Næsta vika verður undirlögð í fjölmenningarverkefnum

Þjóðahátíð í Þorlákshöfn 2008
Þjóðahátíð í Þorlákshöfn 2008
Fjölbreytt dagskrá alla vikuna

Það verður ýmislegt um að vera í næstu viku þegar fjölmenningu verður gert hátt undir höfði í Ölfusi.

Vikuna 27. febrúar - 5. mars verður efnt til fjölmenningarviku í sveitarfélaginu Ölfusi. Margvísleg verkefni og dagskrárliðir hafa verið skipulagðir en hægt er að skoða dagskrá hvers dags á viðburðadagatali hér á vefnum. Einnig verður dagskrá borin í hús og veggspjöld hanga víða um bæinn. Íbúar eru hvattir til að aðstoða við að koma upplýsingum um dagskrána á framfæri við þá sem ekki skilja vel íslensku eða eru óduglegir við að lesa upplýsingaefni.

Vikan hefst með því að boðið verður upp á safariferð í Selvoginn, Raufarhólshelli og um Þorlákshöfn. Ferðin endar á bókasafninu kl. 15, þar sem opnuð verður formlega ný sýning í Gallerí undir stiganum, bókasafnið verður kynnt og boðið verður upp á smá veitingar. Á mánudagsmorguninn verður ungbarnamorgun á bókasafninu þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist fyrir smábörnin og aðstandendur. Um kvöldið á mánudeginum og á miðvikudeginum efna Samtök lista- og handverksfólks í Ölfusi til handverkskvölda í Hendur í Höfn, Unubakka 10-12, þar sem unnið verður að því að útbúa vinateppi auk þess sem hver og einn getur sinnt sínu handverki.

Miðvikudaginn 2. mars mæta öll börn úr leikskólanum Bergheimum á Ráðhústorgið og syngja Meistari Jakob á öllum þeim tungumálum sem notuð eru af börnum í Bergheimum, foreldrar sem og allir bæjarbúar eru hjartanlega velkomnir.

Fimmtudaginn 3. mars, á pólska bolludaginn verður síðan spilakvöld. Af tilefni bolludagsins mun Anna Radwanska baka berlínarbollur í skólaeldhúsi Grunnskólans. Allir eru velkomnir að koma við, fylgjast með, læra handtökin, en boðið verður upp á nýbakaðar bollur á spilakvöldinu.

Hápunktur hátíðarinnar verður síðan  á laugardeginum 5. mars þegar afrakstur verkefna leik- og grunnskólanemenda verða til sýnis í ráðhúsinu. Boðið verður upp sögustundir á íslensku og pólsku, efnt verður til listasmiðju, lokið verður við vinateppið og ýmis atriði verða sýnd á sviði. Um kvöldið lýkur vikunni með karókí í Ráðhúskaffi (athugið aldurstakmark um kvöldið).

Ekkert kostar á ofangreinda dagskrárliði vikunnar!

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?