Kvennahlaup og HSK mót í blíðskaparveðri

Blíða í langstökki
Blíða í langstökki

Kvennahlaup ÍSÍ var haldið í 26.sinn laugardaginn 13. júní sl. Það var Frjálsíþróttadeild Þórs sem sá um framkvæmd hlaupsins í Þorlákshöfn og var þátttaka með besta móti.  Alls hlupu 48 konur og börn í blíðskaparveðri.

Kvennahlaup ÍSÍ var haldið í 26.sinn laugardaginn 13. júní sl. Það var Frjálsíþróttadeild Þórs sem sá um framkvæmd hlaupsins í Þorlákshöfn og var þátttaka með besta móti.  Alls hlupu 48 konur og börn í blíðskaparveðri.  Jóhanna Hjartardóttir íþróttakennari sá um teygjur og upphitun fyrir hlaup en farnar voru tvær vegalengdir, 2,5 km og 4,6 km. Hver og einn fór á sínum hraða en allir skiluðu sér glaðir og ánægðir í mark.  Við marklínu fengu allir hlauparar verðlaunapening, drykk í boði Egils Skallagrímssonar og krem í boði NIVEA.

Það var nóg að snúast hjá Frjálsíþróttadeildinni þessa helgi, því Héraðsleikar HSK fyrir 10 ára og yngri og Aldursflokkamót 11-14 ára fóru fram á Þorlákshafnarvelli sunnudaginn 14.júní. Framkvæmd mótsins var í höndum HSK, en iðkendur og foreldrar  í frjálsíþróttadeild Þórs höfðu þó í nógu að snúast á heimavelli.  Tilvonandi Gautaborgarfarar liðsins sáu auk þess um veitingasölu á vellinum. Mótið var hið glæsilegasta enda veðrið með eindæmum gott. Það er alltaf gaman að fá gesti til Þorlákshafnar þegar vel viðrar og íþróttamannvirkin okkar vekja jafnan mikla hrifningu gesta, sem að þessu sinni komu af öllu sambandssvæði HSK í Árnes- og Rangárvallasýslu. Höfðu nokkrir á orði að þeim liði eins og þeir væru komnir á Ólympíuleika, enda var kynnir mótsins enginn annar en Sigurbjörn Árni, aðalkynnir RÚV á öllum stórmótum í frjálsum. Keppendur Þórs stóðu sig mjög vel á mótinu. Allir keppendur 10 ára og yngri fengu verðlaunapening en á aldursflokkamótinu voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sæti í hverri grein. Þar áttum við keppanda á palli í næstum hverri keppnisgrein og sigurvegara í mörgum greinum. Rúnar Hjálmarsson þjálfari var því að vonum ánægður í mótslok, enda Þór í öðru sæti í heildarstigakeppni mótsins á eftir Selfossi sem var með langflesta keppendur.

SH

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?