Jólafjölskyldufjör í Ölfusi - taktu þátt!

Undirbúningur fyrir jólahátíðina er liður í að fjölskyldan skemmti sér saman, njóti samveru og búi til góðar minningar. Í bænum okkar eru jólaljósin farin að ljóma og er gaman að ganga/keyra um bæinn og sveitina og skoða fallegar skreytingar. Í sundlauginni verður sannkölluð jólastemning og boðið uppá heitar helgar í desember en þá verður laugin hituð sérstaklega. Tilvalið að fjölskyldan fari í sund og njóti þess að vera saman.

Í ár verður SNJALL jólaratleikur í Skrúðgarðinum þar sem leitin snýst um 13 Þollósveina sem vísa á spurningakóða sem tengjast jólum og ævintýrum.

Ungir sem aldnir hlakka til að fylgjast með jólasveinunum þegar þeir fara að þramma til byggða með eitthvað gott í skóinn en Stekkjastaur mætir fyrstur þann 12. desember. Þann dag opnum við fallega skreytta jólasveinaglugga víða um bæinn. Hver gluggi gefur vísbendingu um heiti íslensku jólasveinanna og er tilvalið að taka þátt í getraun og skoða jólasveinaglugganna. Þeir þjónustuaðilar og fyrirtækiseigendur sem hafa áhuga að vera með og skreyta jólasveinaglugga mega senda línu til jmh@olfus.is

Ölfusingar geta dottið í föndurgírinn og hannað jólasokk sem verður til sýnis á Bókasafninu en við efnum til hönnunarsamkeppni á jólasokk Ölfuss 2022. Jólasokkurinn þarf að vera eigin hönnun og hugmyndaverk, prjónaður, heklaður, saumaður eða endurunninn.

Njótið jólaundirbúnings og samveru fjölskyldunnar um hátíðarnar.

Jóhanna M. Hjartardóttir
Sviðstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?