30 ár frá því grunnurinn fyrir kirkjuna var helgaður

Þorlákskirkja, vinna hafin við grunn kirkju.

Þorlákskirkja, vinna hafin við grunn kirkju. Þannig er fyrirsögn á frétt í Tímanum 6. maí 1979. Fréttaritarinn er Páll Þorláksson á Sandhól. Nú eru 30 ár síðan grunnurinn fyrir kirkjuna var helgaður.

Páll skrifar: Á laugardaginn (28. apríl) var hafinn gröftur að grunni kirkju í Þorlákshöfn. Þorlákshafnarbúar gengu fylktu liði frá barnaskólanum og fór fyrir meðhjálpari staðarins, Gunnar Markússon skólastjóri, ásamt tveim ungmennum er báru ljósastiku. Þau voru fermingarbörn frá því í vor og fyrra, Hlín Sverrisdóttir og Þorsteinn Gestsson. Hringjari staðarins, Bárður Brynjólfsson hringdi inn athöfnina.

Séra Tómas Guðmundsson sóknarprestur, fór með ritningarorð og bæn og séra Sigurður Pálsson vígslubiskup blessaði staðinn og reisti kross á grunni kirkjunnar til merkis um að verk væri hafið. Söngfélag Þorlákshafnar söng undir stjórn Ingimundar Guðjónssonar formanns sóknarnefndar. Á eftir þessari athöfn hófst Sigurður Óskarsson handa um að grafa fyrir grunni kirkjunnar með traktorsgröfu. Kirkjan mun standa við kirkjugarð þann er Sigurþór Skæringsson hlóð úr grjóti fyrir um áratug. Það verk mun lofa meistarann um komandi ár. Arkitekt kirkjunnar er Jörundur Pálsson. Tækniþjónustu annast Ólafur Ingimundarson en byggingarmeistari er Sverrir Sigurjónsson. Áætlað er að steypa kirkjuskipið upp í sumar og stuðst verður við sjálfboðavinnu við það starf.

Er sjávarkambinum var ýtt út til hafnargerðar árið 1963 var komið niður á gamlan kirkjugarð. Er þau bein voru greftruð í Hjallakirkjugarði flutti sóknarpresturinn þá, séra Helgi heitinn Sveinsson athyglisverða ræðu. Þar kom fram að um árið 1300 var byggð kirkja í Þorlákshöfn sem var ,,helguð hinum heilaga Þorláki“ og var kirkja á staðnum allt til ársins 1800. Árið 1769 sækja sjómenn í Þorlákshöfn um það til biskups að kirkja verði ekki lögð niður í Þorlákshöfn. Þessi ósk sjómanna þá mun verða mörgum hvatning til átaka við þessa kirkjubyggingu nú. Kirkja sú sem reisa á verður íbúum staðarins helgidómur í gleði og sorg. Í óskráðri framtíð skal vonað, að atburðir þeir og hörmungar genginna kynslóða, er sagt var frá á svo eftirminnilegan hátt í beinaræðu í Hjallakirkju 8. september  1963, heyri fortíðinni til.

Endurritað með leyfi Páls til birtingar á heimasíðu Ölfuss. Sigurður Jónsson.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?