar hafa verið uppfyllt. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að ekki er heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en öll ofantalin skilyrði hafa verið uppfyllt.
4. 2212003 - DSK Klettagljúfur deiliskipulag
Aldrei var gengið endanlega frá deiliskipulagi fyrir Klettagljúfur á sínum tíma þó það hafi verið samþykkt stjórnsýslu sveitarfélagsins og hlotið lögformlega kynningu, fékkst það ekki staðfest hjá Skipulagsstofnun vegna smávægilegra annmarka og tók því ekki formlega gildi.
Með samþykkt nýs aðalskipulags opnast möguleiki á að ljúka þessu ferli sem hófst fyrir 16 árum. Breyta þarf skipulaginu lítillega svo það sé í samræmi viðnýja útgæfu skipulagslaga sem sett voru 2012 og það sem hefur gerst á svæðinu síðan það var auglýst.

Afgreiðsla: Lagt fram. Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.
5. 2211036 - Rarik - tilfærsla og stækkun lóðar við Miðbakka 4 DRE
Sótt er um að stækka og færa til spennistöðvarlóð við Svartasker. Til stendur að stækka spennistöð og þá þarf að setja niður nýja, áður en sú gamla er fjarlægð, svo ekki þurfi að loka fyrir rafmagn i óhóflega langan tíma.
Afgreiðsla: Samþykkt.
6. 2211051 - Umsögn um matstilkynningu vegna mölunarverksmiðju Heidelberg i Þorlákshöfn
Borist hefur umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun þar sem beðið er um umsögn um matstilkynningu vegna mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Sveitarstjórn hefur fjallað nokkrum sinnum um verkefnið og í tillögu að umsögn í viðhengi eru helstu punktar sem hún hefur ályktað um.
Afgreiðsla: Tillaga að umsögn samþykkt´, en eftirfarandi kafla verði bætt við sem punktur nr 6:

6. Gerð er krafa um samnýtingu og vandað efnisval en ekki einungs „liti og fyrirkomulag innan lóðar“ þegar kemur að samráði við bæjaryfirvöld. Þessa framkvæmd þarf að hugsa út frá öðrum forsendum en gert hefur verið annarstaðar í heiminum, sökum smæðar samfélagsins og bæjarins sem hér um ræðir. Sá möguleiki verði skoðaður að lækka mannvirki jafnvel þó það kalli á aukin grunnflöt. Krafa er gerð um að mannvirki verði í lægri mörkum þess sem kemur fram í fyrirspurn um matskyldu.

Fulltrúar X-B framfarasinna lögðu fram eftirfarandi álit: Talið er mikilvægt að mölunarverksmiðjan fari í umherfismat, sökum umfangs hennar miðað við samfélagið í Þorlákshöfn.
7. 2211056 - Auðsholt - krafa frá eigendum
Inngangur: Borist hefur bréf frá lögmanni eiganda Auðsholts sem er fylgiskjal við þennan dagskrárlið. Lögmaðurinn spyr hvort vilji sveitarfélagið standi til að kom á sáttaviðræðum, til ljúkningar málinu, eins og hann orðar það.
Lögmaðurinn undirbýr kröfu á hendur sveitarfélaginu vegna tjóns sem hann telur að umbjóðandi sinn hafi orðið fyrir, vegna ólögmætra starfshátta sveitarfélagsins og útlagðs kostnaðar vegna vinnu lögmannsins og annarra sérfræðinga.

Það er skoðun lögmanns sveitarfélagsins, sem kynnt hefur sér málsmeðferðina að þegar tímalína málsins sé skoðuð megi sjá að málið hafi ekki verið óeðlilega lengi til meðferðar miðað við skipulagsmál almennt og erindum hafi verið svarað innan eðlilegra tímamarka.

Afgreiðsla: Nefndin hafnar kröfum eiganda Auðsholts. Skipulagsnefnd lítur svo á að sveitarfélagið eigi engin óuppgerð mál gagnvart eigendum Auðsholts og engin þörf sé á sáttaviðræðum milli sveitarfélagsins og eiganda Auðsholts, enda er nefndin sammála þeirri skoðun lögmanns sveitarfélagsins að málsmeðferð hafi verið eðlileg miðað við það sem almennt gildir um skipulagsmál. Hún hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.

Einnig hefur borist bréf frá eigendum Auðsholtshjáleigu þar sem fyrri krafa um að deiliskipulagið verði fellt úr gildi er áréttuð og að aðgengisslóði verði færður inn á uppdrátt.

Skipulagsnefnd felur lögmanni sveitarfélagsins að svara lögmanni eigenda Auðsholtshjáleigu eins og hann telur best.
8. 2212006 - Hverahlíðarlögn - umsókn um framkvæmdaleyfi
Orka Náttúrunnar sækir um framkvæmdaleyfi vegna Hverahlíðarlagnar II á Hellisheiði. Nefndin hefur áður gefið umsögn um matsfyrirsögn framkvæmdarinnar og þá var bókað:

Skipulagsnefnd er sammála því mati að framkvæmdin hafi óveruleg neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Framkvæmdin sé því ekki að háð umhverfismati. Nefndin er einnig sammála því mati sem kemur fram í skýrslunni að ekki sé þörf á að breyta deiliskipulagi Hellisheiðarvirkjunar vegna framkvæmdarinnar. Sveitarfélagið vill af gefnu tilefni minna á að allar lokaðar byggingar eru byggingarleyfiskyldar þar með talin óeinangruð hýsi yfir borholum. Sveitarfélagið Ölfus er leyfisveitandi þegar kemur að útgáfu framkvæmdaleyfis og hugsanlegra byggingarleyfa. Sveitarfélagið gerir að öðru leiti ekki athugasemd við skýrsluna eins og hún er sett fram.

Afgreiðsla: Nefndin felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi vegna Hverahlíðarlagnar II
9. 2211045 - Umsögn um vatnsöflun Laxa að Laxabraut 9-11
Orkustofnun óskar eftir umsögn um vatnsöflun Laxa fiskeldis að Laxabraut 9-11
Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemd viðfyrirhugaða vatnsöflun.
10. 2212005 - Umsögn um vinnslutillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Kópavogsbæjar
Skipulagsfulltrúi Kópavogsbæjar óskar eftir umsögn um breytingu á aðalskipulagi Kópavogsbæjar vegna svæðis við Vatnsendahæð.
Svæðið er hvergi nærri landamerkjum Kópavogsbæjar og breytingin virðist ekki snerta sveitarfélagið Ölfus.

Sveitarfélagið Ölfus gerir ekki athugasemd við þá breytingu sem fyrirhuguð er á aðalskipulagi Kópavogs.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?