Fjölbreytt dagskrá Tóna við hafið í vetur

Undirbúningur Tóna við hafið er á loksprettinum en fyrstu tónleikarnir verða næstkomandi föstudagskvöld. Tónleikaröðin verður fjölbreytt að vanda, þar sem reynt er að vera með eitthvað fyrir alla. Menningarráð Suðurlands styrkir tónleikaröðina og vakin er athygli á því að ókeypis er á tónleikana fyrir börn 12 ára og yngri.

Nú er undirbúningur vetrardagskrár Tóna við hafið í Þorlákshöfn senn á enda og hægt að byrja að njóta tónleikanna. Fjölmargir hafa sýnt áhuga á að koma til Þorlákshafnar og halda tónleika fyrir íbúa á Suðurlandi. Flestir tónleikanna verða í sal Ráðhúss Ölfuss en nokkrir verða í Þorlákskirkju, m.a. tónleikar í október með sópransöngkonunni Guðrúnu Ingimarsdóttur sem búsett er í Þýskalandi. Stórtónleikar verða í Ráðhúsinu í nóvember þegar sex manna blásarasveit ásamt söngkonunni Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Söngfélagi Þorlákshafnar troða upp, en Söngfélagið fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári. Það er margt fleira sem verður á boðstólum í vetur, en auk austur evrópskrar þjóðlagatónlistar, popptónlistarmanna, söngtónleika, suðrænnar sveiflu og jazz verður í annað skipti efnt til músíkmaraþons í apríl og að venju lýkur vetrardagskránni með uppsetningu á söngleik næsta vor.

Ragnheiður Gröndal, Egill Ólafsson og eyðibýlin

En fyrstu tónleikar vetrarins verða föstudaginn 10. september, þegar söngvararnir Ragnheiður Gröndal og Egill Ólafsson ásamt hljóðfæraleikurunum Sigurði Flosasyni, Kjartani Valdemarssyni og Matthíasi Hemstock flytja lög Sigurðar Flosasonar við ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Ljóðin komu fyrst fram í ljósmynda- og ljóðabók skáldsins og ljósmyndarans Nökkva Elíassonar; „Eyðibýli“ árið 2004. Tónlistina er að finna á hljómdiski sem kom út fyrir síðustu jól undir yfirskriftinni „Það sem hverfur“. Lögin hverfast um horfinn heim íslenskra eyðibýla; húsin, hlutina sem urðu eftir, fólkið sem fór og hina framliðnu sem e.t.v. eru enn á stjái. Þarna renna saman jazz, popp, klassík og þjólagatónlist og skapa bræðing sem hæfir efninu vel.

Tónleikarnir eru í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn og hefjast klukkan 20:30.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?