Músíkmaraþon í Þorlákshöfn

Margir tónlistarhópar taka þátt, m.a. Lúðrasveit og Söngfélag Þorlákshafnar, Tónar og Trix og hljómsveitirnar The Fallen Prophecy og The Assassin of a beautiful Brunette sem tóku þátt í  Músíktilraunum. Síðarnefnda hljómsveitin lenti í þriðja sæti og var valin hljómsveit fólksins.  Ennfremur mæta þremenningarnir úr Borgarholtsskóla sem unnu Söngkeppni Framhaldsskólanna á svæðið en einn þeirra er úr Þorlákshöfn. Fjöldi nemenda úr Tónlistarskóla Árnesinga munu koma fram og flutt verða atriði úr söngleiknum Ávaxtakörfunni. Þegar líður á kvöldið fer að bera meira á einstaklingum með gítar við hönd, en þarna verða m.a. þeir Skarphéðinn Haraldsson sem er að vinna að fyrstu sólóplötu sinni og Jakob Viðar Guðmundsson sem kemur alla leið úr Kópavoginum til að taka þátt, en einnig halda hljómsveitir áfram að gleðja gesti eins og Hjörtur Jóhannsson eða Dötti með hjómsveit og Rósin okkar.
Ekki er allt upptalið og dagskráin kemur líklega til með að taka nokkrum breytingum eftir því sem nær dregur. Hér fyrir neðan er dagskráin eins og hún lítur út hverju sinni. Tónlistarmenn eru beðnir um að mæta tímalega og hafa samband við Barböru, menningarfulltrúa Ölfuss til að fá nánari upplýsingar (barbara@olfus.is eða í síma 8636390).
Gestir geta komið og farið eftir því sem hentar, sett verður upp einfalt föndurhorn fyrir börnin fyrir framan salinn og þau geta einnig komið á svið og sungið í karókí á milli kl. 19 og 19:30 (ekki þarf að skrá sig í það) - athugið að þetta er naumur tími og sumir verða kannski að bíða til Hafnardaga að syngja í karíókí, en þá verður nægur tími fyrir alla að syngja.  Þegar formlegri dagskrá lýkur getur eldra fólkið spreytt sig við míkrafóninn eða annan tónlistarflutning.
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?