Aldrei verið jafn fjölmennt á bókasafninu

Ásberg Lárenzíusson deilir endurminningum sínum frá upphafi eldgoss í Heimaey
Ásberg Lárenzíusson deilir endurminningum sínum frá upphafi eldgoss í Heimaey
Húsfyllir var á dagskrá sem tileinkuð var minningum um upphaf goss í Vestmannaeyjum fyrir 40 árum.

Aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar árið 1973 opnaðist eldsprunga á austurhluta Heimaeyjar.  Hún var um 1600 metra löng með röð 40-50 hraungíg.  Sprungan teygði sig frá norðri til suðurs og var einungis um 400 metrum frá heimilum íbúanna á Kirkjubæjum sem voru austustu íbúðarhúsin í Heimaey.  Hraun vall upp úr sprungunni og nokkrum klukkustundum síðar byrjuðu eitraðar gufur frá eldgosinu og öskusáldur að leggjast yfir bæinn. Smám saman var allur bærinn undirlagður ösku og eimyrju. Af 1345 íbúðarhúsum grófust nær 400 hús undir ösku og hraun en önnur 400 skemmdust að miklu leyti.

Elgosið og afleiðingar þess höfðu gífurleg áhrif á vestmannaeyinga en gosið hafði líka gríðarleg áhrif á fleiri staði og samfélög eins og Þorlákshöfn. Hér var fyrsti viðkomustaður vestmannaeyinga sem komu með bátum þessa viðburðaríku nótt fyrir fjörutíu árum. Skólinn og heimili voru opnuð til að sinna eyjabúum og allt samfélagið lagðist á eitt líkt og annarsstaðar til að aðstoða við þetta mikla björgunarafrek sem þarna átti sér stað.  Seinna voru síðan flutt inn hús frá Skandinavíu fyrir vestmannaeyingana og um 40 þeirra voru flutt hingað og mynda Eyjahraunið. Í Þorlákshöfn varð mikil fólksfjölgun í kjölfar gossins þar sem margar fjölskyldur settust hér að.

Á dagskrá bókasafnsins sl. miðvikudagskvöld var þessi nótt fyrir 40 árum rifjuð upp, bæði í frásögnum þeirra sem frá Vestmannaeyjum komu en einnig þeirra sem komu að björguninni og tóku á móti fólki hér. Aldrei hafa jafn margir sótt viðburð á bókasafninu en um 90 manns komu þar saman og var setið um allt safn, í galleríinu og jafnvel frammi í anddyri. Starfsmenn bókasafnsins og gestir þakka þeim sem stigu í pontu og deildu minningum sínum um þetta kvöld, en það voru þau Ásberg Lárenszíusson, Kristján Sigmundsson, Svana Ingólfsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Sigurður Bjarnason, Jóna Sigurðardóttir, Einar Sigurðsson og Edda Laufey Pálsdóttir.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?