Gleðileg byrjun á aðventu í Ölfusi

Barnakór grunnskólans söng falleg jólalög
Barnakór grunnskólans söng falleg jólalög

Það var mikið um dýrðir á fyrsta sunnudegi í aðventu í Þorlákshöfn. Þorlákskirkja var þétt setin í fallegri aðventuhátíð um miðjan daginn. Þar nutu kirkjugestir tónlistar frá kór Þorláks- og Hjallasóknar, Söngfélagi Þorlákshafnar, Barnakór Grunnskóla Þorlákshafnar og Lúðrasveit Tónlistarskóla Árnesinga. Fermingarbörn báru inn ljósið og kveikt var á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Halldór Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri, flutti hugvekju um jólahefðir og skemmtileg augnablik úr æsku.

Seinnipart dagsins tók gleðin við í Versölum þar sem fjölskylduskemmtun fór fram. Upphaflega átti skemmtunin að vera í Skrúðgarðinum, en veðrið kallaði okkur inn – þó voru ljósin á bæjarjólatrénu tendruð í ljósaprýddum Skrúðgarðinum. Lúðrasveit Þorlákshafnar og barnakór grunnskólans fluttu ljúfa jólatóna. Því næst skemmtu Skjóða og Langleggur og sögðu hressandi jólasögu úr Grýluhellinum. Að lokum mættu jólasveinarnir, Hurðaskellir og Ketkrókur, við mikinn fögnuð yngstu gestanna. Kiwanismenn buðu öllum uppá heitt kakó og piparkökur og fóru því allir saddir og sælir heim.

Með þessari hátíðlegu og gleðilegu byrjun á aðventunni er ljóst að jólastemningin hefur tekið völdin í Ölfusi. Við hlökkum til fleiri samverustunda, ljósa og tónlistar á aðventunni og vonum að allir njóti þess að skapa hlýjar minningar í desember.

Gleðilega aðventu!

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?