Góður skólaandi í Grunnskólanum

Afmælishátíð Grunnskólans
Afmælishátíð Grunnskólans
Í kjölfar umræðu um slaka útkomu íslenskra nemenda í Pisa könnuninni, skrifaði Sigríður Guðnadóttir grein um þann góða skólaanda sem ríkir í grunnskólanum.

Á vef Grunnskólans í Þorlákshöfn skrifaði Sigríður Guðnadóttir grein um hinn góða skólaanda sem þar er að finna. Greinin er hér birt með góðfúslegu leyfi.

Góður skólaandi

Mig langar að koma eftirfarandi til skila í ljósi þess að mikið er rætt um slaka útkomu íslenskra nemenda úr Pisa könnuninni en niðurstöður hennar birtust fyrir skömmu.

Mér finnst nemendur okkar svo frábærir og flestir, ef ekki allir, leggja sig vel fram enda stóðu þeir sig vel á samræmdu prófunum. Um daginn kom maður í Grunnskólann í Þorlákshöfn, sem er sprenglærður í uppeldis- og kennslufræðum, og hafði orð á því hvað væri skemmtilegt að koma í þennan skóla, því hér væri svo góður skólaandi. Af því að ég var ekki nógu fljót að taka undir orð hans spurði hann mig hvort mér fyndist það ekki. Jú, svo sannarleg fannst mér það. Það eru forréttindi að hlakka til að fara í vinnuna eða skólann á hverjum morgni.
 
Mig langar líka að minnast á, að Þorgrímur Þráinsson (með hans leyfi) kom hingað í skólann í 10. bekk með erindi sem hann nefnir: „Fylgdu hjartanu." Hann hefur komið hingað og talaði við útskriftarnemendur undanfarin ár.  Fyrir tilviljun heyrði ég Þorgrím segja við skólastjórann að hann hefði sjaldan verið hjá svo rólegum bekk sem þessum. Ekki svo að skilja að að hann eigi í einhverjum vandræðum með að ná til nemendanna, það er svo langt frá því.

Mig langar bara að hrósa nemendum okkar fyrir hvað þeir eru frábærir og hæfileikaríkir. Að lokum ætla ég að vitna í orð Þráins: „Elskaðu sjálfan þig og þá verður þú ástfanginn af lífinu. Gærdagurinn er liðinn og framtíðin óskrifað blað. Lifðu í núinu!"

Að lokum bendi ég á góða grein sem fyrrum kennari þessa skóla, Nanna Christiansen,  skrifar í „Krítina"  og heitir „Áfram grunnskóli" og fjallar m.a. um mikilvægi þess að efla sjálfstraust nemenda okkar sem námsmanna „sannfæra þá um mikilvægi góðs námsárangurs." Hún segir ennfremur að nemendur þurfi mikinn stuðning og aðhald og þá ekki síst frá foreldrum sínum. Höldum áfram að vera í stuðningsliði nemenda okkar!

SG

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?