Bókaganga í Þorlákshöfn 2. júní.

Bókagöngur Bókabæjanna Austanfjalls hafa notið mikilla vinsælda. Næsti áfangastaður er Þorlákshöfn og er því við hæfi að gangan fari fram um Sjómannadagshelgina. Hinn sigursæli Útsvarskeppandi Hannes Stefánsson leiðir gönguna. Lagt verður af stað frá Ráðhúsinu kl. 14:00. 
Fyrri bókagöngur hafa leitt ýmislegt í ljós varðandi bókmenningu og bókatengingar Bókabæjanna og hafa jafnvel fróðustu menn gripið andann á lofti. Víst er að enginn verður svikinn af leiðsögn Hannesar, enda er hann landsþekktur orðinn fyrir gáfur og skemmtilegheit. Fróðleikurinn ætti heldur ekki að fara framhjá neinum, því Bókabæirnir vígðu í síðustu göngu fyrirmyndar hátalarabúnað, sem hentar vel í ferðir af þessu tagi.
Við hvetjum fólk og ferfætlinga til að láta þetta ekki framhjá sér fara, nóg pláss fyrir alla, gönguhraði viðráðanlegur og klæðnaður eftir veðri. 
Hlökkum til að sjá ykkur!
Bókabæjafólk

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?