Japanir í skoðunarferð, málverkasýning Þuríðar Sigurðardóttur og fleira skemmtilegt í Hellisheiðarvirkjun

Japönsk sendinefnd í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun
Japönsk sendinefnd í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun

Ýmislegt hefur verið um að vera í Hellisheiðarvirkjun undanfarið. Breskir skólahópar hafa komið í fræðsluferð og fyrir nokkru kom sendinefnd frá Japan til að kynna sér nýtingu jarðhita á Íslandi. Gestir hafa skoðað steinasafn og málverk Þuríðar Sigurðardóttur sem prýða veggi á þriðju hæð hússins.

Fjölmenn sendinefnd japanskra þingmanna og aðstoðarmanna þeirra, auk sendiherra Íslands í Japan og sendiherra Japans á Íslandi sat kynningarfund um nýtingu jarðhitans og tækni við hana í Hellisheiðarvirkjun. Þeir dr. Einar Gunnlaugsson og Kristján B. Ólafsson frá Orkuveitu Reykjavíkur fluttu erindi, en þingmennirnir skoðuðu vélasali virkjunarinnar og margmiðlunarkynningu sem öllum er opin. Mikinn jarðhita er að finna í Japan en hann hefur aðeins verið nýttur til baða og heisluræktar til þessa. Þingmennirnir eru í endurreisnarnefnd eftir kjarnorkuslysið í Fukushima.  Rétt er að geta þess að túrbínur og hverflar Hellisheiðarvirkjunar eru frá Mitshubisi og Toshiba og japanskir tækniþekkingu því mikið að þakka við jarðhitanýtingu okkar Íslendinga.


Norðurljósin,mýrar og glætur í glæsilegum málverkum

Þuríður Sigurðardóttir, myndlistarmaður, sýnir nokkur málverka sinna á þriðju hæð Hellisheiðarvirkjunar. Gestir á jarðhitasýningunni hafa verið dolfallnir yfir málverkum Þuru af norðurljósunum, enda eru þau einstök listaverk. Þá eru á sýningunni einstaklega falleg málverk af mýrargróðri. Sýningin verður opin fram á vordaga.


Margar skólaheimsóknir

Fjöldi erlendra og innlendra skólahópa hafa komið í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun undanfarnar vikur. Breskir skólahópar eru margir og greinilega ekki verið að slá slöku við, því nemendurnir eru með verkefnabækur og koma greinilega vel undirbúin. Þau hafa skoðað steinasýninguna á 3. hæðinni vandlega og gefið sér góðan tíma til þess að skoða jarðhitasýninguna.

Opnunartími um páskana

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun verður opin eins og venjulega frá kl. 09:00 til 17:00 alla páskahelgina. Hafið samband við okkur: orkusyn@orkusyn.is www.orkusyn.is , símar 412 5800, gm 660 9400 og 660 9401

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?