Ný Sumarnámskeið

Ný og spennandi námskeið hefjast í næstu viku fyrir börn og fullorðna

 

Sumarnámskeiðin hafa heldur betur farið vel af stað. Þáttta hefur verið vonum framar og gaman að sjá bæði börn og fullorðið fólk nýta sér tækifærin og skella sér á námskeið. 

Á næstu vikum hefjast spennandi námskeið sem íbúar eru hvattir til að skoða vel, bæði fyrir fullorðna og börn. Auk þess eru fjölmörg námskeið í gangi og má nálgast allar upplýsingar hér https://www.olfus.is/static/files/skrar/sumarnamskeid_2019-lagf.3.pdf

 

Námskeið í útvarpsþáttagerð

Námskeiðið er ætlað fólki á aldrinum 14 - 99 ára og sérhæfð tæknikunnátta er ekki skilyrði fyrir þáttöku. Farið verður yfir ýmis atriði sem tengjast viðtalstækni, dagskrárgerð og raddbeitingu og endað á lokaverkefni sem verður hluti af dagskrá útvarps Hafnardaga.

Kennt verður fimmtudagana 20. júní og 27. júní kl. 19-22 og þriðjudaginn 6. ágúst kl. 16. Þátttökugjald er 10.000 kr. og fer skráning fram á sumarnamskeid2019@gmail.com

 

Ritlistarnámskeið fyrir 12 ára og eldri, líka fullorðna. Frítt! 

Í fyrsta sinn er nú boðið upp á Ritlistarnámskeið þar sem unglingum og fullorðnum (12 ára og eldri) gefst kostur á að þróa hæfileika sína í að skrifa sögur, ljóð eða hvað svo sem hverjum og einum langar að fást við. Leiðbeinandi er rithöfundurinn og djákninn Guðmundur Brynjólfsson og fer kennslan fram í Grunnskólanum í Þorlákshöfn 24., 25., og 27. júní kl. 10-12. 

Frítt er á námskeiðið! Skráning fer fram á sumarnamskeid2019@gmail.com

 

Tónlistarnámskeið fyrir 14-18 ára

Júlí Heiðar þarf vart að kynna en hann mun nú í fyrsta sinn að bjóða upp á tónlistarnámskeið fyrir 14-18 ára. Á námskeiðinu verður skoðuð leiðin frá hugmynd að fullkláruðu lagi og kennt á einföld upptökuforrit. Hver nemandi býr til eitt lag. Þetta er virkilega spennandi og gæti gangast þeim fjölmörgu efnilega tónlistarfólki sem hér býr sem og þeim sem langar að prófa sig áfram í tónlist í fyrsta sinn.

Þátttökugjald er 8900 kr. og skráning fer fram á sumarnamskeid2019@gmail.com

Tímasetning: 24. -28. júní kl. 17:00-19:00

 

Leiklistarnámskeið

Júlí Heiðar mun einnig bjóða upp á leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga sem verða dagana 1.-5. júlí. Kennt verður í tveimur hópum, 9-11 ára kl. 9-12 og 12-14 ára kl. 13-16. Þar verður farið í grunn í leiktækni ásamt því að virkja sköpunarkraftinn þar sem nemandinn fær að búa til stutt leikverk og flytja það. Einnig læra krakkarnir helling af skemmtilegum leiklistarleikjum og æfingum.

Námskeiðsgjald er 8900 kr. og skráning fer fram á sumarnamskeid2019@gmail.com

 

Sumarnámskeið Hugarfrelsis  

Sumarnámskeið Hugarfrelsis verður dagana 1.-5- júlí. Kennt verður í tveimur hópum, 7-9 ára kl. 9:30-12:30 og 10-12 ára kl. 13-16

Þetta er skemmtilegt námskeið þar sem lögð er áhersla á leik og gleði svo barnið geti blómstrað sem einstaklingur. Börnin læra ýmsar aðferðir til að koma auga á styrkleika sína, styrkja sjálfsmyndina, læra á hugann sinn, efla vináttuna og jákvæða hugsun. Farið er í jógaleiki og æfingar sem styrkja jafnvægi, einbeitingu, samvinnu og samhæfingu Í lok hvers dags er slökun og lesin hugleiðslusaga

Kennari er Helga Helgadóttir og er þátttökugjald 19.900. 

Skráning fer fram á www.hugarfrelsi.is 

 

Smíðavöllurinn

Smíðavöllurinn hefst 1. júlí og er í tvær vikur. Smíðað er frá 13:00 – 15:00 mánudaga til fimmtudaga. Að venju er ekkert gjald og allir velkomnir. Það þarf bara að mæta með hamar og góða skapið. Umsjón með námskeiðinu hafa þau Kristín Dís Guðlaugsdóttir og Elfar Bragason, auk aðstoðarmanna úr vinnuskólanum.

 Mæting er við leiksvæði grunnskólans.

 

Veggjalist 

Skráning stendur yfir á námskeið í veggjalist sem er fyrir þau sem voru að klára 8. bekk og eldri, fullorðna líka og eru þeir sérstaklega hvattir til að skrá sig.

Dagsetningar námsekeiðsins eru 30. og 31 júlí kl.19:00-22:00, 6. og 7. ágúst kl. 19:00-22:00 og 8. ágúst kl. 18:00-21:00.

Farið verður í hugmynda- og skissuvinnu, rúðustækkanir og að endingu málar hver þátttakendi sitt verk á sameiginlega útivegg allra þátttakenda og úr verður stórt listaverk sem verður tilbúið á Hafnardögum og mun vonandi skreyta Þorlákshöfn næstu árin.

Kennari er Ágústa Ragnarsdóttir og er þátttökugjald 15.000 kr. 

Skráning fer fram á sumarnamskeid2019@gmail.com 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?