Kynning á ferðamálastefnu Ölfuss í "Gallerí undir stiganum"

Adabjarginu
Adabjarginu
Kynning á ferðamálastefnu Ölfuss í "Gallerí undir stiganum".

Opnuð hefur verið ný sýning í sýningarrými bókasafnsins í Þorlákshöfn.

Opnuð hefur verið ný sýning í sýningarrými bókasafnsins í Þorlákshöfn. Að þessu sinni nýtir menningarnefnd sýningarrýmið til að kynna stefnu sveitarfélagsins í ferðmálum. Vinnu við stefnuna lauk í mars síðastliðnum með útkomu skýrslu sem unnin var af ferðamálafræðingnum Rögnvaldi Guðmundssyni. Mikil vinna fór í að útbúa vandaða stefnu. Efnt var til funda með íbúum og aðilum sem starfa við ferðaþjónustu í Ölfusinu, sendar voru út kannanir meðal íbúa og ferðamanna og í lokin var efnt til kynningarfundar. Í skýrslunni er greint frá þróun ferðaþjónustu á Íslandi og gerð úttekt á stöðu ferðaþjónustu í Ölfusi. Teknar eru saman niðurstöður úr fyrrgreindum könnunum og dregið saman það helsta sem talið er að geti eflt ferðaþjónustu á svæðinu. Þar sem skýrslan er ýtarleg og yfir 60 blaðsíður að lengd, má telja ólíklegt að margir lesi hana alla. Því var ákveðið að kynna helstu niðurstöður skýrslunnar á sýningu í Gallerí undir stiganum.

Á sýningunni eru birtar helstu niðurstöður úr könnunum, en þær sýna mikla jákvæðni íbúa í garð ferðaþjónustu. Helsti veikleiki á sviði ferðaþjónustu í Þorlákshöfn er talinn vera skortur á gistirými og þjónustu, en í sveitinni vanti hinsvegar afþreyingu og kynningu. Ljóst er að ferðaþjónustufyrirtæki eru aðallega í dreifbýli Ölfuss, en einungis fá í Þorlákshöfn. Til að ráða bót á því komu fram margvíslegar hugmyndir um afþreyingu í Þorlákshöfn, m.a. að boðið verði upp á sjóstangveiði, komið verði upp internet kaffihúsi og boðið verði upp á siglingu fyrir ferðamenn. Í sveitinni megi efna til fleiri hestaferða, bæta aðgengi að náttúruperlum og efla kynningu og merkingar á gönguleiðum.

Meðal þess sem stefnt verður að á næstu árum af hálfu menningarnefndar, er að efla samstarf meðal ferðaþjónustuaðila á svæðinu og samstarf við nágrannasveitarfélögin. Bætt verður úr kynningarmálum með því að tengjast Markaðsstofu Suðurlands og útbúa markaðs- og kynningaráætlun fyrir Sveitarfélagið. Þá er vonast til að nýr suðurstrandarvegur auki viðskiptatækifæri á svæðinu og að þannig verði til meiri þjónusta sem bæði mun nýtast gestum en ekki síður íbúum. Skoðaðir verða möguleikar á að efla hellaskoðun og hvetja til meiri útivistar í þessu fjölbreytta útivistarsvæði. Fjölgað verður upplýsinga- og fræðsluskiltum og efnt til Ölfushátíðar að hausti í öllu sveitarfélaginu. Hátíðinni er ætlað að vera kynning fyrir sveitarfélagið og ferðaþjónustuaðila, en gæti einnig orðið til að auka samkennd meðal íbúa. Þá er stefnt að því að halda áfram vinnu við verkefnið Verstöðin Þorlákshöfn og leita áfram leiða við að hýsa bátasafn Þjóðminjasafns Íslands hér við ströndina.

Allir eru velkomnir að skoða sýninguna sem er opin á opnunartíma bókasafnsins. Einnig liggur skýrslan frammi og geta áhugasamir skoðað hana á safninu eða skoðað hana og á vef Sveitarfélagsins.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?