Lið Ölfuss sló út Kópavog í Útsvarinu.

Lið Ölfuss stóð sig aldeilis vel föstudaginn 22. desember þegar það sló lið Kópavogs út með látum. Það verður ekki tekið af liðinu okkar að þau mættu glaðlynd og jólaleg í þáttinn og tilbúin í alvöru keppni.

Til að gera langa sögu stutta þá gjörsigruðu þau lið Kópavogs með 89 stigum gegn 49. Þetta var fyrsta viðureign 16 liða úrslita og því einhver bið á að Ölfus keppi aftur. Ölfusingar eru þar af leiðandi fyrsta liðið sem komið er í 8 liða úrslit Útsvarsins. Lið Ölfuss er skipað þeim Árnýju Leifsdóttur, Hannesi Stefánssyni og Magnþóru Kristjánsdóttur. Í liði Kópavogs voru Katrín Júlíusdóttir, Orri Hlöðversson og Skúli Þór Jónsson.

Það verður spennandi að fylgjast með næstu viðureign liðsins og óskum við keppendum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?