Hendur í Höfn

-Nýtt fyrirtæki-Listasmiðja-Handverkshús-Glervinnustofa-
 

Hendur í Höfn er nýtt fyrirtæki í Þorlákshöfn og þar eru unnar aðallega glervörur, prjón- og heklvörur auk nytja-og skrautmuna. Einnig er skartgripagerð í boði og aðstoð við handavinnu. Flestir munirnir eru til sölu auk muna frá lista og handverksfélagi Ölfuss. Umsjónarmaður fyrirtækisins er Dagný Magnúsdóttir.

 

Dagný er gift Vigni Arnarsyni og eiga þau þrjú börn Hjalta, Hugrúnu og Hörpu. Henni finnst skemmtilegt að ferðast með fjölskyldunni og eiga góða stund saman með þeim. Hennar helstu áhugamál er að ferðast, matargerð og handavinna sem hún er m.a að gera í Hendur í Höfn. Dagný hefur búið bæði í Skotlandi og í Kópavogi en hún fæddist hér í Þorlákshöfn. Hún var í skóla bæði í Skotlandi og í Kópavogi en gekk svo í Menntaskólann í Hamrahlíð og var þar í 2 ár. Hún útskrifaðist úr Borgarholtsskóla sem félagsliði. Nú er hún búin að ljúka fullt af námskeiðum úr Myndlistaskóla Reykjavíkur sem og ýmsum námskeiðum í öðrum listgreinum. Hún hefur alltaf viljað vinna með fólki og fann það strax þegar hún lauk barnaskóla, hún vinnur einnig í Ráðhúskaffi.

Hugmyndin að nafninu Hendur í Höfn  kviknaði út frá því að Dagný fór að hugsa um hvernig hún væri að nota hendurnar sínar og hún notaði höfn með líka vegna bæjarins, Þorlákshafnar. Hún segir líka að hendurnar sínar séu í höfn. Henni sjálfri þykir vænst um Lampa úr leir sem hún gerði. Þegar ég spurði hana afhverju hún hefði valið glerið fram yfir aðra handavinnu sagði hún að hún væri búin að vera í leir og fyndist glerið spennandi og hún segir líka að glerið sé fljótunnara en leirinn af því það þarf bara að brenna glerið einu sinni en leirinn mörgum sinnum.

 

Hendur í Höfn býður upp á allskonar starfsemi eins og t.d. námskeið fyrir alla aldurshópa í glervinnu og skartgripagerð og aðstoð við handavinnu.

Hendur í Höfn bíður upp á vikunámskeið fyrir börn og unglinga frá 9 til 12. Markmiðið hjá þessum aldurshópi er að kynnast sögu glersins, umgangast gler og verkfæri, nota umhverfið sem hugmyndakveikju að formi og litum, sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og þróa og hanna sína eigin hluti. Skráningargjald er 9.500 kr. og er innifalið í því allt efni og veitingar.

Fullorðinsnámskeiðin eru fjögur kvöld í viku fjóra tíma í senn og fólk ræður í sameiningu hvenær þau fjögur kvöld verða eða hafa þann möguleika að þau séu á föstudags, laugardags og sunnudagskvöldum, námskeiðið er í allt 16 tímar. Skráningargjald er 23.000 kr. og er einnig innifalið í því allt efni og veitingar.

Eitt námskeiðið nefnist Glerbræðslunámskeið og á því eru kynntar hugmyndir og aðferðir við glerbræðslu með mismunandi tegundum glers. Kenndur er glerskurður, litun og skreytingar ásamt mótagerð o.fl.

Boðið er upp á skammtíma námskeið fyrir hópa s.s. saumaklúbba, vina- og vinnustaðahópa, gæsa- og steggjahópa. Algengast er að hóparnir séu einn dag eða eina kvöldstund í einu.

Opin vinnustofa er einu sinni í viku á þriðjudögum milli kl: 14:00 og 21:00 fyrir þá sem eru sjálfbjarga í glervinnu og skrartgripagerð. Leiðbeinandi er á staðnum og aðstoðar við glervinnuna. Mikilvægt er að skrá sig í þessa vinnu.  Handavinnudagar eru annan fimmtudag í mánuði frá kl: 14:00-18:00 og síðasta fimmtudag í mánuði frá kl: 20:00-22:00. Þeir eru tilvalið tækifæri fyrir fólk með sameiginleg áhugamál og viðfangsefni að eiga saman notalega og jafnvel fræðandi stund.

Algengast er að börn 7-12 ára séu á námskeiðunum og 25-75 ára á fullorðinsnámsskeiðunum en auðvitað eru allir velkomnir og þátttatakan er góð, betri heldur en Dagný bjóst við að hún yrði. Á námskeiðunum er vinsælast að gera skálar, matarstell og myndir úr gleri.

 

Hægt er að að panta hjá Dagnýju matarstell og aðra nytja –og listmuni. Biðtími er ekki langur og kostnaðurinn fer eftir því hvað um er að ræða stórt verk eða hve mörg verk.

Ef þið viljið kynnast starfseminni betur þá er hægt að nálgast bækling um starfsemina á Bæjarbókasafni Ölfuss. Ef vilji er fyrir að skrá sig á námskeið, taka þátt í handavinnudeginum og opinni vinnustofu, eða einhverjar spurningar vakna þá er hægt að kíkja við á Unubakka 10-12 í Þorlákshöfn eða hringja í Dagnýju í síma 848-3389 og kynna sér málin.

Opnunartími eru mánudaga til föstudaga frá 14:00 til 18:00 í júní til ágúst en þriðjudaga til föstudaga frá 14:00-18:00 og laugardögum 14:00-17:00 í september til maí.

Netfangið er: hendurihofn@hendurihofn.is og heimasíðan er: hendurihofn.is

 

Greinahöfundur: Hákon Svavarsson sumarstarfsmaður á Bæjarbókasafni Ölfuss

 

 

 

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?