Eftirtaldar skipulagstillögur eru auglýstar skv. 31. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillögurnar eru til umsagnar í skipulagsgátt og er hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar þar.
Hrókabólsvegur 1 – aukið nýtingarhlutfall - Deiliskipulagsbreyting
Lögð er fram breyting á deiliskipulagi Hjarðarbóls - lóð 1. Breytingin varðar lóðina Hrókabólsveg 1 og felur í sér stækkun byggingarreits og aukningu nýtingarhlutfalls svo það verði í samræmi við núgildandi aðalskipulag Ölfuss.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar þann 30. október 2025.
Hafnarsandur 2 – stækkun tengivirkis – Óveruleg breyting aðalskipulags
Lögð er fram óveruleg breyting á aðalskipulagi Ölfuss er snýr að lóðinni Hafnarsandi 2 en þar er nýtingarhlutfall aukið til að rúma stækkun tengivirkisins.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar þann 30. október 2025.
Hafnarsandur 2 – stækkun tengivirkis – Deiliskipulagsbreyting
Lögð er fram deiliskipulagsbreyting vegna tengivirkis Landsnets að Hafnarsandi 2. Til stendur að stækka tengivirkið vegna tilkomu nýs 132 kv jarðstrengs sem tengir Þorlákshöfn inn á netið.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar þann 30. október 2025.
Árbær 4 – Ný staðsetning dýraspítala – Breyting á aðalskipulagi
Lögð er fram breyting á aðalskipulagi vegna um 8 ha lands innan jarðarinnar Árbær IV í Ölfusi. Til stendur að staðsetja á landinu Dýraspítala Suðurlands sem hingað til hefur verið staðsettur á Stuðlum við Árbæjarveg.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar þann 25. september 2025.
_________________________________
Skipulagstillögurnar eru til umsagnar á Skipulagsgáttinni á www.skipulagsgatt.is til og með 1.1.2026. Til að finna ákveðið mál skal smella á „Leita að máli“ og slá inn nafn málsins í leitarreitinn.
Á Skipulagsgáttinni er hægt að:
- Skoða allar upplýsingar og gögn sem tengjast málinu
- Leggja fram athugasemdir
- Lesa þær athugasemdir sem aðrir hafa sent inn
Ef hakað er við „Vakta mál“ á tilteknu máli, fær viðkomandi tilkynningu í tölvupósti í hvert skipti sem breyting verður á málinu.
Þá er einnig hægt að nálgast upplýsingar eða gögn á Bæjarskrifstofu Ölfus, Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn, með því að senda fyrirspurn á skipulag@olfus.is eða hafa samband við bæjarskrifstofuna í síma 480 3800.
Sigurður Steinar Ásgeirsson
Sviðsstjóri
Skipulags- og lögfræðisvið
Vakin er athygli á að samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2020 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2010, má kæra ákvarðanir sveitarstjórnar um samþykkt aðalskipulagsbreytinga og deiliskipulagsáætlana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Um kærufrest fer samkvæmt 3. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem kveðið er á um fjögurra vikna kærufrest frá birtingu ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda.
Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 2. mgr. 14. gr. sömu laga og 5. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, er sjálfstætt kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærufrestur vegna slíkrar ákvörðunar er einn mánuður, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.
Um meðferð kærumála gilda ákvæði laga nr. 130/2011, reglugerðar nr. 1300/2011 um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, auk ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum um kæruheimild, sbr. 26. gr., andmælarétt, sbr. 13. gr., og rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.
Kæru skal beint til úrskurðarnefndarinnar að Borgartúni 21, 105 Reykjavík, eða með rafrænum hætti í gegnum kærugátt Stjórnarráðs Íslands á www.stjornarradid.is