Ný útiljósmyndasýning við Selvogsbraut

utiljosmyndasyningÍ morgun var formlega opnuð ný útiljósmyndasýning við Selvogsbraut á móti versluninni Kjarval. Þetta er í fimmta skipti sem opnuð er útisýning í sýningarkössum sem starfsmenn í SB skiltagerð smíðuðu fyrir menningarnefnd árið 2006.  Sýningarkassarnir hafa staðið af sér það vonskuveður sem stundum geysar í Þorlákshöfn og engar myndir hafa skemmst á þessu tímabili.  Myndirnar sem nú eru til sýnis eru að miklu leiti úr ljósmyndasafni Ölfuss og myndefnið félagasamtök í Þorlákshöfn. Flestar myndanna eru teknar á tímabilinu 1960 til 1987.  Félögin sem hér um ræðir eru Leikfélag Þorlákshafnar, Ungmennafélagið Þór, Lúðrasveit Þorlákshafnar, Hestamannafélagið Háfeti, Söngfélag Þorlákshafnar og Kvenfélag Þorlákshafnar.

 

Fleiri félög voru starfandi á þessum tíma en því miður voru ekki til myndir úr starfi þeirra á Bæjarbókasafni Ölfuss. Menningarfulltrúi hvetur félaga sem eiga góðar myndir, að leyfa starfsmönnum safnsins að skanna ljósmyndir til varðveislu í myndasafni Ölfuss.
Margir komu færandi hendi með myndir þegar leitað var eftir því og aðstoðuð við að greina myndefnið. Undirrituð þakkar fyrir alla hjálpina við undirbúning sýningarinnar. Þetta eru dýrmætar upplýsingar sem koma til með að nýtast sem heimild um liðinn tíma í sögu Þorlákshafnar.
 
Við opnun sýningarinnar sungu börn úr leikskólanum Bergheimum tvö lög. Sólin skein og létt var yfir mannskapnum.
Myndir er hægt að skoða á snjáldursíðunni: http://www.facebook.com/home.php#!/photo.php?pid=4207947&id=136961043748
Einnig er þar að finna myndupptöku af söng barnanna:  http://www.facebook.com/home.php#!/video/video.php?v=128262040525845
Myndefnið tók Sigfús Benóní Harðarson.
 

Barbara Guðnadóttir

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?