Heit list í Hellisheiðarvirkjun - Mikið fjölmenni við opnun sýningar

Kyrjukórinn söng nokkur lög við opnun sýningar
Kyrjukórinn söng nokkur lög við opnun sýningar

Mikið fjölmenni var við opnun sýningar sem haldin var í Hellisheiðarvirkjun síðastliðna helgi. Ýmsir listamenn komu fram, m.a. Kyrjukórinn úr Þorlákshöfn og listakonur sem sýndu verk sín auk þess sem nemendur úr Landbúnaðarháskólnum sýndu blómaskreytingar.

Um 500 manns voru viðstaddir opnun sýningarinnar Heit list í Hellisheiðarvirkjun fimmtudagskvöldið 20. október, en þar sýndu nokkrir listamenn sem verið hafa í samskiptum við Orkusýn að undanförnu verk sín. Listamennirnir vour þau Margrét Brynjólfsdóttir myndlistamaður, Katrín Pálsdóttir og Steindóra Bergþórsdóttir glerlistamenn, Helga Unnarsdóttir leirkerasmiður, Svava Grímsdóttir fatahönnuður og Dagný Magnúsdóttir alþýðulistamaður,  en nemar í Landbúnaðarháskólanum á Reykjum sýndu blómaskreytingar. Kyrjukórinn frá Þorlákshöfn söng nokkur lög í upphafi dagskrár og síðan var haldin glæsileg tískusýning.

Sýningin var í anda þeirrar viðteknu venju hérlendis að virkjanir og orkuver séu opin almenningi og að menningarlíf sé eðlilegur þáttur í starfsemi þeirra. Verk listamannanna hafa verið til sölu í minjagripaverslun Orkusýnar í virkjuninni. Sýningarsvæðið í Hellisheiðarvirkjun er á þrem hæðum og er áberandi í landslaginu á heiðinni. Sýningin var opin síðastliðna helgi samhliða jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun. En sú sýning er opin alla daga frá kl. 9-17.

Meðfylgjandi myndir tók Hjalti Vignisson.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?