Bráðum koma blessuð jólin

Undirbúningur fyrir jólahátíðina er hafinn. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Ölfuss eru í óðaönn að setja upp jólaseríur og skreytingar. Skrúðgarðurinn er fallega upplýstur og má sjá íbúa huga að uppsetningu jólaljósa og -skreytinga.

Fyrirhugað er að gefa út jóladagatal Ölfuss en þar má finna yfirlit yfir helstu viðburði, leiki og sýningar hjá félögum, skólum, stofnunum og þjónustuaðilum á aðventunni. Það væri gaman að fá sem fyrst að heyra frá ykkur um allt sem er á döfinni í sveitarfélaginu okkar í jólamánuðinum.
Það má senda inn viðburði á heimasíðunni olfus.is – Veist þú um viðburð – eða til jmh@olfus.is fyrir 20. nóvember.

Á döfinni...

Jólapeysa Ölfuss 2023
Ölfusingar geta dottið í föndurgírinn og hannað jólapeysu sem verður til sýnis á Bókasafninu en við efnum til hönnunarsamkeppni á jólapeysu Ölfuss 2023. Jólapeysan þarf að vera eigin hönnun og hugmyndaverk, prjónuð, hekluð, saumuð eða endurunnin.

Skreyttir jólasveinagluggar
Ungir sem aldnir hlakka til að fylgjast með jólasveinunum þegar þeir fara að þramma til byggða með eitthvað gott í skóinn en Stekkjastaur mætir fyrstur þann 12. desember. Þann dag opnum við fallega skreytta jólasveinaglugga víða um bæinn. Hver gluggi gefur vísbendingu um heiti íslensku jólasveinanna og er tilvalið að skoða jólasveinagluggana og taka þátt í getraun. Þeir þjónustuaðilar og fyrirtækiseigendur sem hafa áhuga á að vera með og skreyta jólasveinaglugga mega senda línu til jmh@olfus.is

Heitir laugardagar verða í sundlauginni í desember en þá verður laugin hituð sérstaklega. Einnig verður boðið uppá epsom salt í gufunni, ljóðalestur og jólatóna. Það er tilvalið að fjölskyldan fari saman í sund og njóti samverunnar.

SNJALLI jólaratleikurinn verður í Skrúðgarðinum annað árið í röð en hann vakti mikla lukku í fyrra. Um er að ræða ratleik í snjallsímanum þar sem leitin snýst um 13 Þollósveina sem vísa á spurningakóða sem tengjast jólum og ævintýrum.

Margt fleira verður í boði á aðventunni eins og t.d. jólamarkaðir, jólatónar, jólasýningar og jólaskemmtanir.

Njótið jólaundirbúnings og skapið ljúfar minningar í góðri samveru.

Jóhanna M. Hjartardóttir
Sviðstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?