Fréttir úr Bergheimum

Mikið er um að vera í leikskólanum á aðventu eins og annarsstaðar og er í fréttabréfinu farið yfir það sem gert var í síðasta mánuði og það sem framundan er. 

 

Desember fréttir úr leikskólanum

16. nóvember

 Þann 16. nóv. var Dagur íslenskrar tungu og voru þá mörg tónlistaratriði og uppákomur  í leikskólanum. Hilmar og Guðrún frá 9-unni komu í heimsókn ásamt Kristínu Ólöfu til að hlusta  á atriðin. Hafdís og Guðrún Petrea dagmæður komu með nokkur börn sem eru hjá þeim. Ester Ólafsdóttir píanókennari kom með fjóra nemendur þau Atla Jökul, Lilju Rós, Nadíu og Júlíu Lis spiluðu þau á píanó bæði ein og tvö saman. Það tókst mjög vel hjá þeim.  Í tilefni dagsins  var  hver deild með uppákomu, Álfaheimar fluttu þuluna Stígur hún við í stokkinn, Hulduheimar sungu Á íslensku má alltaf finna svar, Dvergaheimar fóru með ljóðið Barn og Tröllaheimar sungu Best er að vera bóndakona og Ég langömmu á sem létt er í lund, Inga spilaði undir á gítar. Þetta var vel heppnuð hátíðarstund í tilefni dagsins.

 

Generalprufa í grunnskólanum

Hluti af samstarfi við grunnskólann er að leikskólanum er boðið á generalprufu fyrir litlu jólin hjá yngsta stiginu.  Í ár er hún 4. desember og er leikskólanum boðið. Þetta hefur gengið mjög vel og eru börnin dugleg að hlusta á skólabörnin flytja dagskránna.

 

Jólaundirbúningur

Í Bergheimum er reynt að hafa rólegheit og þægilegt andrúmsloft í desember þannig að byrjað var tímalega á jólagjöfum til foreldra.  Piparkökur verða málaðar í rólegheitum og fleira gert sem tengist jólunum, hlustað á jólalög og ljósin minnkuð þar sem hægt er og fleira sem gerir jólastemminguna notalega.

 

Jólaball

Jólaballið verður haldið í Versölum í Ráðhúsinu þann 13. desember. Byrjað verður á leiksýningu frá Möguleikhúsinu í boði foreldrafélagsins, svo er dansað í kringum jólatréð með undirspili frá Jólasveinabandinu úr skólalúðrasveitinni. Heyrst hefur að jólasveinar ætli að kíkja í heimsókn með smá pakka. Í ár verður foreldrum boðið að koma og taka þátt í jólaballinu og stendur það frá kl 9.30-11.00. Foreldrar mæta í Ráðhúsið og hitta börnin  og kveðja þau þar.

 

Kirkjuferð

Að venju verður farið í heimsókn í kirkjuna og Baldur tekur á móti börnunum, fer hann aðeins yfir það af hverju við höldum jól og börnin syngja fyrir hann jólalög. Í ár er kirkjuferðin 19. desember kl 10.15.

Opnunartímar um jól og áramót

Leikskólinn er lokaður á  24. desember ,25. desember, 26. desember, 31. desember og 1. janúar. Hina dagana er opið eins og venjulega. Í desember eins og alla aðra mánuði er nauðsynlegt að tilkynna ef börnin eru í fríi eða eru veik þannig að það ekki sé verið að bíða eftir þeim t.d. þegar verið er  að fara í vettvangsferðir tengdum jólunum s.s gönguferðir að skoða jólatréð, jólaljósin, kirkjuferð og fl.

 

Starfsmannabreytingar

Þann 1. janúar ætlar Þóra R. deildarstjóri á Álfaheimum að minnka við sig í 50 % vinnu og vinnur hún fyrir hádegi. Að því tilefni hættir hún sem deildarstjóri og Ragnheiður María sem hefur unnið á Álfaheimum í vetur tekur við deildarstjórastöðunni. Auglýst hefur verið eftir kennara til að vinna á móti Þóru og er verið að fara yfir umsóknir þessa dagana.

 

Vikan 3.-9. desember.

4. des. generalprufa í grunnskólanum kl 10.

6. des. leikfimi í íþróttahúsinu muna að hafa börnin í þægilegum fatnaði.

7. des. er rauður litadagur.

7. des. söngstund í sal.

Vikan 10.-16. desember

13. des. jólaball í Versölum kl 9.30.

14. des. fáum við heimsókn frá tónlistarskólanum kl 10.

14. des. er rugldagur þá er opið á milli deilda.

Vikan 17.-23. desember

20. des. jólafrí í íþróttahúsinu.

21. des.  söngstund í sal.

Vikan 24.-30. desember

24. des. aðfangadagur leikskólinn er lokaður.

25. des. jóladagur leikskólinn er lokaður.

26. des. annar í jólum leikskólinn er lokaður.

Vikan 30.desember -4. janúnar.

31. des. gamlársdagur leikskólinn er lokaður.

1. jan. nýársdagur leikskólinn er lokaður.

 

 

Með aðventukveðju

Dagný aðstoðarleikskólastjóri

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?