Lestrardagbók gefin 7. bekkingum á Suðurlandi

Sjöundu bekkingar fá lestrardagbækur
Sjöundu bekkingar fá lestrardagbækur
Nemendur í sjöunda bekk hafa fengið lestrardagbækur afhentar að gjöf frá útgefendum bókarinnar.

Síðastliðna daga hafa nemendur í 7. bekkjum í grunnskólum á Suðurlandi og Vestmannaeyjum fengið gefna lestrardagbók. Bókin er ætluð sem hvatning til aukins lesturs og getur einnig nýst í íslenskukennslu. Þetta er þriðja árið, og jafnframt það síðasta, sem nemendur 7. bekkja fá slíka gjöf, en þeir voru valdir vegna þess að þeir taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni.

Lestrardagbókin hentar bæði börnum og fullorðnum og hana má nota á ýmsa vegu. Í hana má skrá þær bækur sem lesnar eru og hugleiðingar um þær. Foreldrar geta einnig nýtt bókina til að halda utan um það sem þeir lesa með börnum sínum, því lestrarstund er gæðastund. Einnig er tilvalið að skrá kvikmyndir, leikhúsferðir eða heimsóknir á söfn í bókina og verður hún þá menningardagbók.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, skrifaði formála og Björn Heimir Önundarson, nemandi í Hvolsskóla á Hvolsvelli, teiknaði skemmtilegar myndir í bókina. Menningarráð Suðurlands styrkti útgáfuna rausnarlega árið 2009, en verkefnið var til þriggja ára.

Útgefendur lestrardagbókarinnar eiga það sameiginlegt að starfa á bókasöfnum og hafa mikinn áhuga á að auka lestur. Þær eru Barbara Guðnadóttir, Elín K. Guðbrandsdóttir, Gunnhildur E. Kristjánsdóttir, Hlíf S. Arndal, Margrét I. Ásgeirsdóttir og Sigríður Matthíasdóttir. Bókin er til sölu í mörgum almenningsbókasöfnum.

Meðfylgjandi mynd er tekin þegar nemendur í 7. bekk í Þorlákshöfn fengur afhenta lestrardagbók.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?