Af unga fólkinu og framboði til Stjórnlagaþings

Unga fólkið í Þorlákshöfn skemmti sér vel í gær. Gleðilæti og söngur hljómaði við Ráðhúsið þegar nemendur úr 5.-7. bekk Grunnskólans héldu skemmtun þar sem ofurhetjur voru í hávegum hafðar með margvíslegum búningum. Seinna um kvöldið hittust síðan eldri ungmenni í Ráðhúskaffi þar sem spilaðir voru FIFA tölvuleikir, venjuleg spil, spjallað og teiknað. Ungmennaráðið með Val Rafn Halldórsson í broddi fylkingar og Viggó Dýrfjörð, rekstraraðili Ráðhúskaffi áttu frumkvæðið að ungmennakvöldinu og voru viðtökur og mæting það góð að haldið verður áfram með þessi kvöld.

Á meðan ungviðið skemmtir sér fylgjast þeir sem eldri eru kannski frekar með þjóðmálunum. Margir bíða spenntir eftir að heyra hverjir bjóða sig fram til Stjórnlagaþings, en Þorlákshafnarbúar eiga þar einn talsmann samkvæmt frétt á visir.is. Pípulagningameistarinn Sigurður Grétar Guðmundsson hefur ákveðið að bjóða sig fram en framboðsfrestur rennur út á hádegi næsta mánudag. Kosning til Stjórnlagaþings verður 27. nóvember.

 

Skráð hefur Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?