Glæsimenni kvatt

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Í dag kveðjum við Sigurð Grétar Guðmundsson sem kom ásamt konu sinni Helgu Harðardóttur til Þorlákshafnar árið 2002

Í dag kveðjum við Sigurð Grétar Guðmundsson sem kom ásamt konu sinni Helgu Harðardóttur til Þorlákshafnar árið 2002.  Þau voru nýbúar (eins og Sigurður Grétar benti gjarnan á) sem tóku alla tíð virkan þátt í flestu sem samfélagið bauð upp á, voru í ýmsum félögum, létu sjá sig á viðburðum og létu að sér kveða.  Það var mikill fengur fyrir samfélagið að fá þau hjón hingað.

Þegar ég kom til starfa sem menningarfulltrúi Ölfuss, var mér bent á að menningarsalurinn okkar væri engan veginn hæfur fyrir leiksýningar. Þegar ég ákvað að skoða þetta var mér bent á að fá Sigurð Grétar í lið með mér, en vitað var til þess að hann hafði lengi starfað með Leikfélagi Kópavogs.  Sigurður vildi gjarnan leggja okkur lið í þessu máli og kallaði jafnvel til fagmann úr Kópavogi til aðstoðar.  Því miður var ekki farið í að breyta salnum, en þar strandaði á fjármagni en ekki góðum hugmyndum.

Upp frá þessu leitaði ég oft til Sigurðar Grétars þegar mig vantaði aðstoð. Reyndar fékkst hann ekki til að ganga í Leikfélagið þegar það var endurvakið, sagðist vera búinn að leggja sitt af mörkum á því sviði, en hann var alltaf tilbúinn að koma og taka þátt í menningardagskrá á bókasafninu eða hjá félögum í bænum og var þá gjarnan fenginn til að lesa upp eða segja frá.  Það var sama hversu margir eða fáir mættu, alltaf mátti stóla á fagmennsku Sigurðar Grétars.  Famsetning var skýr, skemmtilegar skírskotanir og það besta, drengjalegt brosið.

Sigurður Grétar lét sig svo sannarlega málin varða. Hann var ekki einn af þeim sem gagnrýndi hlutina og lét þar við sitja, heldur stakk líka upp á lausnum.  Þegar rætt var um nýjan miðbæ í Þorlákshöfn, þá var hann með ákveðnar hugmyndir og lét sér ekki nægja að skrifa þær og birta, heldur fylgdu líka nákvæmar teikningar. Hann mætti á íbúafundi og kvað sér hljóðs. Gjarnan benti hann á eitthvað nýtt í því máli sem til umræðu var og var ekkert feiminn að gagnrýna það sem honum fannst ekki vera nógu gott.  En hann gerði það alltaf smekklega, flutti mál sitt á yfirvegaðan hátt og kom með nýjar tillögur.  Hann átti auðvelt með að flytja mál sitt því hann hafði mjög gott vald á íslenskri tungu.  Það gerði að verkum að pistlar hans í Morgunblaðinu sem nefndust „lagnafréttir“, urðu vinsælir hjá bæði leikum og lærðum.  Fyrir tveimur árum skrifaði hann og gaf út bókina Spádómur Lúsarinnar, sögulega skáldsögu sem byggir á ævi föðurafa hans, Halldóri Halldórssonar.  Bókin er skemmtileg aflestrar og óhætt að mæla með henni við alla þá sem ekki hafa enn gefið sér tíma til að njóta hennar.

Við komum til með að sakna Sigurðar Grétars. Eftir situr minningin um þennan glæsilega mann sem gekk svo keikur, kom á bókasafnið ásamt Helgu, las blöðin og hafði gaman af að ræða málin.

Hugur okkar er hjá Helgu og aðstandendum Sigurðar Grétars.

Barbara Guðnadóttir,
menningarfulltrúi Ölfuss

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?