Leikskólabörn í heimsókn í bangsaviku

Sögustund í bangsaviku 2011
Sögustund í bangsaviku 2011
Yngstu deildir leikskólans hafa undanfarið komið í sögustund á bókasafnið í tilefni bangsavikunnar.

Á hverju ári heldur bókasafnið upp á svokallaða bangsaviku og býður yngstu deildum leikskólans í heimsókn þar sem lesin er saga og allir fá að lita bangsamynd.

Bókasöfn og bangsar

Frá því árið 1998 hafa bókasöfn á Norðurlöndum haldið Bangsadaginn hátíðlegan. Það  er mjög viðeigandi að tengja bangsa og bókasöfn á þennan hátt því bangsar eru  söguhetjur margra vinsælla barnabóka auk þess sem bangsar eru eitt vinsælasta leikfang sem framleitt hefur verið. Einnig eru bangsar tákn öryggis og  vellíðunar í huga okkar á sama hátt og bækur og bókasöfn eru vonandi. 

Fyrsti bangsinn 

Dagurinn sem valinn hefur verið sem svokallaður Bangsadagur er 27. október, afmælisdagur Theodore  (Teddy) Roosevelt fyrrverandi Bandaríkjaforseta. 

Roosevelt var mikill skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn þegar hann  var á bjarnarveiðum hafi hann vorkennt litlum, varnarlausum bjarnarhúni og  sleppt honum lausum.  Búðareigandi í Brooklyn í New York varð svo hrifinn af þessari sögu að  hann bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem "Bangsann hans Teddy" (Teddy's  Bear).  Það má segja að þetta hafi verið upphaf af sigurgöngu  leikfangabangsans sem er orðinn vinsæll félagi barna um allan  heim. 

Höldum upp á bangsaafmæli

Í mörg ár hafa bókasöfn á Norðurlöndum látið hanna sérstakan bókasafnsbangsa, nýjan á hverju ári, og síðustu ár hefur Bæjarbókasafn Ölfuss gefið leikskólanum nýjan bangsa á hverju ári. Á sama tíma voru gefin út kort með mynd af bangsanum og bókasöfn hafa skreytt hjá sér með myndum og böngsum.

Því miður var hætt í ár að hanna bangsa, en flest bókasöfn hafa þó ákveðið að halda áfram upp á bangsaviku, bjóða ungum börnum í heimsókn og leyfa þeim að knúsa bókasafnsbangsana og njóta sín innan um bangsabækur á meðan þau hlusta á bangsasögu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar börn úr leikaskólanum Bergheimum heimsóttu bókasafnið í sögustund.

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?