Kraftur í ungu tónlistarfólki

 

Undanfarið hefur ungt tónlistarfólk úr Þorlákshöfn vakið athygli vegna þátttöku í keppnum og á tónleikum. Hljómsveitin The Fallen Prophecy tók þátt í undankeppni Músíktilrauna og vakti mikla lukku er hún spilaði á árshátíð í Grunnskólanum í Þorlákshöfn nýverið. Söngvarinn Daníel Haukur Arnarson söng í hljómsveitinni The Assassin of a Beautiful Brunette sem einnig tók þátt í Músíktilraunum og var í þriðja sæti í keppninni auk þess að vera valin hljómsveit fólksins. Daníel Haukur var einnig í þriðja sæti í Söngkeppni Framhaldsskólanna er hann tók þátt í keppninni fyrir hönd FSU á síðasta ári. Nú tekur annar Þorlákshafnarbúi þátt í sömu keppni, en það er Júlí Heiðar Halldórsson sem keppir ásamt tveimur öðrum drengjum úr Borgarholtsskóla. Keppnin fer fram næstkomandi laugardag.
 
Skorað er á þetta unga fólkið að taka þátt í Músíkmaraþoninu sem efnt verður til laugardaginn 17. apríl í Versölum, Þorlákshöfn. Hljómsveitin The Fallen Prophecy er búin að skrá sig til leiks en gaman væri að fá fleiri ungar hljómsveitir til að koma og spila.
 
Annars eru allir áhugasamir velkomnir að taka þátt í músíkmaraþoninu. Engin kvöð er um að tónlistarmenn séu búsettir í Ölfusinu, gaman væri að fá hljómsveitir og tónlistarfólk af öllu Árborgarsvæðinu. Best er að hafa samband við menningarfulltrúa Ölfuss til að fá upplýsingar. Símanúmerið er 8636390, einnig er hægt að senda póst á netfangið barbara@olfus.is.
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?