Afhjúpun skilta í Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpar skilti í Herdísarvík
Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpar skilti í Herdísarvík
Síðastliðinn laugardag voru tvö skilti afhjúpuð í Herdísarvík við hátíðlega athöfn. Annarsvegar var afhjúpað minningarskilti um Einar Benediktsson og Hlín Johnson og hinsvegar örnefnaskilti.
Síðastliðinn laugardag var minningarskilti um Einar Benediktsson skáld og Hlín Johnson afhjúpað við hátíðlega athöfn í Herdísarvík. Á sama tíma var afhjúpað örnefnaskilti sem áhugamannafélagið Ferlir hafði veg og vanda að.  Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra afhjúpaði minningarskiltið en Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona afhjúpaði örnefnaskiltið.
 
Það er nemendafélagið Grimmhildur, félag H-nemenda á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands sem með stuðningi hollvina Herdísarvíkur lét útbúa minningarskiltið um þau Einar og Hlín, en þau voru síðustu ábúendurnir í Herdísarvík. Á skiltinu er hægt að lesa ýmislegt um þau Einar og Hlín, en á örnefnaskiltinu er að finna margvíslegan fróðleik um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni.
 

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt.  Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið og því mikilvægara en áður að huga að verndun þessa viðkvæma svæðis.  Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti, en á næsta ári verða 150 ár liðin frá fæðingu Einars.

 

Á meðfylgjandi mynd sést Guðrún Ásmundsdóttir leikkona afhjúpa örnefnaskiltið.

 

Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi Ölfuss

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?