Hamingjan við hafið

Hamingjan við hafið 2023 verður haldin 8.-12. ágúst í Þorlákshöfn. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og fyrir alla aldurshópa. Allir viðburðir á vegum Sveitarfélagsins Ölfuss eru gjaldfrjálsir og aðgengilegir fyrir alla. Alla vikuna verða hinir ýmsu dagskrárliðir í boði eins og Leikhópurinn Lotta, boltaþrautir hverfanna, sundlaugapartí fyrir börn og unglinga, leikir og lautarferð í Skrúðgarðinum, Harmónikkufestival og krakkasprell í íþróttahúsinu.

Föstudagskvöldið 11. ágúst verður hin árlega litaskrúðganga hverfanna með Lúðrasveit Þorlákshafnar í fararbroddi sem endar í Skrúðgarðinum. Þar verður hægt að grilla og njóta saman í einu allsherjar bæjargrilli. Þá verður einnig kvöldvaka í stóru samkomutjaldi í garðinum þar sem fram koma Sunnan 6, Jónas Sig ásamt hljómsveit, Hr. Eydís með gestasöngkonunni Bryndísi Ásmunds og Hreimur slær svo lokatónana á kvöldvökunni. Strax í kjölfarið hefst Körfupartí Þórs í tjaldinu en þar mun DJ Bragi halda uppi stuðinu.

Laugardaginn 12. ágúst verður boðið upp á fjölskyldudagskrá í Skrúðgarðinum með hoppuköstulum, vatnabolta, Bestu lögum barnanna ásamt hundinum Oreo, krakkaball með Diskótekinu Dísu, söngvarakeppni og blöðrurum. Veltibíllinn verður á svæðinu ásamt BMX bros. Argh - heimagallerí verður opið á Reykjabraut 19.

Á laugardagskvöldinu verða stórtónleikar í tjaldinu þar sem fram koma Jón Arnór og Baldur, Katrín Myrra, Moskvít, Langi Seli og skuggarnir, Júlí Heiðar og Kristmundur Axel og Emmsjé Gauti slær botninn í tónleikana. Að tónleikum loknum verður risaflugeldasýning sem Kiwanisklúbburinn Ölver hefur veg og vanda að. Síðan verður hið rómaða Hamingjuball í tjaldinu þar sem Jónsi og Stefanía Svavars ásamt hljómsveit halda fólkinu á dansgólfinu.

Dagskráin verður aðgengileg á netinu og á plakötum víða. Hún verður ekki prentuð út og borin í hús vegna umhverfissjónarmiða. Sjá dagskrána hér

Fylgist með á Facebook-síðunni Hamingjan við hafið og Instagram til að fá frekari upplýsingar.

Sjáumst öll í Hamingjunni í Þorlákshöfn 8.-12. ágúst.

Sveitarfélagið Ölfus

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?