Carbfix hefur rannsóknaboranir í Ölfusi - opinn fundur þriðjudaginn 8.júlí kl. 17:30

Carbfix hefur fengið leyfi til að hefja rannsóknaboranir í sveitarfélaginu Ölfusi í tengslum við Coda Terminal verkefnið. Áætlað er að boranir hefjist um miðjan júlí, en unnið er að því að setja upp borplön á svæðinu. Tilgangurinn er að leggja mat á svæðið, greina bergið, geymslurými og vatnafar.

Byrjað verður á að bora fyrir tveimur holum, annars vegar vatnstökuholu (um 25 m. djúp) og hins vegar rannsóknaholu (um 700-1000 m. djúp). Niðurstöður rannsóknaborananna verða meðal annars nýttar í gerð forðafræðilíkana.

Viljayfirlýsing um samstarf

Í upphafi árs undirrituðu Sveitarfélagið Ölfus, Hafnarsjóður Þorlákshafnar, Carbfix hf., Coda Terminal hf. og Veitur ohf., viljayfirlýsingu um samstarf varðandi markvissa könnun á forsendum uppbyggingar og reksturs athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ í Þorlákshöfn.

Markmið samstarfsins er að kanna hvort hagsmunir samfélagsins í Ölfusi fari saman með áætlunum Carbfix, Coda Terminal og Veitna um að þróa og innleiða nýja og umhverfisvæna lausn fyrir varanlega kolefnisbindingu með Carbfix tækninni, sem byggir á niðurdælingu koldíoxíðs í basaltberglög þar sem það steingerist. Markmiðið er að Coda stöðin taki á móti CO₂ frá innlendum og alþjóðlegum aðilum og stuðli að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Verkefnið hefur verið kynnt fyrir samfélaginu í Ölfusi og hliðstæð starfsemi hefur átt sér stað á Helliheiði í Ölfusi síðan 2012, þar sem Carbfix hefur fangað og bundið bæði CO2 og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri.

Opinn fundur

Carbfix býður íbúum í Þorlákshöfn og Ölfusi á opinn fund á Heima Bistro, þriðjudaginn 8. júlí kl. 17:30-18:30. Fulltrúar frá Carbfix verða á staðnum, auk bæjarfulltrúa. Opið verður fyrir spjall og spurningar og heitt á könnunni. Fundinum verður ekki streymt. Við hvetjum íbúa sveitarfélagsins eindregið til að mæta til fundarins og eiga samtal um verkefnið.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?